Fréttir

Mannskæðra snjóflóða minnst

17. apr. 2019

Föstudaginn 12. apríl sl. stóðu Síldarminjasafnið og Siglufjarðarkirkja fyrir dagskrá til að minnast mannskæðustu snjóflóða sem fallið hafa í hreppnum. Dagana 12. - 13. apríl árið 1919 féllu snjóflóð á Siglunesi, í Héðinsfirði, í Engidal og Siglufirði. 

Enginn varð fyrir sjóflóðinu á Siglunesi, en í Héðinsfirði létust tveir menn, mágar - annar á Ámá og hinn í Vík. Í Engidal létust sjö manns, sem lágu í fastasvefni í rúmum sínum þegar flóðið féll af miklum þunga yfir bæinn og á Staðarhólsbökkum fórust níu manns er gríðarlega víðfemt flóð féll á athafnasvæði Evangersverksmiðjunnar og á bæinn Neðri-Skútu. 

Gengið var frá gömlu flugbrautinni út að rústum Evangersverksmiðjunnar í dásemdarveðri. Meðan gestir gæddu sér á kaffi og kleinum sagði Anita Elefsen frá byggingu, umfangi og rekstri verksmiðjunnar á Staðarhólsbökkum og því hvernig ofurlítið þorp reis smám saman á staðnum. Þótti Siglfirðingum það tilkomumikið á síðkvöldum að sjá ljósadýrðina þar speglast í lognkyrrum sjávarfletinum og gufumökkinn frá síldarbræðslunni hverfa út í rökkrið. Þótt snjóflóðið væri Evangersbræðrum mikið áfall byggðu þeir aftur upp á Staðarhólsbökkum árið 1922 og ráku þar umtalsverða síldarsöltun í nokkur ár - en jafnframt byggðu þeir síldarversmiðju á Raufarhöfn, og fluttu sig austur um land. Verksmiðjunni var komið saman með bæði nýjum og gömlum vélum. Hluti vélanna kom frá Dagverðareyri og sitthvað var úr Evangersverksmiðjunni, og var það sótt á hafsbotn á Siglufirði og flutt austur til Raufarhafnar! Verksmiðjuna seldu þeir síðar Síldarverksmiðjum Ríkisins, og lauk umsvifum þeirra á Íslandi þar með. 

Steinunn M. Sveinsdóttir sagði frá sjálfu snjóflóðinu og því mikla áfalli sem samfélagið varð fyrir er átján manns létust á einum og sama sólarhringnum. Frásögnin byggir á blaðagreinum og Siglfirskum annál Þ. Ragnars Jónassonar:

Það er óneitanlega undarleg tilfinning að standa hér í blíðskaparveðri og hugsa til þeirra hörmunga sem riðu yfir á sama stað fyrir nákvæmlega 100 árum, í hríðarbyl og nístingskulda. Siglufjörður var í örum vexti á þeim tíma og samkvæmt tölum Hagstofunnar bjuggu hér tæplega 1200 manns – sem er sami íbúafjöldi og í dag.

Snjóflóð hafði fallið hér á þessum sama stað 80 árum áður. Á þorláksmessu 1839 féll stórt snjóflóð úr Staðarhólsfjalli. Flóðbylgja æddi yfir fjörðinn og lenti á eyrinni vestan megin þannig að sjö skip skemmdust eða brotnuðu.

„Þar er skriðunnar von, er hún hefur fyrr fallið“ segir máltækið en óvíst er að menn hafi áttað sig á því hversu mikil snjóflóðahætta vofði yfir byggingunum sem voru reistar hér í upphafi 20. aldar. Snjóflóðið sem við rifjum hér upp féll aðfararnótt 12. apríl, þegar fólk var í fasta svefni og átti sér einskis ills von.

Um flóðið hefur verið fjallað í ýmsum heimildum en frásögnin sem birtist í bæjarblaðinu Fram, sem var gefið út hér á Siglufirði 1916-1922, strax þann 12. apríl er átakanleg og færir okkur sem ekki upplifðum atburðina eins nálægt þeim og unnt er.

Blaðið hafði verið í undirbúningi, það var gefið út á hverjum laugardegi, og forsíðan hefur verið tilbúin því að snjóflóðið nær því ekki að vera forsíðufrétt heldur er hana að finna á blaðsíðu tvö. Þar er fyrirsögnin „Ógurlegt snjóflóð“ og þá er rétt að grípa niður í fréttina sjálfa en undirfyrirsögnin hljómar svo:

Ógurlegt snjóflóð féll hér austan fjarðar í nótt. Tók yfir um 1000 faðma svæði. Sópaði sjö húsum út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri-Skútu. 16 manns lentu í flóðinu. 7 néðust lifandi eftir lO tíma. 9 manns ófundið ennþá og talið af. Flóðbylgjan æddi hér yfir á eyri og gerði stórskaða. Tjónið um 1,5 milljón kr.

Það er ekki síður átakanlegt að lesa Fram og önnur blöð sem gefin voru út næstu vikur eftir að flóðið féll. Fregnir af því að lík hafi fundist og enn séu einhver ófundin, jarðarfarartilkynningar og tilkynningar um björgunarlaun fyrir allan trjávið og annað sem finnst á floti mátti sjá á síðum dagblaðanna.

En það yljar einnig um hjartarætur að lesa þakkartilkynningar aðstandenda, hvatningu um að rétta fólki hjálparhönd og leggja það af mörkum sem fólk mátti missa – hversu lítið sem það mátti vera. Listar yfir þá sem höfðu gefið peninga til handa þeim sem höfðu misst allt, voru birtir vikulega og upphæðir tilgreindar. Þar má m.a. sjá að Gustav Evanger hafði látið 200 krónur af hendi rakna í söfnunina. Þann 19. apríl var svo greint frá því að Einar Hermannsson og fjölskylda hans úr Neðri-Skútu væru orðin svo hress að þau flyttu nú frá Árbakka, bæ sem stóð litlu sunnar en Neðri-Skúta og þau höfðu dvalið í frá því að þau fundust, og á eyrina í hús sem kallað var Amsterdam og var í eigu Tormods Bakkevig.

Samfélagið var lítið en hjartað stórt, og sorgin mikil en hluttekningin og samheldnin var einnig mikil. 

sr. Sigurður Ægisson minntist hinna látnu og las minningarorð sem sr. Bjarni Þorsteinsson ritaði þremur vikum eftir snjóflóðin og birti í bæjarblaðinu Fram. Að endingu fóru allir viðstaddir með bænina Faðir vor. 

Að gönguferðinni lokinni hélt hópurinn bílleiðis til Héðinsfjarðar og í Engidal. Á báðum stöðum las Anita Elefsen greinargóðar samtímalýsingar á atburðunum, ritaðar af Jóni Jóhannessyni fræðimanni. Umræddar greinar má finna í þjóðsagnasafninu Grímu. 

Laugardaginn 13. apríl lauk dagskránni með kyrrðarstund í Siglufjarðarkirkju, helgaðri minningu hinna látnu.


sr. Sigurður les minningarorð um þau er létust í snjóflóðunum 

 Sagt frá snjóflóðunum sem féllu við bæina Vík og Ámá í Héðinsfirði

 Við minnismerki um hin látnu í Engidal á Dölum



Sjá einnig grein Þ. Ragnars Jónassonar, Snjóflóðin miklu 1919 á vefsíðu Siglfirðings.

Fréttir