Um síldina

Síldin (clupea harengus) lifir eingöngu í Norðurhöfum og hefur frá upphafi vega verið einn helsti nytjafiskur jarðarbúa. Síldin fer um í geysistórum torfum og þótt göngur hennar væru að mestu þekktar og hún veidd oft í miklu magni, þá var fátt eins illt að treysta á og hina hverfulu síld.
Fornar mannvistarleifar sýna að síld var ein helsta fæða sumra Evrópuþjóða fyrir þúsundum ára. Þessi bætiefnaríka og holla fæða var bjargvættur snauðra og undirstaða efnahags stórvelda. Upphaf nýlenduveldis Englendinga og Hollendinga er talið hafa byggst á síldveiðum og síldarverslun. Þessar þjóðir háðu sjóorrustur sín á milli um yfirráð yfir síldarmiðum árið 1673 og er það í eina skiptið sem fiskur hefur valdið blóðugum bardögum svo vitað sé.

Norðmenn urðu síðar mesta síldveiðiþjóð í Evrópu. Einnig stunduðu Þjóðverjar, Skotar og Frakkar miklar síldveiðar.
Þjóðsagan segir að fiskar hafdjúpanna hafi kosið síldina sem konung sinn. Var það fyrir sundfimi hennar og fegurð því að hún er að sjá sem sindrandi silfur eða glitrandi demantur. Í samræmi við það og verðgildi hennar hafa Íslendingar gefið henni nöfn eins og silfur hafsins, demantssíld, gull Íslands. Guðsgjöf er þó það nafn sem einna best lýsir mikilvægi síldarinnar fyrir einstaklinga og þjóðir á fyrri tíð - og kannski enn.

Nánar má lesa um síldina á vef Wikipedia.

Til fróðleiks: Sjá hér örstutt myndskeið af síldartorfu