100 ára afmæli
Í dag, 20. maí 2018, er haldið upp á 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar, en jafnframt eru liðin 200 ár frá því að staðurinn öðlaðist verslunarréttindi. Í tilefni afmælisins gefur Síldarminjasafnið út bók síðar á þessu ári, og má segja að útgáfa hennar verði gjöf safnsins til samfélagsins og um leið skref til miðlunar á sögu staðarins. Um er að ræða veglega ljósmyndabók sem starfsmenn safnsins hafa unnið að undanfarin misseri. Í bókinni verður að finna á annað hundrað ljósmynda sem hafa verið valdar af mikilli kostgæfni, með það að leiðarljósi að endurspegla sögu staðarins á sem fjölbreyttastan hátt. Ljósmyndirnar eru frá elstu tíð og til nútímans og hverri ljósmynd fylgir hnitmiðaður texti. Ljósmyndir þær sem birtast í bókinni verða að miklu leyti úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar, en jafnframt úr Ljósmyndasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Minjasafnsins á Akureyri og úr einkasöfnum. Val á ljósmyndum miðaði að því að horfa til fleiri þátta en síldarinnar og ævintýrisins í kring um hana, sem og að velja lítt þekktar ljósmyndir. Myndavalið varpar ljósi á skólastarf, framfararmál, atvinnulíf, íþróttir, skíðaiðkun og hið daglega amstur svo dæmi séu nefnd.
Útgáfa bókarinnar fer fram á haustdögum, en í tilefni dagsins birtist hér einn kafli bókarinnar – sem segir frá þessum sama degi, fyrir hundrað árum síðan:
20. maí 1918 má telja einn merkasta dag í sögu Siglufjarðar. Samtímis því að heimamenn fögnuðu 100 ára verslun á staðnum öðlaðist bærinn kaupstaðarréttindi, sá sjötti á landinu. Sveit varð kauptún og nú kaupstaður. Fyrir þessu höfðu Siglfirðingar barist um skeið undir öflugri forystu sr. Bjarna Þorsteinssonar.
Klukkan 7 að morgni bergmáluðu fallbyssuskot yfir bænum, blásið var í lúðra og fánar dregnir að húni. Svo hófst skrúðganga 200 hvítklæddra barna undir leik lúðraflokks. Keppt var í íþróttum og kl. 11 hófst guðþjónusta í kirkjunni. Söngflokkur steig á blómum skreytt svið undir blaktandi fánum og söng tvö frumort ljóð tileinkuð Siglufirði við ný lög séra Bjarna Þorsteinssonar. Þá flutti sr. Bjarni aðalhátíðarræðuna og að henni lokinni hrópaði mannfjöldinn nífalt húrra fyrir Siglufirði. Fjölmörg heillaskeyti voru lesin – frá Alþingi, Stjórnarráði Íslands og fjölmörgum velunnurum staðarins. Fannst mörgum að á þeirri stundu hafi hátíðin náð hámarki.
Loks var dans stiginn fram á morgun. Hafði hátíðin þá staðið fullan sólarhring. Margt aðkomufólk var viðstatt og komu tvö vélskip frá Akureyri „hlaðin farþegum og fánum skreytt”.
Ljósmyndin er frá tíu ára afmæli kaupstaðarins, 20. maí 1928.
Fréttir
- Eldri frétt
- Nýrri frétt