30 ár frá vígslu Róaldsbrakka
Safnið fagnar nú öðrum áfanga þessa afmælisárs – en í dag eru 30 ár liðin frá því að Róaldsbrakki var vígður sem fyrsta safnhús Síldarminjasafnins. Húsið sjálft var hluti af einni stærstu söltunarstöð landsins; glæsilegt háreist hús, byggt í sjó fram árið 1907. Sjötíu árum síðar komst húsið í eigu Siglufjarðarkaupstaðar og var ætlað að hýsa safn um síldarsöguna. Ekki voru allir á eitt sáttir um þau áform og uppi voru háværar raddir um að rífa ætti húsið, þrátt fyrir friðlýsingu þess. Áhugamenn máluðu brakkann árið 1985 og í stað hins hrörlega húss, sem verið hafði í niðurníðslu árum saman, birtist nú fallegt og reisulegt hús.
Félag áhugamanna um minjasafn, FÁUM, var stofnað árið 1989 og hófst þá ötul og fórnfús vinna sjálfboðaliða við endurgerð hússins – sem gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Nauðsynlegt var að steypa nýjar undirstöður fyrir húsið – neðsta hæð brakkans var rifin og hann færður um 40 metra á nýjan grunn. Í ágúst 1991 fauk brakkinn af nýjum grunni sínum, skall á hliðina og skemmdist allmikið. Bein, sem stóð sunnan við brakkann, og var hluti af framtíðarsýn FÁUM, féll eins og spilaborg í öðru fárviðri sama haust. En sjálfboðaliðarnir létu ekki deigan síga. Endurbygging Róaldsbrakka hélt áfram og brak hússins Bein var rifið í sundur í þeim tilgangi að nýta húsviðina til bæði viðgerða og nýsmíði. Um mitt sumar 1994, þann 9. júlí, var Róaldsbrakki vígður við hátíðlega athöfn og hefur staðið gestum opinn síðan. Fyrsta sumarið töldu safngestir 4.250 – en gestafjöldinn fram til dagsins í dag hefur nær hundraðfaldast þar sem safngestir frá árinu 1994 telja ríflega 435.000!.
- Eldri frétt
- Nýrri frétt