Aðventuheimsóknir leik- og grunnskólabarna
Fyrstu tvær vikurnar í aðventu voru líflegar hjá okkur, en þá fóru fram á Síldarkaffi hinar árlegu aðventustundir fyrir leik- og grunnskólabörn í Fjallabyggð.
Síldarminjasafnið bauð um 200 nemendum á aldrinunm 3 - 13 ára í heimsókn. Að þessu sinni fengu börnin fræðslu um jólasveina, og voru beðin um að teikna mynd af sínum uppáhalds jólasveini. Að lokum fengu krakkarnir heitt súkkulaði og smákökur og sungu saman nokkur jólalög.
Að öllum heimsóknum loknum var haldin vinsældakosning til að komast að því hvaða jólasveinn væri í uppáhaldi hjá krökkunum. Og viti menn – Stúfur hlaut afgerandi sigur úr bítum, en hann hlaut um 40% atkvæða! Í öðru sæti var Kertasníkir með 20% atkvæða, en Stekkjastaur og Hurðaskellir komu þar á eftir með 15% hvor. Hinir jólasveinarnir hlutu færri atkvæði, en sérstaka athygli vakti að þeir Giljagaur og Askasleikir fengu engin atkvæði.
Við þökkum nemendum og starfsfólki skólanna kærlega fyrir ánægjulegar stundir.