Fréttir

Áramótakveðja

31. des. 2023

Árið 2023 hefur verið okkur gjöfult hér á Síldarminjasafninu. Enn fögnum við metaðsókn – heildarfjöldi safngesta var 35.000 á árinu og hlutfall erlendra gesta rúmlega 70%. Síldarsaltanir á planinu við Róaldsbrakka voru 62 og leiðsagnir um safnið rúmlega 550.

Verkefnin á stóru safni eru fjölbreytt og skemmtileg. Móttaka gesta og miðlun sögunnar er veigamikill þáttur í rekstri safnsins, en þar að auki sinnum við varðveislu og skráningu safnkosts af kappi og reynum að gera það með skipulögðum hætti. Þá nýtast vetrarmánuðirnir til rannsókna, umsóknar- og skýrsluskrifa, áframhaldandi vinnu við ljósmyndakostinn sem er ansi umfangsmikill og ýmisskonar samstarfs, innanlands- og utan. Við leggjum okkur fram til að bjóða upp á fjölbreytta viðburði fyrir gesti úr nærsamfélaginu allan ársins hring og keppumst jafnframt við að halda áfram uppbyggingu Salthússins sem sífellt þokast nær því að verða tilbúið.

Nýju ári fygja nýjar áskoranir og spennandi verkefni, en hér starfar samheldinn hópur fólks og hlökkum við mikið til þess sem koma skal.

Við þökkum öllum þeim sem sótt hafa safnið heim á árinu, fært okkur gripi til varðveislu og aðrar gjafir og þeim sem hafa átt í samstarfi við okkur – sem og öllum sem fylgjast með okkur hér á samfélagsmiðlum. Með ósk og gleðilegt og gjöfult nýtt ár!


Fréttir