Fréttir

Bátasmíðaskólar í Svíþjóð heimsóttir

9. maí 2023

Safnstjóri Síldarminjasafnsins hélt til Svíþjóðar í síðustu viku til að heimsækja bátasmíðaskóla og kynnast því hvernig Svíar standa vörð um verkþekkingu við smíði tréskipa- og báta. Með í för voru Sigurbjörg Árnadóttir formaður Vitafélagsins – íslenskrar strandmenningar, Einar Jóhann Lárusson nýútskrifaður bátasmiður, Birkir Þór Guðmundsson áhugamaður um bátavernd og Hrafnkell Marínósson kennari við Tækniskólann.

Tveir lýðháskólar voru heimsóttir, sem báðir bjóða tveggja ára nám í bátasmíði. Annar þeirra, Skeppsholmens Folkhögskola stendur í miðborg Stokkhólms en hinn, Stensunds Folkhögskola er staðsettur utan við Trosa, 70 km. suður af Stokkhólmi.

Þá fékk hópurinn kynningu á starfsemi Stockholms Båtsnickeri – bátasmiðju sem starfrækt er í úthverfi borgarinnar. Þar starfa fimmtán bátasmiðir í fullu starfi við viðgerðir, viðhald og nýsmíði á tréskipum. Nær allir starfsmennirnir sóttu menntun sína í bátasmíðum við Skeppsholmen lýðháskólann.

Þekking og kunnátta bátasmiða er gulls ígildi - fágæt, verðmæt og einstök. Raunar svo einstök að verkþekkingin og handverkið við smíði norrænna súðbyrðinga var fyrir liðlega ári síðan sett á heimsminjaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf.

Íslensk sjóminja- og byggðasöfn varðveita súðbyrðinga og aðra trébáta - en hér er raunverulega hætt við því að verkþekkingin við smíði og viðgerðir þeirra glatist þar sem löggilding iðngreinarinnar hefur nú verið afnumin og engin hvatning er til náms í bátasmíðum.

Um nokkurt skeið hefur Síldarminjasafnið, í góðri samvinnu við Hafliða Aðalsteinsson tréskipasmið og meistara Einars, boðið árlega upp á svokölluð bátasmíðanámskeið. Þau eru að vissu leyti dropi í hafið - því enginn verður fullnema bátasmiður á einni viku - en þar fæst tækifæri til að auka þekkinguna, skilninginn og hæfileikana - og kveikja áhugann. 

Til ferðalagsins hlaust styrkur úr Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum / Svensk-Isländska samarbetsfonden.

Fréttir