Enn flæðir á safnsvæðinu
Úrkoma á Siglufirði hefur verið með allra mesta móti í dag. Snemma í morgun var þegar farið að flæða upp um gólfplötuna í Njarðarskemmu og bætti hratt í. Undir miðjan morgun komu liðsmenn úr Björgunarsveitinni Strákum með dælur og hófu að dæla vatni úr húsinu og út í fráveitukerfið, sem þó annar engan veginn ástandinu. Þegar leið á daginn versnaði ástandið enn og undir kvöld var vatnsdýptin inni í Njarðarskemmu orðin 90 cm. og nálgaðist vatnið óðum gólfhæðina í Gránu.
Slökkvilið Fjallabyggðar og Akureyrar brugðust hratt við og komu með stórtækar dælur um miðja nótt og hófu að dæla út í s´jó vatni sem stöðugt streymdi undan bökkunum og safnaðist fyrir á lóð safnsins og bættu við dælum í Njarðarskemmu. Þá flæddi jafnframt inn í Bátahúsið og varð vatnshæðin þar mest 40 cm. auk þess sem lónið framan við Róaldsbrakka flæddi yfir bryggjurnar og mikið vatn streymdi inn í Ásgeirsskemmu.
Síldarminjasafnið þakkar Björgunarsveitinni Strákum og Slökkvilíði Fjallabyggðar, Akureyrar og Dalvíkur kærlega fyrir dýrmæta aðstoð - á sama tíma og vonir eru bundnar við verulegar úrbætur á frárennslismálum á svæðinu.
Fréttir- Eldri frétt
- Nýrri frétt