Fréttir

Gestkvæmt á hrekkjavöku

1. nóv. 2023

Síðdegis í gær, 31. október, var gestum og gangandi, draugum, beinagrindum og allskyns furðuverum boðið að heimsækja Gránu sem hafði tekið á sig skuggalega mynd. Síldarverksmiðjan varð um stundarsakir hin draugalegasta og innanhúss leyndust meðal annars aftugengnar síldarstúlkur og verksmiðjukarlar. Þeir allra huguðustu heimsóttu mannlausan olíutankann þar sem Móðir mín í kví kví ómaði í myrkrinu við tóma ungbarnavöggu úr síldartunnu.
Satt best að segja fór viðburðurinn langt fram úr væntingum okkar sem að honum stóðu. Þegar klukkan sló fimm streymdu að gestir á öllum aldri og næstu þrjá klukkutímana komu rétt rúmlega 300 manns! 
Við viljum þakka öllum þeim sem lögðu leið sína í Gránu í gær kærlega yfir komuna! Þetta var hryllilega gaman og við hlökkum hræðilega mikið til að endurtaka leikinn að ári! 

Fréttir