Fréttir

Hugo Llanes sýnir í Tankanum

12. júl. 2022

Mexínanski listamaðurinn Hugo Llanes sýnir verk sitt I am here with the leaves, with the ants í Olíutankanum dagana 15. - 20. júlí. Verkið er videoverk sem byggir á ljóðrænni hugleiðingu um sorg, missi og tilfinningaþrungna leiðslu sem á sér stað innra með okkur og hvernig félagsskapur getur leitt okkur í gegnum þjáningar okkar.

Hugo Llanes er fæddur 1990 í Xalapa, Veracruz í Mexíkó. Hann býr og starfar í Reykjavík og útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020. Hugo vinnur með pólitíska og félagslega bresti og fagurfræðina sem af því sprettur. Verk hans eru í formi málverka, ætilegra verka, innsetninga, rýmistengdra verka og staðbundinna gjörninga. Með verkum sínum skoðar hann félagslegar aðstæður, s.s. flutning fólks á milli landa, valdbeitingu og áhrifa síðnýlendustefnunar á þróun sjálfsmyndar Rómönsku Ameríku, stöðu sjálfstæðrar þjóðar, annarleika og pólitíska andspyrnu, auk þess sem hann vinnur með þema matar sem ádeilu á félagsleg vandamál og skoðar hvaða þýðingu upplifun okkar í gegnum matargerð hefur. Með ljóðrænni framsetningu verka sinni sér hann fram á mögulegan vettvang til að kryfja til mergjar þessi samofnu flóknu og krefjandi viðhorf. Hugo álítur að hið persónulega míkrókerfi sé berskjaldað gagnvart hinu hnattræna og með framsetningu sinni reynir hann að hvetja áhorfandann til þátttöku og íhugunar.

 

Verkið hlaut stuðning Myndlistarsjóðs 2022.

Tankinn verður gestum opinn og aðgengilegur á opnunartíma safnsins, frá kl. 10 - 18 dagana 15. - 20. júlí.
Verið öll hjartanlega velkomin! 

Fréttir