Fréttir

Landhelgisgæslan færir safninu togvíraklippur

27. maí 2022

Föstudaginn 27. maí heimsótti öldungaráð Landhelgisgæslunnar Síldarminjasafnið og höfðu togvíraklippur af Ægi meðferðis og færðu safninu til varðveislu. Eins og þekkt er voru togvíraklippur helsta vopn Íslendinga í þorskastríðunum og var þeim fyrst beitt þann 5. september 1972. Sigurbjörn Svavarsson, þá 3. stýrimaður á Ægi tók þátt í fyrstu klippingunni var meðal afhendanda – en í hópnum voru allmargir sem beittu slíkum klippum á meðan þorkastríðunum stóð. Veiðarfæri voru klippt aftan úr 147 togurum á árunum 1972 - 1975 og klippti Ægir aftan úr flestum þeirra, eða alls 51.
Halldór B. Nellett, formaður öldungaráðs Landhelgisgæslunnar, flutti ávarp við afhendingu togvíraklippanna og er það birt hér með góðfúslegu leyfi. 

Í heil 50 ár eða frá 1901 til 1952 vorum við Íslendingar bundnir af samningi Dana við Breta þegar landhelgin var færð út í 3 mílur. Leiðin var mörkuð árið 1948 og kannski ekki alveg í samræmi við alþjóðalög á þeim tíma en þá samþykkti Alþingi samhljóða lög sem hétu „Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins“. Það var mikil framsýni hjá þeim sem stóðu að þessari lagasetningu og fór þar fremstur, Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur. Framlag hans var þjóðinni ómetanlegt í baráttunni fyrir útfærslu landhelginnar.

Þessi lög eru grunnurinn að síðari útfærslum fiskveiðilögsögunnar, 4 mílur 1952, 12 mílur 1958, 50 mílur 1972 og loks 200 mílur 1975. Skömmu eftir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í fjórar mílur árið 1952 hafði Pétur Sigurðsson forstjóri Landhelgisgæslunnar eitthvað skoðað það hvort mögulegt væri með einhverjum hætti að slíta togvíra í sundur. Pétur mun hafa fengið Friðrik Teitsson, járnsmíðameistara hjá Vita- og hafnamálastofnun til liðs við sig og hönnuðu þeir í sameiningu upphaflegu klippurnar. Þetta verkfæri var keimlíkt krækjum sem Bretar munu hafa notað í stríðinu til að losa tundurduflalagnir og þaðan fengu þeir hugmyndina.

Höskuldur Skarphéðinsson skipherra lýsti því í bók sinni „Sviptingar á sjávarslóð“ þegar fyrstu tilraunir með togvíraklippunum fóru fram. Í fyrstu gengu tilraunirnar sem fram fóru á varðskipunum Maríu Júlíu og gamla Ægi í lok árs 1958 undan Þykkvabæjarfjöru hálf brösuglega en gáfu þó sterklega til kynna að klippurnar gætu gagnast vel í þeim ójafna leik sem fram færi á miðunum.

Höskuldur getur þess jafnframt að í baráttunni um 12 mílurnar hafi „hvorki reynst reisn né vilji“ hjá stjórnvöldum til að nota klippurnar og meir en áratugur leið þar til þörf var á að dusta ryð og ryk af þessu frábæra verkfæri sem án efa lagði gruninn að yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum.

Það er nokkuð ljóst þegar sagan er skoðuð að við Íslendingar vorum lánsamir að hafa fært út fiskveiðilögsöguna á þessum tíma eða 1972, og ekki seinna vænna.

Miðin voru þá á þessum tíma frjáls öllum þjóðum utan 12 mílna. Þegar undirbúningur og umræður stóðu yfir að færa lögsöguna út fór Landhelgisgæslan í eftirlitsflug í maí 1971 á Skymastervélinni TF-SIF. Í umræddu flugi kom í ljós að á miðunum sáust eftirtalin erlend skip: 11 pólskir skuttogarar, 18 rússneskir skuttogarar og eitt móðurskip, 11 A-þýskir skuttogarar, 6 óþekktir, sennilega franskir og spænskir. Auk þess voru að jafnaði 60-70 breskir togarar og 30 – 40 V-þýskir.

Eins og þessar tölur bera með sér voru hér við veiðar um 150-160 erlend togveiðiskip mjög fullkomin og afkastamikil. Talið var að þessi erlendi floti væri að veiða jafn mikið og íslenski flotinn veiddi þá af botnlægum fiski.

Á áttunda áratugnum óx síðan veiðigeta íslenska flotans til mikilla muna með fjölgun skuttogara um allt land. Ef ekki hefði verið brugðist við með útfærslu fiskveiðilögsögunnar á þessum tíma ætla ég að leyfa mér að fullyrða að eins hefði farið fyrir fiskistofnunum hér við land eins og gerðist við Nýfundaland fyrri um 30 árum. Þar hrundi þorskstofninn algjörlega vegna ofveiði erlendra ríkja þar, mestmegnis stórir flotar frá gömlu Sovétríkjunum.

[...]

En nóg um söguskoðun og aftur að togvíraklippunum.

Klippunum var fyrst beitt 5. september 1972 þegar skorið var á forvír vörpunnar á togaranum Peter Scott frá Hull. Þann dag kom varðskipið Ægir að togara að veiðum norðaustur af Hornbanka. Togarinn var ómerktur, járnplötur soðnar yfir nafn og númer og enginn þjóðfáni sjáanlegur. Einnig var málað yfir einkennisstafina á reykháfi. Guðmundur Kjærnested, sem var skipherra á Ægi, segir svo frá í æviminningum sínum:

„...varð mikið uppistand meðal bresku togaranna sem þarna voru á veiðum um 22 sjómílur innan nýju 50 mílna markanna. Allir hífðu upp trollin og komu siglandi á fullri ferð. Við á Ægi fórum hring um óþekkta togarann og komum nærri stjórnborðs skuthorni hans. Áhöfnin stóð á bátaþilfari og skipverjar köstuðu kolamolum og alls kyns rusli yfir í varðskipið. Einn skipverja á togaranum kastaði stórri brunaöxi sem fór í sjóinn á milli skipanna.

Um mikilvægan atburð var að ræða því með togvíraklippingunni sannaði Gæslan að hún var fullfær um að framfylgja íslenskum lögum, þau væru ekki innantómur bókstafur með ekkert afl að baki sér.”

Þessar togvíraklippur sem við afhendum safninu hér eru úr varðskipinu Ægi. Ekki er til haldbær tölfræði um hversu margir togarar nákvæmlega lágu í valnum við notkun með þessum klippum. Samkvæmt samantekt Guðmundar St.Valdimarssonar bátsmanns á Freyju var alls klippt aftan úr 147 togurum. Ægir mun hafa klippt aftan úr 51 togara af þeim 147 sem klippt var á í 50 og 200 sjómílna stríðunum og á milli stríða.

Þessi tölfræði um fjölda klippinga segir ekki alla söguna. Sú ógn sem stafaði af klippunum var alltaf yfirvofandi þegar varðskipin voru nálæg og enginn skipstjóri vildi missa trollið, þá var túrinn ónýtur sérstaklega þegar veiðar voru nýbyrjaðar.

Því hífðu þeir nær alltaf upp trollin og frátafir urðu miklar frá veiðum. Í lokin voru þeir hættir að treysta verndarskipunum hvort sem það voru dráttarbátar, togarar eða freigátur.

Þess má til gamans geta að hér í hópnum er einn aðili sem þátt tók í þessari fyrstu togvíraklippingu á Ægi þann 5.september 1972, Sigurbjörn Svavarsson en hann var þá nýútskrifaður stýrimaður og var 3 stýrimaður um borð.

Ég afhendi Síldarminjasafninu á Siglufirði hér með þessar togvíraklippur.

Á myndinni standa þau Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins, Halldór B. Nellett formaður öldungaráðs LHG, Sigurbjörn Svavarsson sem tók þátt í fyrstu klippingunni, Einar H. Valsson skipherra á Freyju og Auðunn Kristinsson verkefnisstjóri á aðgerðasviði og framkvæmdastjóri siglingasviðs LGH við togvíraklippurnar.

Fréttir