Fréttir

Lokahnykkur EEA samstarfsverkefnis

26. apr. 2024

Fimmtudaginn 18. apríl sl. var National Brewing Museum í bænum Kostelec nad Černými lesy í Tékklandi vígt við hátíðlega athöfn og voru þau Edda Björk Jónsdóttir og Daníel Pétur Daníelsson viðstödd fyrir hönd Síldarminjasafnsins. 

Síðastliðin þrjú ár hefur Síldarminjasafnið átt í samstarfi við safnið, en þar hefur verið unnið þrekvirki við endurrreisn 19. aldar bruggverksmiðjusem og alls tækjabúnaðarins sem notaður var til bruggunar. Afraksturinn er varðveisla dýrmætra menningarminja, húsbygginga og verkþekkingar. Gestir geta nú heimsótt einstakt safn, sem í senn er fullvirk bruggverksmiðja, byggð á tækni og notkun tækjabúnaðar frá því um 1930.

Verkefninu er nú formlega lokið en það hefur verið gríðarlega umfangsmikið og hlutverk okkar sem samstarfsaðila hefur fyrst og fremst verið að veita ráðgjöf um sýningarhönnun og upplifun gesta. Síldarminjasafnið leggur mikla áherslu á samstarf, bæði innlent og erlent, í starfi sínu. Þannig skapast mikilvægur vettvangur til að miðla þekkingu og reynslu úr héraði og ekki síst til að víkka sjóndeildarhringinn og læra af öðrum.

Fréttir