Fréttir

Minning síldarstúlkna heiðruð

31. júl. 2023

Laugardaginn 29. júlí var sannkölluð síldarstúlkna-hátíð á Siglufirði.

Í upphafi dags fór fram fjölmennt málþing í Bátahúsi Síldarminjasafnsins þar sem fyrirlesarar fjölluðu hver á sinn hátt um mikilvægi síldarstúlkna í sögulegu samhengi; hlutverk þeirra í síldariðnaðinum, í stétta- og kjarabaráttu kvenna, í baráttunni fyrir auknum jöfnuði kynjanna og síðast en ekki síst hlutverki þeirra og þýðingu í lífi þeirra nánustu.

Um miðjan dag var glæsilegt listaverk Arthúrs Ragnarssonar vígt við hátíðlega athöfn. Verkið, sem er minnisvarði um síldarstúlkur þjóðarinnar, stendur á nýsmíðaðri bryggju framan við safnhús Síldarminjasafnsins. Forsætisráðherra flutti ávarp við athöfnina og vígði verkið – og síldarstúlkurnar af Róaldsplaninu voru heiðraðar sérstaklega. Frá vígsluathöfn fylgdu gestir síldarstúlkunum á síldarsöltun og bryggjuball við Róaldsbrakkann.

Í alla staði frábær dagur! 

Fréttir