Námskeið um varðveislu málverka
Mánudaginn 8. apríl stóð Síldarminjasafnið fyrir námskeiði fyrir safnafólk á Norðurlandi um varðveislu málverka, með stuðningi Safnaráðs. Námskeiðið var vel sótt og átti að fara fram í Salthúsinu – en sökum illviðris og erfiðrar færðar var það á síðustu stundu fært í Menningarhúsið Berg á Dalvík, þar sem þátttakendur mættust á miðri leið ef svo má að orði komast.
Kennsla var í höndum Nathalie Jacqueminet málverkaforvarðar, sem fjallaði um öll helstu atriði sem hafa þarf að leiðarljósi við varðveislu málverka – en þau eru í eðli sínu flóknir og viðkvæmir safngripir og því mikilvægt að kynna sér varðveislu þeirra vel. Nathalie fór yfir hvernig skuli meta ástand listaverka og ganga frá þeim í geymslu sem og hvernig þau skuli búin til sýninga, meðal annars með ólíkum leiðum til upphengingar. Þá fengu þátttakendur að spreyta sig á því að ástandsmeta verk og hreinsa þau.
Við þökkum Nathalie og Safnaráði kærlega fyrir samstarfið um verkefnið – og þátttakendum öllum þökkum við góða og gefandi samveru.
- Eldri frétt
- Nýrri frétt