Ný útisýning: Síldveiðar Svía við Íslandsstrendur
Fimmtudaginn 5. júlí fór fram formleg opnun á farandsýningu frá Bohusl¨än Museum í Uddevalla í Svíþjóð um síldveiðar Svía við Íslandsstrendur. Af því tilefni voru viðstaddir á Siglufirði þrír starfsmenn frá Bohuslän Museum og tveir fyrrum síldveiðisjómenn, sem voru hér á Siglufirði í lok sjötta áratugarins.
Sýningin er útisýning og stendur við bryggjuna á milli Gránu og Róaldsbrakka. Við opnunina voru flutt stutt ávörp og síldarstúlkur og -strákar sungu tvö löng við harmonikkuundirleik. Anita Elefsen safnstjóri sagði frá samvinnu safnanna tveggja og veru Svía hér á Siglufirði á síldarárunum:
Svíar eiga sannarlega sinn sess í síldarsögu okkar Siglfirðinga. Sænsk skip stunduðu síldveiðar á Íslandsmiðum frá 1906 til 1962, að undanskildum heimsstyrjaldarárunum fyrri og síðari, og var íslenska saltsíldin mjög mikilvæg fyrir sænska markaðinn. Skipin komu flest frá útgerðarstöðum á vesturströnd Svíþjóðar og má þar til dæmis nefna Lysekil, Gautaborg og Strömstad. Að öllum líkindum hefur fjöldi sænskra skipa verið misjafn milli ára en í hafnarbók tollgæslunnar á Siglufirði árið 1946 voru skráð nöfn 62 sænskra síldarskipa. Að jafnaði sóttu mörg þeirra inn á Siglufjörð í helgarlandlegum eða þegar bræla var á miðunum. Á fimmta og sjötta áratugnum voru þau bundin í einum hnapp á Pollinum, í innnanverðri höfninni. Þar voru tveir eða þrír gamlir bryggjustaurar, Svíastaurarnir svonefndu, sem tvö eða þrjú skipanna voru bundin við og síðan lögðust þau hvert utan á annað; gamlar sænskar skútur sem fengið höfðu hjálparvélar. Þar lágu þær bundnar saman 15-20 að tölu eins og gamlar ljósmyndir sýna.
Vinna við sýninguna hefur verið skemmtilegt samstarfsverkefni og hefur gefið okkur færi á að kynnast starfsfólki Bohuslän Museum. Samstarfið okkar á milli kom til vegna áhuga Jóns Ólafs Björgvinssonar á sögu Siglufjarðar og síldarinnar og ábendinga frá honum – en hann hafði séð sýninguna úti í Svíþjóð þar sem hann er búsettur og hvatti mig eindregið til að fá hana til sýningar hér á Siglufirði. Eins og fram hefur komið var verkefnið samstarfsverkefni safnanna tveggja en þar að auki fékkst fjárstuðningur frá Bohusläns Islandsfiskares Ekonomiska förening.
Að opna þessa sýningu á þessum tímapunkti, á Norrænni Strandmenningarhátíð á Siglufirði, er mjög skemmtilegt og undirstrikar það sem við höfum bent á undirbúningi og aðdraganda hátíðarinnar: en það eru hin sterku norrænu tengsl við Siglufjörð, en fullyrða má að Siglufjörður sé eini staðurinn á landinu þar sem allar norrænu þjóðirnar eiga sín spor og tengist sögulega. Hér voru Norðmenn, Danir, Finnar, Svíar og Færeyingar við síldveiðar og tóku þátt í uppbyggingu staðarins og síldariðnaðarins.
Og hér, sem útisýning, er hún aðgengileg öllum – ekki bara gestum Síldarminjasafnsins heldur öllum þeim sem eiga leið um svæðið. Sýningin mun standa til sumarloka og vonandi sjá hana sem flestir. Ég vil að endingu þakka Jóni Ólafi Björgvinssyni, Sofie og Piu hjá Bohusän Museum og Bohusläns Islandsfiskares Ekonomiska förening kærlega fyrir stuðninginn og samstarfið – án þeirra hefði sýningin líklega aldrei ratað til Siglufjarðar.
Sýningunni fylgir mjög áhugavert myndband með ljósmyndum og stuttum kvikmyndaklippum úr Íslandsferðum sænskra síldveiðisjómanna. En félagsskapurinn De seglade för Tjörn hefur safnað myndefninu saman og varðveitt. Í lok myndbandsins má sjá myndir sem sænskir sjómenn tóku í landlegum
á Siglufirði.
Myndbandið má sjá hér: På väg mot Island - om det bohuslänska sillfisket vid Island
- Eldri frétt
- Nýrri frétt