Sendikvinna Færeyja heimsækir Síldarminjasafnið
Hanna í Horni, sendikvinna Færeyja á Íslandi heimsótti Síldarminjasafnið á ferð sinni um Fjallabyggð þann 27. febrúar. Með í för voru eiginmaður hennar, tveir ungir synir þeirra og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar.
Færeyingar hafa margir haft viðdvöl á Siglufirði en þeir stunduðu þorskveiðar úti fyrir Norðurlandi hvert sumar um áratugi. Þangað var langsótt að heiman á gömlum skútum til handfæraveiða og söltuðu þeir aflann um borð.Margir lögðu rækt við gamlar hefðir – sigldu til hafnar á Siglufirði á laugardögum til að halda hvíldardaginn heilagan og myndarlegar skútur þeirra skreyttu höfnina um helgar Um miðja tuttugustu öldina stunduðu yfir eitt hundrað færeyskar skútur veiðar frá Siglufirði, en undir það síðasta, þegar leið fram á áttunda áratuginn, fór þeim hratt fækkandi. Vinabær Siglufjarðar í Færeyjum er Eidi.