Síðasta síldartunnan
Síðastliðinn þriðjudag, 31. maí kom saman margmenni við Róaldsbrakka þegar Síldarminjasafnið veitti síðustu síldartunnunni formlega móttöku. Tunnan sem um ræðir átti upphaflega að koma til landsins fyrir tæpum fjörutíu árum síðan, en féll frá borði og í hendur ævintýramannsins Petters Jonny Rivedal frá Noregi sem hefur varðveitt hana síðan.
Tunnan ber kannski ekki með sér að vera merkilegri en aðrar tunnur en fullyrða má að hún sé sú síðasta sem flytja átti frá Dale til Íslands – því tunnuverksmiðjan þar brann stuttu síðar og var aldrei endurreist. Tunnan féll því frá borði úr síðustu ferð Suðurlandsins með nýsmíðaðar tunnur frá Dale til Íslands.
Við afhendinguna tóku til máls Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra Íslands í Noregi, Aud Lise Norheim sendiherra Noregs á Íslandi, Petter Jonny Rivedal sem varðveitt hefur tunnuna í fjóra áratugi og Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins.
Saga síldarinnar er stór þáttur í sögu íslensku þjóðarinnar – og á sama tíma er þáttur Norðmanna í þeirri sögu gríðarstór. Í raun kenndu Norðmenn okkur Íslendingum undirstöðuatriðin hvað varðar bæði veiðar og vinnslu á síldinni, silfri hafsins, og þannig lagt grunninn að því mesta ævintýri sem þjóðin hefur upplifað.
Hingað til Íslands, og Siglufjarðar, komu fjölmargir Norðmenn til að stunda veiðar, útgerð og bræðslu og má því segja að saga Íslendinga og Norðmanna sé samofin þegar kemur að síldinni. Sumarið 1948 voru norsku síldveiðiskipin sem gerðu út á síld frá Siglufirði rúmlega 260 talsins – og norski flotinn jafn stór þeim íslenska! Fyrstu áratugi 20. aldarinnar voru jafnframt bæði síldarverksmiðjur og fjölmargar söltunarstöðvar í eigu Norðmanna og áhrif þeirra á staðnum mikil. Norðmenn fluttu yfir hafið skipsfarma af timbri til tunnusmíði og bryggjusmíði sem og mikla húsviði. Róaldsbrakkinn, eitt safnhúsa Síldarminjasafnsins, er eitt dæmi þess; byggt af Norðmönnum árið 1907 og ráku þar síldarsöltun í rúm 20 ár. Róaldsbrakki, eins og allmörg önnur hús hér á Siglufirði bera enn nöfn upprunalegra eigenda sinna og minna okkur þannig á tengsl þjóðanna tveggja.
Saga síldartunnunnar sem Petter Jonny hefur nú varðveitt í um 40 ár er svolítið eins og framhaldssaga síldarævintýrinsins. Því rétt eins og sjálft síldarævintýrið, er það svolítið ævintýralegt að tunnan hafi fallið útbyrðis og ratað í hendur Petters Jonny sem hefur gætt hennar í hátt í hálfa öld og nú tryggt að hún komist loks á leiðarenda. Það var því mjög táknræn stund þegar tunnan var formlega afhent Síldarminjasafninu til varðveislu.
Óhætt er að segja að mikil gleði hafi ríkt meðal viðstaddra meðan afhendingin fór fram - og ekki síður að henni lokinni þegar fram fór síldarsöltun og bryggjuball á planinu við Róaldsbrakkann.
Rivedal fjölskyldan ásamt síldargenginu og starfsfólki Síldarminjasafnsins
Sendiráð Íslands í Osló átti frumkvæði að því að fá til liðs við sig ýmsa samstarfsaðila og koma hugmyndinni í framkvæmd og þakkar starfsfólk Síldarminjasafnsins sendiráðinu sem og öðrum samstarfsaðilum kærlega fyrir sitt framlag og samstarf í aðdragandi afhendingarinnar.
- Eldri frétt
- Nýrri frétt