Þátttaka í Evrópuverkefni
Síldarminjasafnið er þátttakandi í Evrópuverkefninu „Endurreisn Liechtenstein bruggverksmiðjunnar í Kostelec nad Černými lesy“ sem felst í endurgerð upprunalegs tækjabúnaðar og uppsetningar, hönnunar og opnunar á einstöku bruggsafni og skjalasafni í Kostelec nad Černýmilesy í Tékklandi.
Ástæða þess að Síldarminjasafnið er þátttakandi í verkefninu er að forsvarsmenn bruggverksmiðjunnar heimsóttu Síldarminjasafnið árið 2019 og heilluðust af uppsetningu sýningarinnar í Gránu og óskuðu í kjölfarið eftir samstarfi við safnið um hönnun sýninga sinna.
Nú í maímánuði fara Anita Elefsen safnstjóri og Edda Björk Jónsdóttir sérfræðingur á sviði fræðslu og miðlunar í fimm daga ferð til Tékklands og heimsækja Kostelec nad Černými lesy sem er um 60 km. austur af Prag. Hlutverk starfsmanna Síldarminjasafnsins er að aðstoða við og gefa ráð um hönnun og uppsetningu tækniminja í sýningum safnsins sem og um miðlun og upplifun gesta og þjónustu við safngesti – en markmiðið er að bruggverksmiðjan verði í senn lifandi safn þar sem allur tækjabúnaður verður gangfær og bjór bruggaður á sama hátt og gert var í Tékklandi um 1930.
Verkefnið hófst formlega þann 15. apríl 2021 og er áætlað að því ljúki árið 2024. Verkefninu er stýrt af styrkþeganum; National Museum of Brewing eða Þjóðminjasafni brugghefðarinnar í Tékklandi og samstarfsaðilar eru Tékkneski tækniháskólinn í Prag, Arkitektadeild Rannsóknarmiðstöðvar Iðnaðararfliðar FA CTU í Prag, Brugghúsið Kveik training í Noregi og Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði. Allir ofangreindir aðilar hafa gengið til liðs við verkefnið á grundvelli ólíkrar reynslu og þekkingar á sviði safnafræði, bruggtækni, reksturs og varðveislu tækniminja og náms og kennslu í bruggun.
Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði EES, sem er fjármagnaður af stjórnvöldum Noregs, Íslands og Liechtenstein. Markmið sjóðsins er að efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu.
Áhugasamir geta horft á kynningarmyndband frá Bruggverksmiðjunni og safninu í Kostelec nad Černými lesy:
hér .
Fréttir
- Eldri frétt
- Nýrri frétt