Síldartorfan
Listamennirnir Alexandra Griess og Jorel Heid dvöldu í Herhúsinu á Siglufirði árið 2015 og heilluðust fljótt af sögu staðarins. Á meðan á dvöl þeirra stóð unnu þau að listaverkinu síldartorfan (e. the swarm). Verkið var samansett úr eitt þúsund matarhnífum sem þræddir voru á girni og mynduðu þannig eftirlíkingu síldartorfu, sem bærist í vindinum og glitrar í sólskini.
Verkið stóð fram að fyrstu haustlægðinni, en það stóð hana því miður ekki af sér og skemmdist verulega. Næstu árin reyndu þau Alexandra og Jorel að sækja um fjárstuðning til þess að endursmíða verkið, úr varanlegra og sterkara efni en það var ekki fyrr en að þremur árum liðnum að þýska matvælafyrirtækið Followfood veitti þeim stuðning til að endurbyggja verkið, með það að markmiði að flytja það aftur heim til Siglufjarðar.
Alexandra og Jorel smíðuðu því stærri og sterkbyggðari útgáfu af síldartorfunni á vinnustofu sinni í Hamburg og var verkið í kjölfarið sýnt á hafnarsvæðinu í Hamburg sumrin 2020 og 2021. Verkið var svo flutt yfir hafið í apríl 2022 og fært Síldarminjasafninu til eignar nú um páskana.
Fréttir
- Eldri frétt
- Nýrri frétt