Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg 100 ára
Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg fagnar 100 ára afmæli í dag, 8. febrúar 2020.
Í tilefni þess hefur starfsfólk Síldarminjasafsins sett upp litla sýningu í Bláa húsinu við höfnina og verður hún opin gestum og gangandi frá kl. 16:00 - 18:00.
Á Síldarminjasafninu er varðveittur fjöldinn allur af gripum og munum sem tengjast skíðasögu staðarins; skíði og stafir í tugatali, klossar og skór, sleðar, fatnaður, verðlaunagripir, mótaskrár og önnur gögn. Hérðasskjalasafn Fjallabyggðar varðveitir jafnframt elstu fundargerðarbækur félagsins og afreksskrár - og geta gestir séð brot af því sem varðveitt er á sýningunni í dag. Jafnframt má segja að sýningin sem opin verður í dag sé einskonar sýnishorn af því sem koma skal í Salthúsinu, nýju húsi Síldarminjasafnsins, sem enn er í uppbyggingu. Þar verður sett upp ný sýning um veturinn í síldarbænum og verða vetraríþróttirnar veigamikill þáttur í sýningunni.
Á þessum merku tímamótum ákvað stjórn SSS að gefa út afmælisrit, þar sem sögu skíðaiðkunar og stöðu starfsins í dag eru gerð skil. Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins, skrifaði þar stutta grein:
Siglufjörður og skíðin
Siglufjörður hefur löngum verið þekktur fyrir að vera bæði síldar- og skíðabær. Stærstan hluta tuttugustu aldarinnar voru Siglfirðingar á kafi í síldarvinnu á sumrin en á veturna þegar allt var á kafi í snjó var ekkert eðlilegra en að draga fram skíðin. Í kjöllurum og á háaloftum flestra íbúðarhúsa voru skíði, stafir og klossar geymdir á sumrin en á veturna voru síldarpils, hnífar og díxlar komin í þeirra stað. Siglfirðingar fóru tíðum ferða sinna á skíðum – þeir sem sóttu skipulagðar skíðaæfingar í hlíðinni ofan við bæinn fóru að heiman og aftur heim á skíðum sínum. Aðrir fóru á gönguskíðum fram á fjörð, sjálfum sér til ánægju og yndisauka. Og enn aðrir notuðu skíðin hreinlega sem samgöngutæki til þess að komast á milli staða á snjóþungum vetrum.
Fyrsta félagið, Skíðafélag Siglufjarðar, var stofnað árið 1920 og markaði það upphaf skíðaíþróttarinnar sem keppnisgreinar hér á staðnum. Sumarið 1936 varð klofningur innan félagsins og Skíðafélagið Siglfirðingur, síðar nefnt Skíðaborg var stofnað. Hér störfuðu því tvö skíðafélög um árabil, eða fram til ársins 1952 þegar félögin voru sameinuð í Skíðafélag Siglufjarðar – Skíðaborg, SSS, sem starfar enn í dag og fagnar nú aldarafmæli.
Siglfirðingar sköpuðu sér snemma góðan orðstír fyrir afrek sín á skíðum og áttu þeir marga af fremstu skíðamönnum landsins á tuttugustu öld. Í blaðagreinum frá því um miðja öldina má vel greina hve framarlega Siglfirðingar stóðu. Þegar félagið fagnaði 25 ára afmæli sínu sagði blaðamaður að tíðum mætti heyra áhugamenn tala um úrslit landsmóta skíðaíþróttamanna, hvort sem þau voru haldin á Ísafirði, Siglufirði, Akureyri eða í Reykjavík og segja: „Þeir unnu Siglfirðingar — náttúrlega. Burstuðu hina!" Aðspurður svaraði einn stofnenda félagsins spurningu blaðamanns um velgengni Siglfirðinga og sagði hana fyrst og fremst góðu aðgengi að góðu fjalllendi og tilbreytingarlitlum vetrum að þakka.
Við eigum góð tækifæri til að ganga á skíðum, allt frá tunnustöfum og til þess, sem best er ... Við eigum líka brekkur. Og við eigum líka það, umfram ykkur Reykvíkinga, að þið hafið svo mikið að skemmta ykkur við, einmitt þegar við höfum minnst að gera. Hvað er þá eðlilegra en að við förum á skíðum. Við getum oft bundið þau á okkur við bæjardyrnar hjá okkur, við brunum áfram og erum í brekkunni, áður en við vitum af.
Þó að margt hafi breyst síðastliðin hundrað ár, frá því að skíðaiðkun Siglfirðinga var skipulögð í fyrsta sinn með stofnun skíðafélags, þá hafa fjöllin ekki breyst og aðstæður til skíðaiðkunar eru jafn góðar nú og þá. Það er okkur sem samfélagi mikilvægt að horfa til þess að varðveita þennan veigamikla hluta sögu okkar vel – bæði það áþreifanlega og það óáþreifanlega. Á Síldarminjasafninu eru varðveitt skíði, skór og stafir í tugatali. Sleðar, þrúgur, verðlaunagripir, fatnaður og aðrar heimildir um þróun skíðaíþróttarinnar og afrek okkar Siglfirðinga á þeim vettvangi. En það er íbúanna sjálfra, og okkar sem samfélags, að varðveita hefðina – að stunda skíði, hvetja börnin okkar til þess sama og tryggja að Siglfirðingum verði áfram í blóð borið að renna sér á skíðum.
Fréttir
- Eldri frétt
- Nýrri frétt