Sólardagur
Há og tignarleg fjöllin umlykja fjörðinn og veita gott skjól. Hluta úr ári varpa þau skugga á bæinn, þegar sólin nær ekki að teygja geisla sína yfir fjallatoppana og hverfur sjónum úr bænum 15. nóvember. Sést þá ekki til sólar fyrr en 28. janúar, þegar hún skín nokkra stund á Siglufjarðareyri. Lengi var 27. janúar talinn fyrsti sólardagurinn á Siglufirði og var þá miðað við að sól skini á prestsetrið á Hvanneyri. Fyrstu sólarkomunni er ávallt fagnað af íbúum Siglufjarðar. Áralöng hefð er fyrir því að drekka sólarkaffi með pönnukökum. Undanfarin ár hafa leik- og grunnskólabörn sungið til sólarinnar á kirkjutröppunum. Eitt þeirra laga sem sungin eru, er við kvæði Hannesar Jónassonar, ritstjóra og bóksala, frá árinu 1917 – og fangar vel eftirvæntingu Siglfirðinga:
Kom blessaða sól með birtu og yl
til barnanna á landinu kalda.
Við höfum svo lengi hlakkað til
er hátign þín kemur til valda.
Og vetur, ei getur,
sér lengur í hásæti hreykt.
Meðfylgjandi ljósmynd tók Sigurður Ægisson og sýnir hún glaðleg börn úr kirkjuskólanum fagna sólardeginum á Bjarnatorgi við Siglufjarðarkirkju árið 2018.
- Eldri frétt
- Nýrri frétt