Fréttir

Úthlutun safnasjóðs

26. apr. 2021

Síldarminjasafnið hlaut tvo verkefnastyrki úr safnasjóði, en úthlutun fór fram á dögunum. Áfram verða fagleg störf í fyrirrúmi á safninu og megináhersla lögð á varðveislu, skráningu og rannsóknir.
Þeir styrkir sem Síldarminjasafnið hlýtur árið 2021 eru:

  • 1,5 mkr. til verkefnisins "Komið reiðu á safnkostinn; Spjaldskrár, aðfangabækur og ljósmyndun gripa" 
    Verkefnið felst í að yfirfæra skráningar um aðföng og safngripi í safnkosti Síldarminjasafnsins frá árunum 1977-2011 á stafrænt form, en þær eru hvergi til nema handskrifaðar og er gríðarlega mikilvægt að koma upplýsingunum á annað form og tryggja varðveislu þeirra til framtíðar. Jafnframt felur verkefnið í sér vinnu við endurljósmyndun valinna aðfangategunda; botnamerkja og tunnumerkja frá íslenskum söltunarstöðvum. Um er að ræða tæplega sjö hundruð gripi og munu vandaðar ljósmyndir bæta miklu við áður unnar rannsóknir og skráningar á sögu gripanna.
  • 2,5 mkr. til verkefnisins "Skráning grunnsýninga: Veiðarfæraverzlunin"
    Mjög stór hluti safnkosts Síldarminjasafnsins er aðgengilegur gestum á sýningum safnsins, enda eru þær að vissu leyti settar upp eins og leikmyndir - þar sem gripir eru staðsettir í sínu rétta umhverfi og skapa þannig heildarmynd og samtal sem gestir eiga gott og auðvelt með að meðtaka og skilja. Markvisst hefur verið unnið að skráningu grunnsýninga safnsins undanfarin ár og upplýsingum um gripina miðlað á ytri vef Sarps. Veiðarfæraverzlun Sigurðar Fanndal var rekin á Siglufirði frá því um 1930 og fram til ársins 1997. Innréttingar verslunarinnar sem og gamli lager hennar voru tekin til varðveislu á Síldarminjasafninu fyrir rúmum fimmtán árum síðan og verður vönduð skráning þeirra 800 gripa sem eru í versluninni enn einn áfanginn í miklu skráningarátaki safnsins.
  • Auk þess greiðist 5 mkr. framlag öndvegisstyrks vegna uppbyggingar Salthússins, sýningagerðar og flutnings safnkosts. Til þess verkefnis voru veittar 15 mkr. fyrir ári síðan, sem greiðast á þremur árum.


Starfsfólk og stjórn Síldarminjasafnsins færir safnasjóði bestu þakkir fyrir stuðninginn!

Fréttir