Fréttir

Útlit fyrir gott ferðasumar

13. jún. 2022

Það hefur verið mjög gestkvæmt og líflegt á Síldarminjasafninu undanfarin misseri og óhætt að segja að sumarið fari mjög vel af stað. Bókanir eru fjölmargar sem og skipulagðar heimsóknir ferðamanna, sem ná allt fram til loka októbermánaðar. Hvern einasta vikudag frá fyrri hluta maímánaðar og til loka október eru bókaðar í leiðsagnir um safnið og önnur þjónusta fyrir gesti, allt frá einum hóp og upp í fimmtán þegar mest er yfir daginn.

Það má segja að hér verði eiginleg síldarvertíð í sumar, því bókaðar hafa verið um það bil 70 síldarsaltanir, en til samanburðar fóru fram 27 síldarsaltanir síðastliðið sumar. Að auki verður sitthvað um viðburði hér á safninu í sumar – tónleikar, listasýningar, kvikmyndasýning svo sitthvað sé nefnt.

Aldrei hefur verið jafn gestkvæmt í maí og þetta árið, en safngestir voru 33% fleiri en í sama mánuði fyrir kórónuveirufaraldur. Bæði var mikil aukning meðal gesta í skipulögðum hópum, sem og annarra safngesta. Erlendir ferðamenn voru í miklum meirihluta í maí, um 80% - svo allt útlit er fyrir að ferðaþjónustan sé að taka vel við sér eftir kefjandi tvö ár. 

Fréttir