Fréttir

Varðveisla listaverka

5. nóv. 2023

Í nýliðinni viku nutum við liðsinnis Nathalie Jacqueminet – en Nathalie er forvörður og starfar við Listasafn Íslands. Einn margra áfanga í því viðamikla verkefni að koma fullkominni reiðu á safnkost Síldarminjasafnsins er að búa vel um listaverk safnsins; skrá þau, ljósmynda, ástandsmeta og koma til varðveislu í Salthúsinu.

Nathalie aðstoðaði okkur við að meta umfang listaverkanna og festa kaup á hillurekkum og sýrufríum umbúðum. Nú hefur öllum verkunum verið komið vel fyrir í nýjum hillum í Salthúsinu auk þess sem við fengum dýrmæta kennslu og þjálfun í ýmsum atriðum er snúa að varðveislu listaverka. Sérlega spennandi var að fá innsýn í fyrri viðgerðir og forvörslu á verki Gunnlaugs Blöndal, Konur í síldarvinnu, en innan skamms verður það gestum aðgengilegt í Salthúsinu.

Safnasjóður veitti Síldarminjasafninu styrk til þessa verkefnis. 

Fréttir