Vatnsflóð í Njarðarskemmu
Föstudaginn 11. nóvember hafði verið mikil úrkoma á Siglufirði um tveggja daga skeið, með þeim afleiðingum að vatnsaginn á safnsvæðinu varð eins og verst getur orðið. Brunnar yfirfullir og frárennsli hafði ekki undan. Vatn flæddi upp um gólf og yfir sökkulinn á Njarðarskemmu, svo vatnshæðin innanhúss varð rétt tæpir 80 cm. Blessunarlega brást slökkvilið staðarins skjótt við neyðarkalli og unnu þeir að því að koma vatninu af lóðinni og innan úr Njarðarskemmu út í sjó, með öllum tiltækum dælum, sem gengu í tæpar 30 klst.
Þegar tekist hafði að tæma Njarðarskemmu af vatni tók við undirbúningur og skipulagning á því hvernig skyldi pakka niður sýningunni og tæma húsið. Gránu var snögglega umturnað í bráðabirgða safngeymslu og sýningin í Njarðarskemmu kortlögð og ljósmynduð í bak og fyrir. Síðan var hafist handa við að meta ástand gripanna, grisja þá sem höfðu skemmst, en pakka öðru. Starfsfólk Síldarminjasafnsins naut ómetanlegrar aðstoðar frábærra kollega frá Byggðasafni Skagafjarðar, Flugsafni Íslands og Minjasafninu á Akureyri við að pakka niður sýningunni og var heldur betur gengið rösklega til verks.
Fréttir- Eldri frétt
- Nýrri frétt