Viðburðarík aðventa á Síldarminjasafninu
Í aðdraganda jóla er í nógu að snúast hjá starfsfólki safnsins – en á undanförnum árum hefur verið lagður grunnur að því að bjóða sem flestum íbúum sveitarfélagsins að njóta aðventunnar á safninu með einum eða öðrum hætti.
Frá árinu 2016 hefur leik- og grunnskólabörnum verið boðið til svokallaðra aðventustunda á safninu – en börnin koma þá hvert með sínum bekk og fræðast um ólíkar jólahefðir og fá svo alla jafna að búa til einhverslags minjagrip til að hafa með heim.
Frá árinu 2017 hefur eldri borgurum verð boðið til sérstakrar aðventustundar þar sem meginmarkmiðið er að eiga saman notalega stund. Alla jafna hefur verið flutt lifandi tónlist, lesin jólasaga, hugvekja eða kaflar úr nýútefnum bókum, rætt um minningar af jólum og þar fram eftir götunum.
Til að ná til enn breiðari hóps var á síðasta ári ákveðið að efna til jólatónleika Síldarminjasafnsins. Í hópi starfsfólks safnsins er hæfileikaríkt tónlistarfólk og flytja þau hugljúf jólalög úr ýmsum áttum á opnum tónleikum fyrir íbúa Fjallabyggðar.
Það er okkur mikið keppikefli að eiga í góðu sambandi við nærsamfélagið. Safnið er ekki síður fyrir heimafólk en gestkomandi, og með ólíkum viðburðum á öllum árstíðum hefur okkur tekist að lokka heimafólk til endurtekinna heimsókna á safnið – og það er akkúrat svoleiðis sem við viljum hafa það.
Fréttir- Eldri frétt
- Nýrri frétt