Geymslur og varðveisla safngripa
Það sem helst einkennir Síldarminjasafnið eru sýningar þess í fimm húsum, sem eru samtals um 2500 fermetrar að grunnfleti - og er þannig eitt af stærstu söfnum landsins.
Við upphaf uppbyggingar safnsins, um 1990, var strax lögð áhersla á sýningagerðina, í einu húsinu á fætur öðru. Vert er að minnast á hin fjölmörgu verðlaun og viðurkenningar sem Síldarminjasafnið hefur hlotið þar að lútandi.
Annað sem einkennir safnið og sýningar þess er hinn mikli fjöldi „muna“, stórra og smárra – og það sem oft hefur verið notað til skilgreiningar: grófir og þungir gripir, bátar, vélar og hverskyns verkfæri sem notuð voru utandyra sem innan við veiðar og vinnslu síldarinnar.
Mjög hátt hlutfall safnmuna er til sýnis, eða á að giska 50-70%, eftir því hvernig á er litið. Allmikið af gripum í geymslum safnsins eru sömu gerðar og sýningargripir, í stærra og grófara lagi.
Þessir munir, allt frá pappírsgögnum (s.s. ljósmyndir og skjöl) til gamalla illa farinna tunna og báta, eru geymdir á sjö stöðum í sex húsum. Auk þess er rétt að nefna að fjöldi muna er óskráður og í raun hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um mikilvægi varðveislu þeirra allra.
Árið 2014 hófst bygging framtíðar-geymsluhúss Síldarminjasafnsins. Í Salthúsinu, frá ofanverðri 19. öld, verða helstu munir safnsins varðveittir og þar verður aðstaða til skráningar og forvörslu.
Skráning gripa í Sarp, menningarsögulegan gagnagrunn íslenskra safna, hófst árið 2011.