Eftirmáli
Saga af sjóferð þeirra Sigga og föður hans til Siglufjarðar og hvernig fólkið þeirra byrjaði þar nýtt líf er byggð á atburði sem varð vorið 1907 þegar Stefán Ólafsson og fjölskylda hans fluttist frá Akureyri til Siglufjarðar. Kona Stefáns hét Anna Sigurbjörg Jóhannesdóttir og börnin þeirra voru Sigríður Lovísa 13 ára og Snorri 11 ára. Með þeim fór faðir Stefáns, Ólafur, aldraður maður og blindur. Snorri litli og faðir hans fóru þessa leið á litlum árabáti en móðirin, systir og afi fengu far með norsku skipi. Á leiðinni hrepptu feðgarnir hið versta veður sem þeir urðu að bíða af sér í viku.
Þannig er sagan sem hér var sögð mjög lík sögu fjölskyldunnar sem tók sig upp og fluttist burt frá heimastað sínum, Akureyri, vegna mikillar fátæktar.
Þau bjuggu í litlu timburhúsi á Akureyri og þar bjó einnig önnur fjölskylda, Sveinn bróðir Stefáns og kona hans Guðrún með tvo unga syni.
Stefán var sjómaður og Sveinn var smiður sem hafði ekki mikla vinnu. Stefán réði sig hvert vor á hákarlaskip sem sigldi langt norður í höf til veiða.
Fjölskyldurnar tvær bjuggu við þröngan kost í litlu húsi við Grundargötu á Akureyri. Framtíð barnanna var ekki björt. Þau voru mannvænleg og höfðu góða námshæfileika en fengju þau nokkurn tíma að ganga í skóla og mennta sig? Og biði þeirra nokkuð annað en að stunda hættuleg og illa launuð störf?
Þannig hafði það verið í þessu landi um aldir. Eilíf fátækt og vonlítil lífsbarátta að ógleymdu því harðæri, eldgosum og drepsóttum sem reglulega gengu yfir landsmenn.
Stór hluti þjóðarinnar flúði bjargarleysið í eigin landi og mörgum tókst að byrja nýtt og betra líf í annarri heimsálfu.
Um þetta höfðu þeir bræður Stefán og Sveinn rætt margsinnis og þar kom að þeir og eiginkonur þeirra ákváðu að yfirgefa landið sitt og flytja vestur um haf. Guðrún kona Sveins fór fljótt með syni þeirra tvo og bjó fyrst í stað hjá bróður sínum sem flust hafði nokkrum árum fyrr til Ameríku. Þá var ákveðið að heimilisfeðurnir, Stefán og Sveinn, kæmu svo og fyndu sér atvinnu og húsnæði og síðan kæmu þau hin ári síðar.
Þeir pöntuðu far með stóru gufuskipi sem sigla skyldi yfir hafið í sumarbyrjun. Það næsta sem gerðist var það að Ameríkuskipið tafðist vegna hafíss austur á fjörðum Þetta fréttu bræðurnir og sýnt var að þeir þyrftu að bíða í tvær eða þrjá vikur áður en skipið kæmi. En í stað þess að bíða rólegur heima fór Stefán einn stuttan hákarlatúr.
Á heimleið mættu þeir Ameríkuskipinu með Svein og fleiri vesturfara um borð. Þar skildi með þeim bræðrum og sáust þeir aldrei aftur.
Þetta var vorið 1903. Nú voru góð ráð dýr og hvað skyldi til bragðs taka hjá Stefáni, Önnu, börnum þeirra tveim og gamla blinda manninum? Ekki voru valkostirnir margir, litla vinnu að fá og launin lág. Ferðin yfir hafið til Ameríku var bæði erfið og kostnaðarsöm og hvernig gætu þau aflað peninga til þess ferðalags þegar þau áttu ekki fyrir nauðsynlegasta varningi sem þau tóku út í versluninni. Skuldin óx hjá kaupmanninum og ekki var hægt að kaupa dýra farseðla til útlanda án þess að greiða skuldirnar fyrst.
Sama fátæktarhokrið hélt áfram.
Þeir bræður Stefán og Sveinn skrifuðust á og sögðu hvor öðrum fréttir af fólkinu sínu og hvernig þeim vegnaði. Ekki bera bréfin frá Sveini í Kanda vott um að þeim hafi vegnað vel fyrstu árin.
Ameríkubréf frá 3. febrúar 1906
“Kæri bróðir minn!
Hjartanlega þakka jeg þjer fyrir firir brjefið sem jeg með tók 14 janúar mjer þotti væntum að fá frjettir af ikkur það er slæmt að frjetta að þú skulir hafa verið svona fatlaður því arðsemin hefur víst ekki verið svo mikil að manni veiti af báðum höndunum að vinna fyrir sjer og sínum.
Það er sorglegt að vera sá ræfill að geta ekki hjálpað ikkur yfir hafið því það er að heyra á brjefi þínu að þú sjert til með að koma (…..) Af okkur er það að seija að okkur líður þolanlega við erum öll frísk og er það meira virði enn allt annað …”
Síðan segir Sveinn frá því að hann hafi verið „vinnu laus“ mánuðum saman og að peningar séu ekki miklir til að lifa af en það hafi bjargað miklu að konan hans gat unnið.
Þegar hann kallar sig ræfil þá á hann við fátækt sína, hve slæmt það sé að geta ekki hjálpað bróður sínum að flytja vestur um haf. Og þarna skrifar hann að Stefán sé fatlaður og geti ekki notað báðar hendur til vinnu, líklega merkir það að Stefán hafi orðið veikur eða slasast á hendi og verið óvinnufær. Og svo má sjá að Stefán og fólk hans er enn að hugsa um að flytja vestur um haf.
En þetta sama ár og bréfið var skrifað, 1906, fór Anna Sigurbjörg kona Stefáns, móðir Snorra sem þá var 10 ára, í síldarvinnu norður á Siglufjörð. Það hafði spurst að þar væri nóga vinnu að fá hjá norskum síldveiðimönnum. Þeir væru með fjölda skipa á síldveiðum og alltaf vantaði fólk til að salta síldina ofan í tunnur og að vinna aðra vinnu á síldarbryggjunum. Þarna væri unnið nótt og dag þegar vel veiddist og allir fengju vel borgað í peningum.
Anna Sigurbjörg reyndi fyrir sér í eitt sumar í síldinni og það gekk svo ljómandi vel að þau hjónin ákváðu að flytja til Siglufjarðar og byrja þar með nýtt líf í eigin landi.
Og það er af þeim að segja að þau fluttust til Siglufjarðar árið 1907. Móðirin Anna Sigurbjörg réðst til síldarvinnu þá um sumarið á meðan bóndi hennar stundaði sjóróðra á báti sínum. Ekki segir frekar af börnum þeirra Sigríði Lovísu og Snorra en gera má ráð fyrir að margt hafi verið fyrir þau að sjá og sýsla á þessum stað sem iðaði af miklu mannlífi kringum höfnina og þar sem mörg tungumál voru töluð samtímis á aðalgötu þorpsins sem lá upp af einni norsku síldarstöðinni.
Þetta sama ár festu þau kaup á litlu húsi uppi í hlíðarbrekkum Hafnarfjalls, sunnan og ofan við þorpið og fengu til þess lán hjá sparisjóðnum á staðnum (Sparisjóði Siglufjarðar). Þar heitir Hlíðarhús.
Heimild er fyrir því að fjölskyldan hafi skilið eftir sig stóra skuld í Eyjafirði þegar hún fluttist til Siglufjarðar. Vorið 1908, tæplega ári eftir flutninginn, var húsbóndinn Stefán, staddur á Akureyri og undirritar þann 14. apríl skuldabréf sem lýsir því að hann skuldi verslun Snorra Jónssonar á Oddeyri 413 krónur. Í bréfinu er einnig lýst hvernig skuldin skuli greidd árin 1912 til 1915.
Vinátta var milli Snorra kaupmanns og Stefáns og hét Snorri litli sonur hans eftir kaupmanninum og systir hans Lovísa hans eftir kaupmannsfrúnni. Líklegt má telja að vegna vináttunnar hafi Stefán fengið fjögurra ára frest til að greiða skuldina.
Í þessu undirritaða skuldabréfi kemur það fram að ef skuldin verði ekki greidd með peningum eins og samið var um þá fái kaupmaðurinn eftirtaldar eigur Stefáns og fjölskyldu hans:
1. – tólf kindur miðaldra.
2. – einn bátur með árum, seglabúnaði og veiðarfærum.
3. – tvö rúm með sængum, koddum og lökum.
4. – ein byssa, tvíhleyptur afturhlaðningur.
5. – eitt stofuborð.
6. – ein kommóða.
7. – leirtausskápur læstur, (diskaskápur).
Þessi upptalning lýsir raunverulegum eigum þeirra ( húsið ekki talið með) og voru þær metnar á 350 krónur og ná greinilega ekki að greiða alla skuldina ef peningana vantaði.
Fjölskyldu Stefáns Ólafssonar í Hlíðarhúsi vegnaði vel. Næga vinnu var að hafa flest sumur og svolítill búskapur sem heimilisfólkið stundaði tryggði þeim ákveðið afkomuöryggi hvað snerti mat og aðrar afurðir bústofnsins. Smám saman gátu þau unnið sig út úr skuldunum á Akureyri. Stefán varð snemma blindur og varð frá almennri vinnu eftir miðjan aldur.
Snorri sonur hans varð snemma mjög áhugasamur um vélar og tæki. Sautján ára gamall hóf hann nám í skipasmíði á Siglufirði en sneri sér ári síðar að járnsmíði og lærði þá iðn í fjögur ár hjá Gustav Blomquist, norskum manni sem stjórnaði uppbyggingu og rekstri síldarverksmiðjunnar Rauðku. Árið 1916 bauðst Snorra að fara til Noregs með norsku síldarskipi sem sigldi fulllestað síld og dvaldi hann í Stafangri frá haustdögum og fram á vor við nám í járnsmíði og vélfræði. Og aftur kom hann heim með síldarskipinu lærður og forframaður í útlöndum. Þá stundaði hann tveggja ára nám í Vélstjóraskóla Íslands og varð eftir það vélstjóri á skipum um skeið. Árið 1924 varð hann verksmiðjustjóri við síldarverksmiðjuna Gránu og upp frá því gegndi hann því ábyrgðarmikla starfi einnig í Rauðku sem lengi var í eigu Siglufjarðarkaupstaðar. Snorri fékkst nokkuð við útgerð og sinnti margskonar ábyrgðarmiklum störfum í samfélaginu.
Snorri lét af störfum sem framkvæmdastjóri Rauðku 1960 (?) þá orðinn nær blindur.
Snorri gekk að eiga Sigríði Jónsdóttur frá Siglunesi árið 1924 og um það leyti réðst hann í viðamiklar breytingar á Hlíðarhúsi. Dóttir þeirra Anna fæddist 1926.
Snorri bjó í Hlíðarhúsi til 1987 en það ár lést hann 91 árs að aldri.
Snorri Stefánsson með þriggja ára gamalli dóttur sinni framan við Hlíðarhús 1929. (Anna Snorradóttir telur að myndin gæti frekar verið tekin 1930 en '29.)
Heimildir:
Frásögn Önnu Snorradóttur, hljóðritað 2006.
Rituð æviatriði Snorra Stefánssonar.
Afmælis- og minningargreinar úr blöðum.
Ameríkubréf frá Sveini Ólafssyni.