Bátahúsið
Bátahúsið var byggt árin 2003-2004 og vígt af Hákoni krónprinsi Noregs þann 29. júní 2004 (sjá nánar um uppbygginguna).
Í anddyri Bátahússins er uppsett gömul veiðarfæraverslun með innréttingum og verslunarvarningi úr Veiðarfæraverslun Sigurðar Fanndal sem rekin var á Siglufirði (frá u.þ.b. 1930-1997). Einnig er í forskálanum sýning um líffræði síldarinnar og síldarleit.
Í meginsýningarrými Bátahússins er endursköpuð stemning síldarhafnarinnar frá 1950-55. Þar liggja síldarskip og bátar við bryggjur með viðeigandi veiðarfærum og gamlar kvikmyndir frá síldveiðum sýndar á stóru tjaldi. Í bryggjuskúrum eru netagerðarmönnum og smábátaútgerð gerð skil.
Bátarnir sem sýndir eru:
- Týr SK 33 er 38 brúttólesta eikarbátur smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1946. Týr er einn af nýsköpunarbátunum sem smíðaðir voru á vegum ríkisstjórnar Íslands til að efla efnahag þjóðarinnar eftir síðari heimsstyrjöld. Báturinn bar fyrst nafnið Skrúður SU 21, en fékk síðar nafnið Hrafn GK 450, þá Týr GK 450 og loks Týr SH 33. Frá árinu 1967 bar hann einkennisstafina SK 33 og var gerður út frá Sauðárkróki þar til hann var afskráður árið 1989. Týr stundaði margvíslegar veiðar en er hér sýndur sem síldveiðiskip með tvo snurpinótabáta.
Sigurvin SI 16, bátur Guðmundar Ágústs Gíslasonar sem var jafnan þekktur sem Gústi Guðsmaður. Sigurvin er úr furu og smíðaður í Noregi, upprunalega sem árabátur en var síðar breytt og gerður að lítilli trillu. Gústi eignaðist bátinn árið 1949 og gerði hann út frá Siglufirði í kompaníi við Guð almáttugan um áratugaskeið. Allar tekjur af útgerðinni runnu til kristindómsfræðslu barna í fjarlægum heimshlutum.
- Snurpunótarbátur frá Brávöllum í Eyjafirði. Uppruni óviss, en líklega var hann notaður við veiðar á smásíld í Eyjafirði 1950–1965.
- Snurpunótarbátur merktur Skildi SI 82. Smíðaður í Slippnum á Siglufirði 1940-1950 úr furu og eik.
- Kría. Norðlandsbátur, smíðaður um 1900 í Norður–Noregi og kom til Grímseyjar um svipað leyti með norskum selveiðimönnum en var skömmu síðar seldur til Akureyrar. Eftir 1930 var sett 1,5 hestafla Sóló vél frá árinu 1897 í bátinn — sem er nú ein sú elsta af sinni gerð. Báturinn var notaður til búdrýginda í Ólafsfirði frá 1927–1964. Kría var gerð upp á áttunda áratug síðustu aldar og hefur ekki verið siglt síðan.
- Draupnir EA 70. Smíðaður á Hauganesi við Eyjafjörð árið 1954, úr eik, 12 brúttólestir. Upphaflega var Draupnir gerður út frá Hauganesi en var seldur til Þórshafnar árið 1980 og þaðan til Vestmannaeyja árið 1990 þar sem hann bar nafnið Kristín VE 40. Hér er Draupnir sýndur sem reknetabátur til síldveiða.
Léttabátur Stíganda ÓF 25. Smíðaður árið 1959 í Þýskalandi. Stígandi ÓF 25 sökk árið 1967 með fullfermi af síld. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbáta skipsins og þennan léttabát. Að fimm sólarhringum liðnum fundust skipverjarnir og var öllum komið heilum til hafnar.
- Hringnótarbátur merktur Einari Hálfdáns ÍS 3. Talinn smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði á tímabilinu 1950-1955.
- Árabátur Soffíu Jónsdóttur (Soffíu á Nesi). Báturinn var smíðaður í Slippnum á Siglufirði árið 1934 af Gunnari Jónssyni skipasmíðameistara. Báturinn var smíðaður fyrir Soffíu sem var heimasæta á Staðarhóli og síðar húsfreyja á Siglunesi. Soffía fékk bátinn að gjöf á átjánda afmælisdegi sínum, þann 29. apríl 1934.
- Óli litli, norskur árabátur, aldur óviss. Var um skeið í eigu niðursuðuverksmiðju K. Jónsson & co. og notaður við smásíldarveiði á Pollinum á Akureyri.
- Julla Guðjóns Eggertssonar, smíðuð af Þorgrími Hermannssyni bátasmið í Hofsósi um 1950.
Julla Jóns Björnssonar frá Siglunesi, smíðuð af honum sjálfum árið 1957.