Njarðarskemma
Samtengd Bræðsluhúsinu Gránu er Njarðarskemma, síldarpakkhús frá 1930 og er það sýning á margvíslegum tækniminjum. Fyrst er að sjá varahlutalager verksmiðjunnar og efnarannsóknarstofu þar sem daglega var fylgst með efnainnihaldi og gæðum framleiðsluvörunnar, mjöls og lýsis.
Þá er komið að raforkuframleiðslu þessa iðnaðar. Í hverri verksmiðju var jafnan rafstöð, olíu- eða gufuknúin, til framleiðslu á brýnustu orku til starfseminnar. Að öðru leyti var orkuþörf verksmiðjanna þjónað af opinberum raforkuverum.
Ljósastöðin 1913
Virkjun Hvanneyrarár á Siglufirði til rafmagnsframleiðslu er sú fjórða elsta á Íslandi. Rafmagn þessarar virkjunar var mjög af skornum skammti og aðeins notað til að lýsa upp húsakynni bæjarbúa nema á bjartasta tíma ársins. En þá fékk síldariðnaðurinn afnot af rafmagninu. Sýndur er hverfill, gangráður og rafall Ljósastöðvarinnar.
Skeiðsfossvirkjuní Fljótum kom til sögunnar 1945, reist og rekin af Rafveitu Siglufjarðar. Framleiðslugeta virkjunarinnar var 12 gwst á ári og var rafmagninu veitt um 23 km langa háspennulínu til Siglufjarðar. Sýndir eru átta tengiskápar úr aðveitustöðinni á Siglufirði.
Atlasinn 1939. Fimmta síldarverksmiðjan reis á Siglufirði 1926 og var í eigu þýska iðjuhöldsins Dr. Carl Paul, síðar Síldarverksmiðja ríkisins. Ljósavélin úr Paulverksmiðjunni er frá 1939, ATLAS- díselvél, 400 hestöfl og rafall 368 hestafla með 270 kílóvatta afkastagetu.
Gufutúrbína SR 46. Stærsta og afkastamesta síldarverksmiðja íslenska ríkisins, tók til starfa 1946. Gufutúrbínan, sænsk Stal Ångturbin, 1360 hestafla og með 1 Mw afkastagetu.
Til hliðar við fyrrgreindar rafstöðvar eru tvö gömul vélaverkstæði sett upp til sýningar. Annars vegar Vélaverkstæði Óskars Berg Elefsen frá miðbiki 20. aldar og hins vegar Vélsmiðja Andrésar Þorsteinssonar frá aldarbyrjun, elstu tíð vélmenningar á Íslandi. Eru þessar smiðjur gott dæmi um vinnu sjálfstæðu iðnaðarmannanna sem störfuðu við hlið vélaverkstæða síldarverksmiðjanna og þjónuðu veiðiskipum og iðnfyrirtækjunum.
Sýningin í Njarðarskemmu var opnuð í j´úní 2015 - en henni var lokað aftur haustið 2022 vegna mikils vatnstjóns.