Róaldsbrakki

Róaldsbrakki er norskt síldarhús, byggt af Ole Tynes á árunum 1906 – 1907 fyrir Olaf Roald í Álasundi. Um 1930 eignaðist Samvinnufélag Ísfirðinga húsið og eftir það var það nefnt Ísfirðingabraggi. Síðast var þar söltuð síld árið 1968. Róaldsbrakki var friðlýstur árið 1977. Endurbygging hússins hófst árið 1990 og lauk 1996 – Róaldsbrakki var vígður sem safnhús af Ólafi G. Einarssyni, menntamálaráðherra, 9. júlí 1994 (sjá nánar um uppbyggingu Róaldsbrakka).

Róaldsbrakki er hluti af hinni miklu söltunarstöð sem rekin var í rúmlega 60 ár og er um leið mjög glæsilegur minnisvarði um áhrif og umsvif Norðmanna í síldarútveginum á Íslandi.
Á neðstu hæð hússins er sýning um síldarsöltun með samspili gamalla muna, mynda og texta. Framhald þeirrar sýningar er á annarri hæð, þar sem útflutningi síldarafurða og skipulagi söltunar eru gerð skil. Þá er þar yfirlit yfir síldarstaðina í landinu og svolítið um áhrif Norðmanna í síldarútveginum hérlendis. Gamlar kvikmyndir eru sýndar á skjá.
Að stórum hluta er gamli síldarbrakkinn sýndur eins og hann var á síldarárunum þegar tugir síldarstúlkna bjuggu þar á sumrin. Á þriðju hæð er gengið um vistarverur þeirra þar sem skynja má andrúmsloft liðins tíma. Þá er einnig til sýnis gamli "kontór síldarspekúlantsins" þar sem söltunarstöðinni var stjórnað og fólkið fékk greidd laun sín.
Framan við Róaldsbrakka er gamaldags bryggja þar sem allt er tilbúið til söltunar og gestir safnsins geta notið skemmtilegra og fræðandi sýninga á gömlum vinnubrögðum og stigið dans við dunandi harmónikuspil.
Síldarminjasafnið í Róaldsbrakka hlaut Nýsköpunarverðlaun Ferðamálaráðs 1998, Heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs 1999 og Íslensku safnverðlaunin 2000 er þau voru veitt í fyrsta sinn. Síðast en ekki síst var Róaldsbrakki ásamt bræðsluminjasýningunni í Gránu valið besta nýja iðnaðarsafn í Evrópu árið 2004.

Helstu sýningar í Róaldsbrakka:

  • Söltunarstöðin. Á bryggjuhæð brakkans er síldarsöltun  sýnd með uppstillingu gripa.
  • Áhrif Norðmanna. Á annarri hæð er sýning um norska útgerðarmenn og síldarsaltendur á Íslandi.
  • Síldarstaðirnir.  Á Íslandskorti og með ljósmyndum eru allir helstu síldarstaðirnir sýndir.
  • Síldarútvegsnefnd. Sagt frá hlutverki síldarútvegsnefndar í gæðaeftirliti og gerð sölusamninga á saltsíld.
  • Höfuðborg síldarinnar. Sagt frá Siglufirði, miðstöð veiða og vinnslu 1903-1965.
  • Kvikmyndasýningar.  Á skjá eru fjórar gamlar kvikmyndir sýndar: síldveiði- og Siglufjarðarþáttur úr „Ísland í lifandi myndum 1925“ eftir Loft Guðmundsson, „Siglufjörður 1941“ eftir Sigurð Guðmundsson, „Íslandsmynd Kapteins Dam 1938“ og „Síldarmynd Magnúsar Jóhannssonar 1957.“ Sérstaklega er mælt með Kapteini Dam, með ensku tali, gerð fyrir Heimssýninguna í New York 1939.
  • Kontórinn. Skrifstofa söltunarstöðvarinnar, þar sem rekstrinum var stjórnað og verkafólkið fékk greidd laun sín.
  • Kvennaloftið. Eitt helsta hlutverk síldarbrakkans (braggans) var að hýsa síldarfólkið. Á þriðju hæðinni eru íbúðarherbergin með fjórum til átta kojum. Í súðarkompum til hliðar var eldað og vinnufatnaður geymdur.
  • Háaloftið. Þar voru verkfæri til söltunar og veiðarfæri geymd og þvottur hengdur til þerris.