Saga Síldarminjasafnsins

Í eftirfarandi kafla er leitast við að segja söguna um það hvernig Síldarminjasafnið varð til. Tala má um nokkuð óvenjulega leið sem farin var með stofnun áhugamannafélagsins, FÁUM, árið 1989 og hvernig framtakssemi þess leiddi af sér eitt stærsta safn á Íslandi sem hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar. Upplýsingar sem hér koma fram byggjast á fundargerðabókum Byggðasafnstjórnar Siglufjarðar, FÁUM og Síldarminjasafnsins -  auk reynslu og þekkingar undirritaðs á þessum málum allt frá árinu 1978.
- Skrifað í janúar 2013, Örlygur Kristfinnsson.

Upphaf Síldarminjasafns Íslands má rekja allt til ársins 1957

Á þúsundasta fundi Bæjarstjórnar Siglufjarðar 13. mars 1957 var kosin fimm manna stjórn sem hafði það að markmiði að stofna byggðasafn. Þessir voru kosnir: Guðbrandur Magnússon kennari, Hlöðver Sigurðsson skólastjóri, Jón Kjartansson bæjarstjóri, Pétur Björnsson kaupmaður og Sigurður Gunnlaugsson bæjarritari. Sá síðasttaldi var síðan kosin formaður. Á sama fundi var samþykkt að afhenda stjórninni tiltekið húsnæði og 20.000 krónur til að stofna safns.
Í júlí sama ár kom Ragnar Ásgeirsson ráðunautur í Reykjavík á fund stjórnarinnar og lagði áherslu á söfnun muna tengdum sjávarútvegi byggðalagsins. Um það leyti mun einhver söfnun hafa farið af stað.
Á árunum 1957 til 1965 hélt stjórnin níu fundi alls þar sem helst var rætt um húsnæðismál verðandi safns. Síðan liðu átta ár án þess að fundað væri.
Tiltölulega fáir gripir hafa varðveist frá þessu fyrsta skeiði byggðasafnsáformanna. Eitt skráningarblað er þar á meðal, þar sem gerð er grein fyrir gripum þeim sem „finnanlegir“ voru árið 1972, 28 að tölu og geymdir á þremur stöðum. Sumir fengu ekki háa einkunn á skráningarblaðinu, t.d. „sporaskja [sennilega frá 19. öld] botnlaus og ræfilsleg, ónýt og ógeðsleg.“
Að þessari munatalningu stóð þáverandi byggðasafnsstjórn og undir blaðið skrifaði Guðbrandur Magnússon,  22. mars 1972.

Elsta botnamerkið - frá fyrstu söfnuninni

Árið 1977 hófst nýr kafli í forsögu Síldarminjasafnsins

Þá var Frosti Jóhannsson ráðinn að tilhlutan bæjarstjórnar Siglufjarðar til að kanna möguleika á uppbyggingu minjasafns og hefja nýja söfnun sögulegra muna. Frosti, sem var þá við þjóðháttafræðinám í Svíþjóð, vann ötullega að þessum málum í sumarfríum sínum í þrjú ár.
Í stjórn byggðasafnsins á þessum tíma voru Anton Jóhannsson, Guðbrandur Magnússon, Konráð Baldvinsson, Sigurjón Sigtryggsson og Örlygur Kristfinnsson (ÖK 1978-80).

Á fundi 18. júlí 1977 samþykkti byggðasafnsstjórn áætlun um að friða þrjú söguleg hús, kaupa Ísfirðingaplanið (Róaldsbrakka), útvega skrifstofu- og geymsluhús, bjarga tveimur nótabátum, ljósmynda skipulega gömlu síldarmannvirkin og ráða Frosta F. Jóhannsson til starfa.

Söfnun hófst það sama sumar þar sem megináherslan var lögð á svokallaðar síldarminjar, hverskyns verkfæri, báta og veiðarfæri. Þrjú hús voru friðuð sem áttu að þjóna safninu. Norska sjómannaheimilið (1915) myndi hýsa hið almenna byggðasafn, Róaldsbrakki (1907) síldarsöguna og Sæbyshús (1886) varðveitt sem heimili alþýðumannsins. Frosti lagði fram stórhuga áætlun um sérstakt síldarminjasafn og í hliðartillögu hans yrði það deild í einu allsherjar Sjóminjasafni Norðurlands á Siglufirði. Loks er þess að geta að Frosti starfaði við það síðasta sumarið sitt á Siglufirði að rannsaka atvinnusögu Siglufjarðar og skilgreina allar sjávarlóðir þær sem hin margvíslegustu fyrirtæki risu.
Þegar það varð ljóst að umdeild áform um „byggðasafn“ á Siglufirði kæmu ekki til framkvæmda án nákvæmra sögurannsókna eða mjög mikils kostnaðar við endurbyggingu húsa þá fór áhugi heimamanna dvínandi. Frosti Jóhannsson hætti störfum 1980.

Áform um uppbyggingu safns vöktu víða athygli

Enn er farið af stað 1989

Sá grunnur, sem Frosti Jóhannsson og hinir framsýnustu í bæjarstjórn Siglufjarðar höfðu lagt, var til staðar en fátt gerðist næsta áratuginn. Hins vegar voru áhugamenn „úti í bæ“ sem biðu þess að sjá byggðasafnstjórn standa fyrir uppbyggingu minjasafns um hina sérstæðu sögu staðarins. Á árunum 1985-1989 heyrðist þó fátt úr Ráðhúsinu annað en að sumir teldu heppilegast að rífa Róaldsbrakka (friðað húsið!), leggja niður byggðasafnstjórn og láta drauminn um safnið vera grafinn og gleymdan í eitt skipti fyrir öll.

Sumarið 1985 vann nokkur hópur áhugafólks að því að hressa upp á Róaldsbrakka, mála hátt og lágt og loka húsinu.

Síðan gerðist það þann 23. september 1989 að allmargir bæjarbúar stigu fram og stofnuðu Félag áhugamanna um minjasafn, FÁUM, í þeim megintilgangi að byggja upp minjasafn. Í stjórn voru kosnir: Örlygur Kristfinnsson formaður, Kristrún Halldórsdóttir varaformaður, Anton Jóhannsson gjaldkeri, Hinrik Aðalsteinsson ritari og Regína Guðlaugsdóttir meðstjórnandi. Varamenn: Birgir Steindórsson, Bragi Magnússon og Guðný Róbertsdóttir.
Í október sama ár var gerður samningur við bæjarstjórn Siglufjarðar um að FÁUM tæki „eigur“ byggðasafnstjórnar í sínar hendur, Róaldsbrakka þar sem flestir safngripir voru geymdir og þrjá báta.

Hér á eftir er uppbyggingarferlinu lýst í nokkurskonar annál


Árið 1990:

Áhugamenn úr FÁUM steyptu nýjar undirstöður fyrir Róaldsbrakka. Neðsta hæð hans rifin og húsið fært um 40 metra á nýjan grunn. Framkvæmdir önnuðust starfsmenn Vélaverkstæðis Jóns og Erlings. Áður voru allir safngripir fluttir þaðan og í hús Síldarútvegsnefndar á Hafnarhæð. Víur bornar í Bein, gömlu beinamjöls-verksmiðjuna.



FÁUM - fólkið á Hafnarhæðinni


Í brakinu af Bein - sjálfboðaliðar "úrbeina"

Árið 1991:

Þann 20. maí, á afmælisdegi Siglufjarðarkaupstaðar, opnaði FÁUM minjasýningu um síldarárin í gömlu einbýlishúsi Síldarútvegsnefndar á Hafnarhæð. Fjölmenni var við opnunina og þjóðminjavörður, Þór Magnússon, flutti ávarp. Að þessum fyrsta vísi að síldarminjasafni hafði áhugafólkið unnið í frístundum sínum frá áramótum. Í sjónvarpsviðtali þennan dag lýsti formaður FÁUM aðalviðfangsefninu; að endurbyggja Róaldsbrakka sem safnhús með bryggju fyrir framan þar sem síldarsöltun gæti farið fram.
Í ágúst fauk Róaldsbrakki af nýjum grunni sínum, skall á hliðina og skemmdist allmikið. Bein, komið í eigu FÁUM, féll eins og spilaborg í öðru fárviðri þetta sama haust – félagar höfðu þá unnið að því sumarlangt að mála húsið og loka því.
Gefið út kynningarblað FÁUM um síldarminjasafn og dreift víða.

Síldarævintýrið, útihátíð Siglfirðinga, haldin í fyrsta sinn með þátttöku FÁUM. Hátíðin varð safnuppbyggingunni mikil lyftistöng á næstu árum.


Róaldsbrakki þegar verst lét um 1984


Framtíðarsýnin - teiknað 1991

Árið 1992:

Endurbygging Róaldsbrakka, í höndum Ágústs Stefánssonar og Hjálmars Jóhannesonsr, hélt áfram með góðum styrkjum frá Húsafriðunarnefnd og margvíslegum gjöfum og fjárframlögum til FÁUM. Sjálfboðaliðar unnu að því að „úrbeina“ og rífa í sundur brak hússins Bein. Þar fengust miklir viðir til viðgerða og nýsmíði. Sýningin á Hafnarhæð opin daglega um sumarið og aðsókn allgóð eða um 1700 gestir.

Árið 1993:

Enn hélt áfram viðgerð Róaldsbrakka. Farinn leiðangur í gömlu síldarverksmiðjuna í Ingólfsfirði á Ströndum til að sækja þangað mikilvægar minjar. Fimm menn í vinnu sumarlangt við hreinsun safngripa á vegum átaksverkefnis bæjarfélagsins.

Árið 1994:

Þann 9. júlí var Róaldsbrakki vígður sem safnhús við  hátíðlega athöfn. Fyrstu beinu fjárframlögin frá Bæjarstjórn Siglufjarðar til uppbyggingar safnsins höfðu flýtt mjög fyrir framkvæmdum. Húsið skartaði sínu fegursta að utan með síldarminjasýningu á neðstu hæð og nýsmíðaða bryggju þar sem síldarsöltun var sýnd og Harmonikusveit Siglufjarðar spilaði. Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra vígði safnhúsið formlega og Þór Magnússon þjóðminjavörður flutti ávarp. Samtímis var opnaður vísir að bræðsluminjasafni í gömlu vélahúsi við hlið Róaldsbrakka. Fjöldi gesta var viðstaddur vígsluhátíðina í góðu veðri. FÁUM keypti Njarðarskemmu norðan Róaldsbrakka. Leiðangur gerður út til að sækja bræðsluminjar í gömlu Hjalteyrarverksmiðjuna. Skráðir gestir safnsins þetta sumar voru um 4250 að tölu.


Vígsla Síldarminjasafnins í Róaldsbrakka, 9. júlí 1994


Ágúst og Hjálmar endurbyggðu brakkann

Árið 1995:

Þetta ár var megináhersla lögð á áframhaldandi viðgerð Róaldsbrakka – og verkið sóttist vel með endursmíði og lagnavinnu á annarri hæð. Á þessu sumri hófust reglulegar söltunarsýningar þar sem ferðamenn fengu fræðslu um gömul vinnubrögð á síldarplaninu, á lifandi og skemmtilegan hátt. Söltunarsýningarnar hafa síðan verið órjúfanlegur hluti af starfi safnsins og jafnan vakið mikla eftirtekt og ánægju.

Árið 1996:

Lokið var við endurbyggingu Róaldsbrakka. Mikil sjálfboðavinna við málun ofl. Róaldsbrakki allur kominn í notkun sem safnhús. Örlygur Kristfinnsson ráðinn í fullt starf sem safnstjóri. Hafþór Rósmundsson tók við formennsku í FÁUM, auk hans skipuðu stjórn félagsins á þessum árum: Anton Jóhannsson, Birgir Steindórsson, Guðný Pálsdóttir, Hinrik Aðalsteinsson, Regína Guðlaugsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Sveinn Björnsson, Sturlaugur Kristjánsson og Þór Jóhannsson.

Sjá hér yfirlit yfir framkvæmdir við Róaldsbrakka í sex ár og helstu styrktaraðila.

Bátasýningin skipulögð 1996 - 1997. Teikning Örlygs.

Árið 1997:

Lokið var við uppsetningu sýninga í Róaldsbrakka. FÁUM gaf  út litprentað kynningarblað um áform um framhald uppbyggingar safnsins. Þar var lýst í máli og myndum hvernig byggja mætti sýningarhús fyrir bræðslusöguna og annað fyrir báta og veiðarfæri. Að þessu verki hafði safnstjóri unnið í allmarga mánuði og stjórnin síðan samþykkt. Á fundi menntamálaráðherra, Björns Bjarnasonar, tilkynnti hann ákvörðun sína um 10 milljón króna framlag til frekari uppbyggingu safnsins. Safnstjóri vann á haustmánuðum að byggingarteikningum fyrir bræðsluhús safnsins.
FÁUM keypti íbúðar- og verkstæðishús að Vetrarbraut 19.

Árið 1998:

Steyptar undirstöður og gólf bræðsluminjahúss. Á hátíðarfundi Siglufjarðarkaupstaðar 20. maí var samþykkt 10 millj. kr. framlag til uppbyggingar Síldarminjasafnsins. Fyrsta heimasíða Síldarminjasafnsins tekin í notkun. Farin önnur ferð áhugamanna til Ingólfsfjarðar og sóttir gripir úr gömlu síldarverksmiðjunni. Síldarminjasafnið hlaut Nýsköpunarverðlaun Ferðamálaráðs er þau voru veitt í fyrsta sinn.


Ágúst og Hjálmar reisa Gránu, 1999


Suðukarið híft í Ingólfsfirði

Árið 1999:

Bræðsluhúsið Grána byggt – máttarviðir úr Bein nýttust vel. Leiðangur í gömlu Hjalteyrarveksmiðjuna. Á 60 ára afmælisfundi LÍÚ, Landssamtaka íslenskra útvegsmanna, var samþykktur 5 millj. kr. styrkur til byggingar bátahúss Síldarminjasafnsins. Þorsteinn Jóhannesson verkfræðingur fenginn til að meta heppilegustu staðsetningu bátahússins á safnsvæðinu. Tvö skemmtiferðaskip komu til Siglufjarðar, þau fyrstu í sögunni, í sérstaka heimsókn á Síldarminjasafnið. Á hátíðarfundi í Alþingishúsinu 17. júní hlaut safnið heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs Alþingis.

Árið 2000:

Lokið við byggingu Gránu og húsið notað til tónleikahalds á Þjóðlagahátíð í fyrsta sinn og ljósmyndasýning var sett upp á loftinu. Sigurjón Jóhannsson leikmyndahönnuður var fenginn til að vinna líkan fyrir sýningu í bátahús sem enn var óbyggt. Nýjar sýningartillögurnar sem voru byggðar á fyrri teikningum safnstjóra, voru samþykktar. Einnig vann Sigurjón skipulagslíkan fyrir safnsvæðið.
Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin er þau voru veitt í fyrsta sinn.


Leiðangur Siglfirðinga í Ingólfsfirði 1993


Chris Bogan, Gunnar Júl. og Örlygur í Gránu

Árið 2001:

Unnið áfram að skipulagsmálum fyrir bátahús. Fenginn var Árni Páll Jóhannsson leikmyndahönnuður til að leggja á ráðin um útlit hússins. Kynnti hann síðan teikningar af þrískiptu húsi sem miðaðist við að félli sem best að öðrum húsum í nágrenninu. Undirstöður bátahússins steyptar. Vinna hafin við hreinsun bræðsluminja og uppsetningu þeirra. Chris Bogan, kanadískur sagnfræðingur, ráðinn til þeirra starfa í samvinnu við safnstjóra. Ráðnir að auki fimm menn tímabundið í „átaksverkefni“ í Gránu.

Árið 2002:

Áframhaldandi undirbúningur Bátahússframkvæmda. Skipið Týr SK 33 flutt frá Sauðárkróki og komið fyrir ásamt Draupni EA 70 inni í grunni væntanlegs húss. Mikil vinna í Gránu við uppsetningu bræðsluminja.


Lokið við flutning Týs frá Sauðárkróki, 2002


Í endanlegri heimahöfn

Árið 2003:

Hafin bygging Bátahússins á miðju sumri og var það orðið fokhelt í enda árs. Verkið í höndum Byggingafélagsins Berg, byggingastjóri Birgir Guðlaugsson. Mikilli vinnu við verksmiðjusýninguna í Gránu lauk á árinu og á forsendu þess ákvað Safnaráð ríkisins að tilnefna Síldarminjasafnið til Evrópsku safnverðlaunanna (European Museum Award) og var það fyrsta þátttaka Íslands í aldarfjórðungssögu þessarar keppni. Wim van der Weiden formaður dómnefndar EMF kom í heimsókn og lagði mat á safnið.

Sjá hér yfirlit yfir framkvæmdir og helstu styrktaraðila við Gránu.


Bátahúsið rís 2003


Birgir Guðlaugsson (t.h.) með húsa- og bryggjusmiðum

Árið 2004:

Bátahússframkvæmdum lokið 29. júní og sama dag vígði Hákon Magnús krónprins Noregs húsið og hina nýstárlegu sýningu þar. Bræðsluminjasýningin í Gránu vígð á mikilli síldarhátíð sem haldin var í lok júlí til að minnast 100 ára síldarsögu Íslendinga.

Síldarminjasafnið valið besta nýja iðnaðarsafn Evrópu og tók safnstjóri við mikilvægum verðlaunum frá Europian Museum Forum á ráðstefnu í Aþenu 9. maí.

Sjá hér yfirlit yfir framkvæmdir og helstu styrktaraðila Bátahússins.

Árið 2005:

Við blasti að uppbyggingu Síldarminjasafnsins sem staðið hafði í 15 ár var lokið. Með stórhuga framkvæmdum varð hrörlegur Róaldsbrakki að glæsihúsi, tvö stór sýningahús risu og „gamalt og aflóga dót“ breyttist í „dýrgripi“ á þriðja stærsta safni landsins. Svo mikils og víðtæks stuðnings nutu þessar framkvæmdir að tala má um þjóðarátak.
Samningur, undirritaður í ágúst af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um greiðslu á 40 millj. króna stofnkostnaði markaði lok þessara miklu framkvæmda.
Farskóli 90 íslenskra safnmanna, árleg haustráðstefna, var haldinn í Síldarminjasafninu á haustdögum. Heimsóknir erlendra tignargesta, svo sem norrænna ráðherra, og notkun safnhúsanna fyrir tónleika og myndlistarsýningar staðfestu nýja stöðu Síldarminjasafnsins.

Safnhúsin í jólaljósum 2004 - 2005. Ljósm. Steingrímur Kristinsson

Árið 2006:

Í samvinnu Félags áhugamanna um minjasafn, FÁUM,  og Siglufjarðarbæjar var Síldarminjasafnið gert að sjálfseignarstofnun. Nýtt nafn, Síldarminjasafn Íslands ses, ber með sér hlutverk þess á landsvísu. Með sjálfseignarstofnunni lauk gifturíkum rekstri FÁUM á safninu. Félagið átti áfram fulltrúa í stjórn safnsins, Hafþór Rósmundsson sem formann. Í safnstjórn sat einnig fulltrúi bæjarfélagsins (síðar Fjallabyggðar), Jónína Magnúsdóttir og fulltrúi Þjóðminjasafnsins, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður. Sömu aðilar skipa einnig fulltrúa sína í varastjórn.
Á þessu ári hófst viðgerð bátanna í Bátahúsi.

Árið 2007:

Unnið áfram að bátaviðgerðum. Fjölbreytileg notkun safnhúsa í menningarskyni: s.s. Þjóðlagahátíð og listsýningar. Jónsmessuhátíð safnsins haldin í fyrsta sinn til að minnast 100 ára afmælis Róaldsbrakka, ráðstefna um Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness.
Tíu starfmenn voru á launaskrá en aðeins einn fastráðinn, safnstjóri. Meðal starfsmanna sem unnu að margvíslegum nýsmíða- og endurbótaverkefnum á þessum árum var Sveinn Þorsteinsson húsasmiður.

Á frívaktinni - tónleikar á Jónsmessuhátíð safnsins

Árið 2008:

Velheppnuð Jónsmessuhátíð með málþingi um framtíðarmál Siglufjarðar á menningarlegum grunni og nýstárlegir tónleikar að kvöldi, “Á frívaktinni – óskalög sjómanna”. Í ágúst hófst formlega samvinnuverkefni við Bátaverndarmiðstöð Norður Noregs í Gratangen, þegar tveir menn á vegum safnsins unnu við árabátssmíði í þrjár vikur þar ytra.
Á aðalfundi FÁUM sögðu þeir sig úr stjórn, Hafþór Rósmundsson formaður og Sveinn Björnsson. Í þeirra stað voru kosnir Guðmundur Skarphéðinsson formaður og Sigurður Hafliðason meðstjórnandi. Guðmundur var jafnframt valinn í stjórn Síldarminjasafnsins og tók við formennsku.

Skúli Thoroddsen og Björn Lillevoll vinna að smíði Soffíu í Slippnum

Árið 2009:

Tveir nýir starfsmenn voru fastráðnir hjá Síldarminjasafninu: Rósa M. Húnadóttir þjóðfræðingur og Skúli Thoroddsen húsasmiður. Framhaldsverkefni við smíði árabáts í verkstjórn Björns Lillevoll frá Bátaverndarstöðinni í Gratangen.

Árið 2010:

Tímamótasamningur gerður við menntamálaráðuneytið þar sem kveðið er á um hlutverk Síldarminjasafnsins og árleg framlög frá ríkinu. Snemma árs var stofnuð Skíðaminjadeild FÁUM, með það að markmiði að safna munum, skrá skíðasögu staðarins og koma upp sýningu. Þá var lokið viðgerð á TÝ SK, bátnum stóra í Bátahúsinu. Nú var hann orðinn aðgengilegur til skoðunar í stýrishúsi, lúkar og lest. Anna Snorradóttir gaf Síldarminjasafninu gamalt íbúðarhús foreldra sinna, Hlíðarhús, sem er að stofni frá 1898.

Árið 2011:

Með bættum samgöngum um Héðinsfjarðargöng jókst aðsókn að Síldarminjasafninu stórlega, úr 11.800 í 19.300 gesti, eða um 60% milli ára. Anita Elefsen sagnfræðingur var ráðin rekstrarstjóri safnsins. Skúli Thoroddsen smiður lét af störfum. Í fyrsta sinn var unnið að skipulegri skráningu síldarminja í Sarp, menningarsögulegan gagnagrunn íslenskra safna. Á vegum safnsins var gefin út bókin Saga úr síldarfirði, myndskreytt verk sem safnstjóri vann og er hugsað sem grunnur að fræðslu ungmenna um síldarsöguna.

Fyrsta skráning - Rósa í díxlaskógi

Árið 2012:

Í mars afhenti sveitarfélagið Fjallabyggð Síldarminjasfninu gamla Slippinn til eignar. Það hafði verið áhugamál forsvarsmanna safnsins um langt skeið að þessi elsta smábátasmíðastöð landsins yrði varðveitt. Sett var upp sýning um siglfirska bátasmíði í 200 ár og aðstæður skapaðar til að þar mætti vinna að viðgerð og nýsmíði trébáta.
Á Jónsmessuhátíð safnsins var fjallað um 100 ára sögu fiskimjöl- og lýsisiðnaðar í landinu. Starfsmenn safnsins unnu sögusýningu á 15 skiltum fyrir Gránuloftið og  jafnframt varð farandsýning um landið. Einnig var haldið málþing um sögu og stöðu bræðsluiðnaðarins í dag.
Fluttar 85 ára gamlar frystivélar utan af Eyri og komið fyrir í Vélasal á safnsvæðinu þar sem rekið var frystihús Ásgeirs Péturssonar um langt árabil frá 1928.
Miklar framkvæmdir fóru fram á safnlóð þar sem göngubryggjur voru smíðaðar og umhverfi fegrað að ýmsu leyti.

Vélasamstæðan mikla flutt

Árið 2013:

Jón Ragnar Daðason, bátasmiður, ráðinn í átta mánaða vinnu. Og í höndum hans var áframhaldandi bryggjusmíði á safnlóð og tengdu nú göngubryggjur öll safnhúsin. Tendruð ljós á viðeigandi ljósastaurum og stafnar safnhúsanna upplýstir með kösturum. Mikil vinna í Slippnum við viðgerð gamallar trillu. Hafinn undirbúningur að byggingu Salthússins milli Gránu og Róaldsbrakka. Síldarsöltunarfólkið fór á vegum safnsins til Svíþjóðar og saltaði síld á samnorrænni strandmenningarhátíð í Karlskrona. Sjöunda og síðasta Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins haldin og var vel heppnuð. Rósa M. Húnadóttir lét af störfum. Metaðsókn var á safninu eða 19.845 gestir.

Bryggjusmiðirnir Jón Ragnar, Sigurður Hrannar og Hrafn

Síldargengið á strandmenningarhátíð í Karlskrona

Árið 2014:

Steinunn M. Sveinsdóttir ráðin til starfa. Stærsta verkefni ársins var flutningur á Salthúsinu, 19. aldar pakkhúsi, frá Akureyri og endurbygging þess á safnlóðinni. Tvær ferðir voru farnar sjóleiðis með húshlutana og þar var þáttur Gunnars Júlíussonar með bát sinn Keili Síldarminjasafninu ómetanlegur.
Unnið var að viðgerð á Njarðarskemmu og hafin uppsetning nýrrar sýningar um rafmagnsframleiðslu í þágu síldariðnaðarins.
Í september var þess minnst að 25 ár voruð liðin frá stofnun FÁUM, Félags áhugamanna um minjasafn, safnhúsið Róaldsbrakki varð 20 ára, Grána 15 ára og Bátahúsið 10 ára. Vegleg veisla var haldin þar sem fjölmargir stuðningsmenn og velunnarar safnsins komu saman.

Árið 2015:

Metaðsókn að safninu, rúmlega 22.000 gestir og í fyrsta sinn voru erlendir gestir í meirihluta, eða 52%. Nítján skemmtiferðaskip heimsóttu Siglufjörð og Síldarminjasafnið sérstaklega. Alls fóru fram 26 síldarsaltanir á planinu við Róaldsbrakka og að auki 5 á hafnarbakkanum í Maríuhöfn, Álandseyjum, þar sem safnið tók þátt í samnorrænni strandmenningarhátíð. Áfram var unnið að uppbyggingu Salthússins.
Opnuð ný sýning í Njarðarskemmu í júní – „rafmagnið og síldin“ um raforkuframleiðslu í þágu síldariðnaðarins. Sýningaropnunin var framlag Síldarminjasafnsins til Menningarminjadaga Evrópu 2015, en þema ársins var „arfur verk- og tæknimenningar“.

Árið 2016:

Örlygur Kristfinnsson lét af störfum sem safnstjóri í aprílmánuði og Anita Elefsen tók við. Aðsókn að safninu var með allra besta móti, enn á ný voru fyrri gestamet slegin. Skráðir gestir alls 25.000 og hlutfall erlendra gesta var 58%.
Síðsumars sigldi stór olíutankur um götur bæjarins og vakti mikla athygli. Tankurinn var kominn á niðurrifsstig, hátt á níræðisaldri, en þykir svo vönduð smíði og á svo sérstæða sögu að ástæða þótti til að flytja hann til varðveislu á Síldarminjasafninu. Á stríðsárunum var hann málaður sem íbúðarhús til að villa um fyrir þýskum óvinaflugvélum í yfirvofandi loftárásum. Tankurinn stendur nú á milli Gránu og Bátahúss.
Síldarminjasafnið tók við Ljósmyndasafni Siglufjarðar að gjöf þann 20. maí. Ljósmyndasafnið var lengi eitt stærsta einkasafn á landinu og telur yfir hundað þúsund ljósmyndir.
Vikulangt Bátasmíðanámskeið var haldið í Slippnum á vordögum, undir handleiðslu Hafliða Aðalsteinssonar bátasmiðs.

Árið 2017:

Síðari hluta septembermánaðar fór árlegur Farskóli safnmanna, þriggja daga fagráðstefna safnafólks, fram á Siglufirði. Anita Elefsen safnstjóri sinnti hlutverki farskólastjóra. Yfirskrift skólans var „Söfn í stafrænni veröld“ og voru þátttakendur um 150.
Í október hlaut Síldarminjasafnið Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir fegrun umhverfis og bætt aðgengi.
Efnt var til samvinnu og vinnuskipta við sjóminjasafnið í Gdansk í Póllandi. Tveir starfsmenn Síldarminjasafnsins fóru í vikulanga fræðsluferð til Póllands og heimsóttu fjórar starfsstöðvar pólska safnsins. Síðar á árinu heimsóttu fjórir starfsmanna sjóminjasafnsins í Gdansk Siglufjörð og Síldarminjasafnið, kynntust starfseminni og héldu örnámskeið í varðveislu sjóminja.

Árið 2018:

Árið var viðburðaríkt. Enn og aftur urðu safngestir fleiri en nokkru sinni fyrr – rúmlega 27.500. Erlendum gestum fjölgaði í 73%. Komur skemmtiferðaskipa jukust um allan helming, úr tuttugu og tveimur komum í fjörtíu. Síldarsöltunum á planinu við Róaldsbrakka fjölgaði til samræmis við skipakomurnar og fóru alls fram 59 saltanir.
Síldarminjasafnið lagði mikið af mörkum við undirbúning og framkvæmd Norrænnar Strandmenningarhátíðar sem fram fór á Siglufirði í júlí. Í Gránu var málþing um viðgerðir og viðhald báta og um hefðir í norrænni strandmenningu og skráningu á smíði súbyrðings hjá UNESCO. Í Slippnum voru norskir og íslenskir bátasmiðir við vinnu og þar fór fram bátasmíðanámskeið. Mikið síldarhlaðborð sett upp, þar sem sænskir gestakokkar reiddu fram dýrindis síld, ýmist marineraða eða grillaða. Ný útisýning um síldveiðar Svía við Íslandsstrendur opnuð í samvinnu við Bohuslän Museum í Uddevalla. Þjóðminjavörður, mennta- og menningarmálaráðherra, norsku og sænsku sendiherrarnir og Forseti Íslands voru meðal þeirra sem sóttu safnið heim á Strandmenningarhátíð.
Í desemberbyrjun gaf safnið út ljósmyndabókina Siglufjörður. Ljósmyndir / Photographs 1872-2018. Höfundar bókarinnar eru starfsfólk safnsins, þau Anita Elefsen, Steinunn M. Sveinsdóttir og Örlygur Kristfinnsson. Tilefni útgáfunnar var 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar þann 20. maí, en á árinu voru jafnframt 200 ár frá því að staðurinn öðlaðist kaupstaðarréttindi. Útgáfa bókarinnar var framlag safnsins til samfélagsins á þessum merku tímamótum og um leið skref til miðlunar á sögu staðarins.

Árið 2019:

Rannsókn sem gerð var meðal ferðamanna sem heimsóttu söfn, setur eða sýningar á Norðurlandi sumarið 2019 sýndi að 98,7% svarenda sögðust mjög ánægð eða ánægð með heimsókn sína á Síldarminjasafnið – og enginn svarenda var óánægður!
Töluverð breyting á starfsmannahaldi á árinu. Steinunn M. Sveinsdóttir lét af störfum og í hennar stað var Inga Þórunn Waage ráðin.
Síldarminjasafnið gekk til liðs við ICMM, alþjóðleg samtök sjóminjasafna (e. International Congress of Maritime Museums).
Í samvinnu við safnafræðideild Háskóla Íslands var starfsnemi á Síldarminjasafninu í níu vikur á haustdögum.
Ráðist var í viðamikið rannsóknarverkefni á árinu, en safnstjóri ferðaðist um landið með kvikmyndatökumanni í þeim tilgangi að taka viðtöl við bæði menn og konur sem unnu í síld, hvort sem var í landi eða á sjó. Viðmælendur voru tæplega sjötíu talsins – á Siglufirði, Dalvík, í Hrísey, á Akureyri, Húsavík, Ísafirði, Reykjavík, Akranesi, Seyðisfirði og Raufarhöfn.

Árið 2020:

Heimsfaraldur kórónaveiru lagðist ansi þungt á rekstur safnsins. Nauðsynlegt reyndist að fækka starfsfólki og ýmist fresta verkefnum eða hreinlega afskrifa þau.
Safngestum fækkaði um 55% frá fyrra ári og voru um 12.000 – þar af erlendir ferðamenn um 27%.
Lokið við samvinnuverkefni við Byggðasafnið í Gamvik í Norður Noregi. Á sjómannadag var opnuð ný útisýning þar sem afrakstri verkefnisins er miðlað.
Tekið var á móti færeyska kútternum Westward Ho og áhöfn hans í júnílok. Í samvinnu við Kiwanisklúbbinn Skjöld var slegið til síldarveislu fyrir áhöfnina í Bátahúsinu.
Á haustdögum hóf starfsfólk Síldarminjasafnsins að sinna reglubundinni kennslu grunnskólabarna í sveitarfélaginu og stóð sú vinna fram á vor 2021. Nemendur í 5. bekk sóttu fræðslu á safnið alla mánudaga sem og hópur nemenda af elsta stigi. Markvisst eru nemendur kynntir fyrir safnastarfi í sinni fjölbreyttu mynd og tekið er tillit til gildandi aðalnámskrár og markmiða skólastarfsins.

Árið 2021:

Safngestum fjölgaði um 73% frá fyrra ári – og voru alls um 20.000 talsins. Samkomutakmarkanir höfðu áfram áhrif á starfsemi safnsins stærstan hluta ársins.
Áfram var unnið að kennsluverkefninu Safn sem námsvettvangur í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar á vorönn og fram að skólaslitum. Verkefnið allt heppnaðist afar vel og var tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna á vordögum 2022.

Árið 2022:

Samkomutakmarkanir úr sögunni og safngestum fór að fjölga verulega. Aldrei fyrr hafa gestir verið fleiri og voru rétt tæplega 30.000 talsins. Hlutfall erlendra gesta var 70%.
Daníel Pétur Daníelsson var ráðinn til starfa í upphafi árs. 
Þátttaka í evrópuverkefni sem felst í endurgerð upprunalegs tækjabúnaðar og uppsetningar, hönnunar og opnunar á bruggsafni og skjalasafni í Kostelec nad Černýmilesy í Tékklandi.
Í nóvember gerði mikla úrkomu með þeim afleiðingum að vatn flæddi upp um gólf og yfir sökkulinn á Njarðarskemmu, svo vatnshæðin innanhúss varð rétt tæpir 80 cm. Við tók mikið björgunarstarf; að dæla vatninu út, og þurrka húsið. Síðar að meta skemmdir á gripum, kortleggja sýninguna og bráðabrigðaskrá hana, pakka gripum og munum og flytja til geymslu.
Í aðdraganda jóla stóð starfsfólk safnsins fyrir jólatónleikum í Bátahúsinu og runnu allar tekjur af tónleikunum til jólaaðstoðar Mæðrastyrksnefndar.
Framkvæmdum við Salthúsið miðaði mjög vel áfram. Erfiðinu og árangrinum var svo fagnað í aðdraganda jóla þegar fyrsta veislan var haldin í húsinu, fyrir starfsfólk safnsins, stjórn og helstu velunnara.