Eftirminnileg ummæli gesta safnsins

  • Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hélt ræðu í Bátahúsinu á síldarhátíðinni 24. júlí 2004 - og sagði efnislega: Með tilkomu Síldarminjasafnsins greru til fullnustu sárin sem urðu í bæjarsál Siglufjarðar við hvarf síldarinnar 1968.

  • Þegar Síldarminjasafnið fékk Micheletti-verðlaun EMF – Safnaráðs Evrópu – sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu þá fékk safnið eftirfarandi símskeyti dagsett 10. 05. 2004: „Safnaráð sendir hjartanlegar hamingjuóskir fyrir verðskuldaða viðurkenningu á vönduðu og metnaðarfullu safnastarfi.“
    - Ólafur Kvaran, formaður, Rakel Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri.

  • Wim van der Weiden formaður European Museum Forum og formaður dómnefndar EMF um Evrópsku safnverðlaunin, (European Museum Award) hann hefur skoðað og rannsakað á 4. þúsund safna vítt og breitt um heiminn. Hann tók út Síldarminjasafnið árið 2003, þegar það hafði verið tilnefnt til Evrópsku safnverðlaunanna, og beitti sér fyrir því að Síldarminjasafnið hlaut Micheletti verðlaunin sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu árið 2004.
    Hann kom aftur haustið 2005 og sá þá Bátahúsið í fyrsta sinn og við skoðun þar hrópaði hann upp í votta viðurvist: „Magnificent! - Excellent! – I have never seen anything like this before!“

  • Orri Vigfússon, víðfrægur laxafriðunarmaður, er sonur Vigfúsar Friðjónssonar síldarsaltanda á Siglufirði, í Grímsey og Reyðarfirði. Orri heyrðist segja við sjálfan sig þegar hann gekk um bryggjurnar í Bátahúsinu í fyrsta sinn: „Nú er ég kominn heim!“


  • Páll Gestsson, Siglfirðingur og skipstjóri á síldarskipum og togurum um áratugaskeið, kom í fyrsta sinn í Bátahúsið aldraður maður. Þegar hann gekk miðbryggjuna milli stóru bátanna sagði hann við dóttur sína, Rakel: „Mér líður eins eins og ég sé orðinn lítill á ný.“

  • Kjartan Ragnarsson leikstjóri og höfundur Landnámsseturs í Borgarnesi sagði í viðtali í útvarpsþættinum Flakk á Rás 1, 16. febrúar 2008:
    „Síldarminjasafnið …. eitthvað það stórkostlegasta sem til er í íslenskri menningu.“

  • Bogomil Font söngvari sem víða hefur sungið og spilað sagði á miðjum tónleikum Flís-tríós á Þjóðlagahátíð 2004 : „Ég held ég hafi aldrei sungið í glæsilegra húsi“ – og 300 áheyrendur fögnuðu orðum hans með dúndrandi lófaklappi.

  • Ólafur Kvaran, forstöðumaður Listasafns Íslands og þáverandi formaður Safnaráðs, var í sinni fyrstu heimsókn á Síldarminjasafninu vorið 2005. Hann gekk niður stigann í anddyri Bátahússins eftir að hafa skoðað skipin sem liggja þar við bryggjur – og sagði með brosi á vör: „Hér er stærsta innsetning á Íslandi.“

  • Hópur eldri borgara frá Akureyri var í heimsókn á Síldarminjasafninu haustið 2005. Tvær vinkonur í hópnum, háaldraðar, hittust í anddyri Bátahússins. Önnur var að koma inn úr dyrunum en hin hafði skoðað sig um inni á bryggjunum þar sem einna stærstu safngripi landsins er að finna. Sú fyrri spyr: Er eitthvað merkilegt að sjá þarna inni?
    Svar: „Jú-jú, það er vona sitt lítið af hverju.“

  • Á fjölmennum fundi Samfylkingarinnar í Bíósalnum á Siglufirði um miðjan mars 2003 kom Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, í fyrsta sinn fram opinberlega á Siglufirði. Í ræðu sinni fór hún lofsamlegum orðum um Síldarminjsafnið svo eftir var tekið. Hún sagði frá því að hafa fengið til sín árið 2001 í heimsókn á borgarstjóraskrifstofuna franskan ferðamann frá UNESCO (Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna í París). Hann hafði ferðast um allt Ísland, inn um allar víkur og voga, og skoðað sérstaklega alla menningarstarfssemi, söfn og sýningar, hvar sem slíkt var að finna og einnig í Reykjavík. Ingibjörg Sólrún sagðist hafa spurt hann hvað honum fyndist um þetta allt - og hann svaraði: ,,Það er einn staður sem ber af öllum öðrum, það er Síldarminjasafnið á Siglufirði “. Þessi orð fransmannsins urðu til þess að Ingibjörg Sólrún hefur komið tvisvar til að skoða þetta safn sem hún kallaði á fundinum sitt uppáhalds safn.

  • Um Gránu – haft eftir ýmsum: Þetta er eins og musteri – relígös stemming ...., Suðurríkja saloon ....

  • Ríkarður Örn Pálsson, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, skrifaði grein í Mbl. um miðaldatónleika í Gránu 13. júlí – þjóðlagahátíð 2001. Þar segir m.a.:
    „Rammi hinna fjölsóttu miðaftanstónleika Ölbu-dúósins var harla óvenjulegur, því uppákoman fór fram í gömlu innansvalbúnu timburhúsi við hlið Síldarminjasafnsins þar sem verið er að innrétta Bræðsluminjasafnið Gránu. Kaldranalegur mjölsnigill blasti við áheyrendum fyrir aftan flytjendur innan um risavaxin tannhjól, svo minnti eilítið á Krubb-verksmiðjuumgjörð umdeildrar Niflungahringsuppsetningar Chérdaus í Bayreuth á 8. áratug. En hljómburðurinn var furðugóður, og svalahringurinn vakti spurningu um hvort hér mætti ekki flytja Shakespearleikrit í stíl við Globe-leikhúsið nýendurreista í Lundúnum.”
    Svo kom Ríkarður Örn á fyrstu tónleikana í Bátahúsinu nýja sumarið 2004. Safnstjórinn spurði hann hvað honum fyndist um húsið sem tónleikahús.
    „Ja,“ - sagði Ríkarður. „Þetta væri kannski ágætt ef það væru ekki þessar skrattans skútur þarna inni!“

  • John Robinson, formaður European Maritime Heritage, lengi starfsmaður Breska tækniminjasafnsins og áhrifamaður í breskri og alþjóðlegri sjóminjavörslu:
    „I shall do my best to make the remarkable Herring Museum at Siglufjordur more widely known. I worked as a museum professional for 24 years and Siglufjordur is one of the best I have seen.“

  • Gunnar Salvarsson, fjölmiðlamaður og upplýsinga - og kynningarfulltrúi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands:
    „Frá nýlokinni hringferð um landið er mér minnistæðust heimsóknin til Siglufjarðar, bæjarbragurinn, mannlífið og fjöllin. Af mörgum merkilegum söfnum sem skoðuð voru í ferðinni bar Síldarminjasafnið af. Og gott var kaffið á Rauðkunni niður við höfnina!“

  • Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og ritstjóri, skrifaði grein í Fréttablaðið 8. júlí 2013, þar segir m.a.:
    „Eitt af því sem er svo fallegt við Síldarminjasafnið á Siglufirði er að þar er þessi gamla undirstöðu-atvinnugrein okkar, sjávarútvegurinn, umvafinn kærleika og virðingu, eins og vera ber. Allt vitnar um það á þessu safni: hvernig hlutunum er fyrir komið af ástríðu þar sem hver og einn fær notið sín í mælskri þögn sinni, hvernig vinnusvæði eru endurgerð í látleysi sínu og nytjafegurð, hvernig bátarnir í bátaskýlinu tróna í sæmd sinni í mildri birtu ævikvöldsins.“
    Greinina má lesa hér.

  • Árni Páll Jóhannsson myndlistarmaður og hönnuður fjölmargra sýninga hérlendis og erlendis:
    „Þetta er flottasta pæling að safni í Evrópu sem ég hef séð, það er lítið sem klikkar þarna. Flest söfn verða að drasli á svona 7- 10 árum. Þetta varð að klasssssssík daginnn sem það opnaði.“