Á sjó

- eftir Jónas Ragnarsson

Lagið varð vinsælt vegna textans og söngsins

Eitt vinsælasta lag tuttugustu aldar var í flutningi Hljómsveitar Ingimars Eydal. Þetta var lagið sem gerði Siglfirðinginn Þorvald Halldórsson landsfrægan.

En annar Siglfirðingur kom þar einnig við sögu.

Á vinsældalista í Bretlandi

Lagið sjálft er erlent, hét upphaflega Walk Tall og er eftir Don Wayne. Það varð þekkt í flutningi írska söngvarans Val Doonican, sem sá um skemmtiþætti í breska sjónvarpinu í rúma tvo áratugi.

Platan með Walk Tall var gefin út í október 1964 og komst í þriðja sæti breska vinsældalistans í desember. Þá voru Bítlarnir í fyrsta sæti með lagið I Feel Fine og Petula Clark í öðru sæti með Downtown.

Textinn fjallar um mann sem fékk þau heilræði í æsku frá móður sinni að hann ætti að bera höfuðið hátt. Þegar hann fór að heiman virti hann þessar lífsreglur að vettugi og lenti á glapstigum og loks í fangelsi. Þar rifjaði hann upp orð móður sinnar, ákveðinn í því að fara eftir þeim þegar hann fengi frelsi á ný.

Samdi texta fyrir Gauta

Veturinn 1964-1965 starfaði tvítugur Siglfirðingur við að kenna átta ára gömlum nemendum í barnaskólanum í sinni heimabyggð. Hann hafði verið í Verslunarskólanum og fengist við ýmislegt sem tengdist blaðamennsku. Þetta var Ólafur Ragnarsson, sem að kennslunni lokinni gerðist blaðamaður á Alþýðublaðinu og síðan einn af fyrstu starfsmönnum Sjónvarpsins og loks umsvifamikill bókaútgefandi.

Á þessum árum var mikið hlustað á erlendar útvarpsstöðvar á veturna. Kennarinn ungi mun hafa heyrt lagið Walk Tall á einni slíkri stöð, sennilega Radio Luxembourg. Þennan vetur fékk hann sendar plötur mánaðarlega frá hljóðfæraverslun í Reykjavík með vinsælustu lögunum í Bretlandi (Top Ten). Ólafur gerði íslenska texta við nokkur þessara laga fyrir hljómsveitina Gauta á Siglufirði

Frumflutningur á sjómannadaginn

Stefán Jónsson dagskrárgerðarmaður hjá Útvarpinu frétti af textasmíðinni, hringdi í Ólaf og pantaði texta um sjómenn. Ólafur mátti ráða laginu. Hann fékk lánað stórt segulbandstæki sem stúkan Framsókn átti, tók upp flutning Gauta á nokkrum lögum og sendi bandið suður.

Á sjó var fyrst flutt opinberlega í Útvarpinu að kvöldi sjómannadagsins, sunnudagsins 30. maí 1965, í þættinum Sitt úr hverri áttinni, sem var undir stjórn Stefáns. Söngvari Gauta var Baldvin Júlíusson, átján ára Siglfirðingur, rafvirki að mennt eins og Þorvaldur.

Svo skemmtilega vildi til að síðar þetta sama kvöld lék Hljómsveit Ingimars Eydal nokkur lög í útvarpið, en hún hafði verið stofnuð 1962 og gert garðinn frægan í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri.

Kom út í október

Hljómsveit Ingimars Eydal „ásamt söngvurunum Valda og Villa” skemmti í fyrsta sinn í Reykjavík í veitingahúsinu Glaumbæ um miðjan september 1965. Í sömu ferð lék hljómsveitin „átta lög inn á segulband”.

Á sjó var eitt fjögurra laga á fyrstu plötu hljómsveitarinnar, en platan kom út 19. október 1965. Hin lögin voruBara að hann hangi þurr, Litla sæta ljúfan góða og Komdu. Síðasta lagið var eftir Þorvald Halldórsson og söng hann það og einnig Á sjó. Hin tvö lögin söng Vilhjálmur Vilhjálmsson. Þorvaldur var þá að verða 21 árs, fæddur og uppalinn á Siglufirði og skólabróðir Ólafs úr barnaskóla og gagnfræðaskóla. Á þessum tíma voru bæði Þorvaldur og Baldvin að læra rafvirkjun.

Á plötuumslaginu segir að þegar hljómsveitin lék í Glaumbæ hafi fagnaðarlátunum aldrei ætlað að linna „og nokkur laga sinna varð hljómsveitin að leika aftur og aftur. Þessi lög eru einmitt á þessari fyrstu hljómplötu hljómsveitar Ingimars Eydal.” Á umslaginu er Þorvaldur tvívegis sagður vera Árnason. Lagið Á sjó tók 2 mínútur og 29 sekúndur í flutningi.

Hetjuímynd sjómanna

Þorvaldur Halldórsson hefur sagt að hann hafi heyrt Walk Tall á erlendri útvarpsstöð, Radio Luxembourg, eins og skólabróðir hans, og farið að syngja það á ensku í Sjálfstæðishúsinu. Þegar platan var tekin upp hafi Svavar Gests komið með textann Á sjó, sem hann mun hafa heyrt í útvarpsþætti Stefáns. Þorvaldur telur lagið hafa slegið í gegn vegna textans, þar sem hetjuímynd íslenskra sjómanna er undirstrikuð.

Upphaflega textanum var breytt, án samráðs við höfundinn. Í stað orðanna „fisk og síld þeir færa á land” kom „fiskinn góða þeir færa á land” og nú er sungið „móti bylgjum frosts og fanna“ en á að sjálfsögðu að vera „móti byljum frosts og fanna”.

Í blaðaauglýsingu í byrjun desember var talað um metsöluplötu. „Þriðja sendingin kom fyrir helgi og seldist strax upp. Næsta sending kemur eftir örfáa daga.” Fram kom í auglýsingunni að platan kostaði 130 krónur (þá kostaði mánaðaráskrift að Morgunblaðinu 95 krónur).

Nú þekkir öll þjóðin Þorvald

Ári eftir útgáfu fyrstu plötunnar kom út tólf laga plata með hljómsveitinni: Þorvaldur Halldórsson syngur sjómannalög. Aftan á plötuumslaginu voru upplýsingar um söngvarann. Þar stóð: „Þorvaldur Halldórsson var óþekktur söngvari fyrir einu ári. En þá söng hann lagið Á sjó inn á hljómplötu og síðan hefur þetta lag heyrst í óskalagaþáttum útvarpsins oftar en nokkurt annað lag, enda hljómplatan selst í helmingi stærra upplagi heldur en nokkur önnur íslensk hljómplata. Nú þekkir öll þjóðin Þorvald.” Í blaðafréttum var sagt að fyrsta platan hefði „selst í rúmlega fimm þúsund eintökum og er það algjört met í hljómplötusölu á Íslandi. Kemst engin önnur plata þar nærri.

Eldist vel

Færeyingar virðast hafa frétt af vinsældum lagsins því að Víking band gaf það út á plötu árið 1989 þar sem Georg Eystan Á hafði þýtt íslenska textann, sem heitir þar Til sjós.

Á sjó er ekki eini texti Ólafs sem er til á plötu því að hann samdi texta fyrir Savanna tríóið, Nonni Jóns, við írskt þjóðlag. Nokkrir aðrir textar hafa verið fluttir í Útvarpinu, meðal annars Vorið blítt (What Have They Done to the Rain?) og Við erum ung (Our Days Will Come).

Lagið Á sjó hefur elst vel. Þegar minnst var aldarfjórðungsafmælis Hljómsveitar Ingimars Eydal með skemmtidagskrá í Sjallanum á Akureyri haustið 1987 sló Þorvaldur enn einu sinni í gegn. „Stemningin keyrði ... um þverbak þegar hann Valdi birtist í eigin persónu með vörumerkið sitt Á sjó og linnti ekki látunum fyrr en búið var að tvítaka það.” Þorvaldur hafði þá ekki sungið með danshljómsveit í fimmtán ár.

Siglfirðingar halda minningunni á lofti því að lagið var flutt í sjómannastund í Siglufjarðarkirkju að kvöldi sjómannadagsins 2008. Þá söng Baldvin upphaflega textann. Og Þorvaldur hefur sagt að hér eftir ætli hann að flytja textann eins og skólabróðir hans samdi hann.

Á sjó

Lag: Don Wayne. Texti: Ólafur Ragnarsson

Á sjó – þeir sóttu fyrr og sigldu um höfin blá.
Þeir eru fræknir fiskimenn og fást við úfinn sjá.
Milli hafna um heiminn þeir halda sína leið.

Á sjó - þeir sækja enn og sigla um höfin breið.

Fræknir sjómenn fyrrum komu að frjálsri Íslands strönd.
Þeir héðan sigldu um höfin djúp og herjuðu ókunn lönd.
En síðan margir sægarpar siglt hafa landi frá.
Bátar þeirra borist hafa bylgjum sjávar á.

Á sjó ...

Þeir staðið hafa í stormi og stórsjó dag og nótt.
Móti byljum frosts og fanna fast þeir hafa sótt.
Er skipið öslar öldurnar þá ólgar þeirra blóð.
Þeir eru sannir sjómenn til sóma okkar þjóð.

Á sjó ...

Þeir sífellt fara um sjávarleið og sigla varning heim.
Fisk og síld þeir færa á land. Við fögnum öllum þeim.
Þeir lifa djarft á landi og sjó í leit og hverri þraut.
Þeir eru hafsins hetjur þeim heiður falli í skaut.

Á sjó ...


Ólafur Ragnarsson að taka kvikmyndir í Æskulýðsheimilinu á Siglufirði veturinn 1964-1965. Þá var hann kennari við Barnaskóla Siglufjarðar. Um vorið samdi hann textann Á sjó. Fremst á myndinni eru Kristján L. Möller og Sigurjón Gunnlaugsson.

Myndin á umslagi fyrstu plötu Hljómsveitar Ingimars Eydal hefur verið valin með hliðsjón af laginu Á sjó. Þorvaldur Halldórsson er lengst til hægri.