Allar setningar byrja á síld
Saga frá 1946
Birt í Þjóðviljanum 11. ágúst 1946. Höfundur ókunnur.
Strákurinn, hann þarf aðeins að banka ofurhægt á gluggann á herberginu sem hún sefur í og hvísla gegnum rúðuna, en hann sjálfur „ræsarinn“ á planinu er ekki að þess konar dundi, hann sem ber ábyrgð á því að síldarpjásurnar vakni, glaðvakni, og viti að það er síld hjá Sunnu eða Samvinnufélaginu, er ekki að læðast. Nei, hann argar af öllum kröftum: „Síld hjá Ingvari,“ og allir í húsinu glaðvakna – og í húsunum í kring – og allir sem vakna eru vitni að því að „ræsarinn“ hefur rækt skyldustarf sitt sómasamlega. Já full sómasamlega finnst þeim syfjuðustu.
Varla er hið kjarnmikla hróp „ræsarans“ dáið út þegar skrjáfar í olíupilsi sem hefur verið hengt upp á hurðarlömina á útidyrahurðinni.
Andartaki síðar líður ljósgult síldarpils í hálfrökkrinu niður götuna og „oná plan“ og með því að læðast hljóðlega á eftir getur ferðamaðurinn við bjarmann af bryggjuljósunum séð að allra laglegasti kvenmaður er driffjöðurin í pilsgarminum. Áður en verksmiðjuflautan hefur allra mildilegast kunngjört miðnætti er spánýtt heimilisfang innritað í „flammabókina“.
- - -
Á „planinu“ er þys og læti, þar er verið að skipa upp síld, keyra síld, skera síld, salta síld, skoða, vakta, velta, rétta og raga – og tala um síld. Allar setningar byrja á síld og allar setningar enda á síld, síld, síld.
Í öllu þessu skrölti, hávaða og hamagangi, þéttskorðuð í hausum og slógi upp að hnésbótum, stendur hún ...
Er það virkilega? Jú, það er hún. En ég er bara ferðamaður – skórnir mínir passa ekki í kramið – hvíti regnfrakkinn minn er of hvítur – ég sjálfur – ég er of hreinn – og þó hafði ég ekki þvegið mér í tólf tíma, – andað að mér grútarlofti í tvo daga, ekki burstað skóna mína í viku, en samt var ég of fínn – ég passaði ekki. Fólkið – sumir litu með fyrirlitningu á mig – aðrir aumkuðust yfir fína manninn sem mundi gera sig skítugan – en stelpurnar hlógu að mér, og þó var þetta staðurinn sem ég hafði mánuðum saman þráð að sjá. Þarna stóð ég og botnaði hvorki upp né niður í því af hverju fólkið var að flýta sér svona mikið.
Þarna stóð hún og botnaði hvorki upp né niður í ferðamanni í hvítum frakka, sem var að trufla vinnufriðinn – og gera skóna sína skítuga.
- - -
Þessi með harmonikuna sem sat á kollótta stólnum og þerraði af sér svitann, var víst enginn aukvisi. Hann var búinn að spila látlaust í fullan klukkutíma. Þvílíkt þrek. Þvílíkir tónar – og þvílíkir svitadropar, þegar hann loksins gaf sér tíma til þess að þerra þá. Hann var líka eini maðurinn sem gat spilað á harmoniku í öllum firðinum.
Hvað var líka varið í píanógaul með trommudeyfingu þegar harmoniku-Pétur var í essinu sínu.
Tónarnir voru þróttmiklir, alveg eins og fólkið í dansinum. Þegar Pétur var orðinn sveittur þá var dansfólkið orðið sveitt, og þegar harmoninku-Pétur þerraði svitann – þerrðu allir í húsinu svitann – einnig þeir sem sátu hreyfingarlausir á kollóttu stólunum.
Hér virtust allir þurfa að flýta sér, alveg eins og í síldinni – því alltaf gat „ræsarinn“ birst í dyrunum og kallað „síld“ þá var nú betra að vera búinn að „skvetta úr sér“.
Ég sem hafði setið hreyfingarlaus á einum kollótta stólnum þerraði svitann af enni mínu eins og allir hinir.
Þarna stóð hún, kafrjóð út að eyrum, brún niður á háls, í rauðflögóttum kjól, með villta ljósgullna hárið flaksandi út yfir annan vangann. Hún var að enda við að þurrka af sér svitann eftir klukkutíma viðstöðulausan sving-dans.
Ég var ákveðinn að leggja út í næstu orustu þegar harmonikku-Pétur opnaði næstu klukkustundar tónaflóðgátt. Ég gat ekki skilið svo við fjörðinn að ég hefði ekki stigið eitt dansspor við þessar heitfengu síldarstúlkur, sem voru svona hraustar og glaðlegar og gengu með sama dugnaði að dansinum og síldarvinnunni, notuðu sama í blíðu og stríðu. Andartak svimaði mig af ofmetnaði yfir að vera af sama þjóðerni og þessi þarna – sem ég hafði séð hlaupa í síldarpilsinu, hausskera og salta síldina og dansa klukkustundar sving-dans án þess að setjast niður.
- - -
Sigga var hún kölluð. Annars hét hún Guðríður Árnadóttir. Þegar hún var tveggja ára hafði mamma hennar látið skíra hana Guðríði í höfuðið á vinkonu sinni, sem dó erlendis. En pabba hennar, sem var skipstjóri og var búinn að vera það í 40 ár, fannst nafnið svo ljótt að hann kallaði hana alltaf Siggu, og skipaði öllu heimilisfólkinu að kalla hana það.
„Þess vegna er ég kölluð Sigga,“ sagði hún og brosti að athugasemd minni.
Við gengum óafvitandi niður á bryggjuna – leiðin liggur oft þangað á sumrin. Við námum andartak staðar við einn „braggann“. Vaktmaðurinn á bryggjunni var að hleypa inn stúlkunum sem höfðu verið á ballinu. Ég var að tala við ljóshærðu stúlkuna um daginn og veginn og þóttist vera að horfa á skip, sem rétt í þessu var að koma inn fjörðinn hlaðið af síld, en var raunverulega að gefa því gaum hvort allir strákarnir sem fylgdu stelpunum af ballinu mundu fara inn í braggann með þeim.
Mér til sárra vonbrigða, sögðu þær allar bless í takt og vaktmaðurinn lokaði á eftir þeim hurðinni.
Hinir lífsglöðu sjómenn héldu í burt frá bragganum arm í arm, og sungu í logni næturhúmsins „rok, rok, ég ræ ekki ...“
Við brostum aðeins hvort framan í annað – um leið stakk hún hendinni undir handlegg minn og spurði brosandi út undir eyru.
„Hvað eruð þér gamall?“
- - -
Ég smellti af. Þetta var síðasta myndin, sem ég tók af þessum bæ, og síðasta filman í vélinni.
Þetta var fallegur sunnudagur, sólin var heit og ég var hálfsyfjaður. Þess vegna hrökk ég í kút þegar Esja flautaði í síðasta slnn. Fólkið veifaði og skipið skreið hratt frá bryggjunni. – Jú, þarna stóð hún og brosti út að eyrum. Ég veifaði til hennar og hún galt í sömu mynt.
En ... Nú mundi ég allt í einu eftir því að hún ætlaði að segja mér áður en ég færi hvað hún væri gömul og hvers vegna ég mátti ekki kyssa hana og vera góður við hana í nótt þegar ég skyldi við hana.
Hún sem virtist svo hreinskilin og blátt áfram. Hvernig stóð á því að hún skyldi ekki efna þetta loforð?
Ég hrökk við. „Er þetta ekki til yðar?“ sagði maður sem hafði staðnæmst gegnt mér á þilfarinu og rétti mér bréf.
Jú, það var mitt nafn sem stóð skrifað utan á umslagið.
„Þakka yður fyrir – en hver bað yður fyrir þetta bréf.“
„Ein blómarósin rétti það yfir borðstokkinn og bað mig um að fá það manninum í hvíta frakkanum með myndavélina.“
Ég sló úr pípunni minni, stakk henni í vasann og settist inn í reykingasal til þess að geta í næði lesið bréfið frá henni. Mér hitnaði um hjartaræturnar. Þetta var fyrsta ástarbréfið sem ég hafði fengið á ævi minni. Ég ætlaði varla að þora að rífa það upp. Þegar ég bar hnífinn að umslaginu svitnaði ég af eftirvæntingu, engu minna en undir tónaflóði harmonikku-Péturs síðastliðna nótt. Hendur mínar skulfu lítils háttar um leið og ég fletti ástarbréfinu hennar í sundur.
Ég þerraði svitann af andliti mínu, skammaðist mín stundarkorn, og fékk mér svo í pípu.
Ennþá geymi ég samanbrotinn miða í veskinu mínu, þar sem skrifað stendur: „Ég er trúlofuð í Vestmannaeyjum og verð 16 ára á morgun. Sigga.“