Skoger á Skútufjöru
-eftir Jónas Ragnarsson
Árið 1936 var gott síldarár. Um miðjan ágúst hafði „aldrei áður verið veidd líkt því eins mikil síld til bræðslu,” að sögn Morgunblaðsins. Fimmtudaginn 20. ágúst var líflegt um að litast á Siglufirði. Mörg íslensk síldveiðiskip lágu við bryggju og á annað hundrað erlend skip voru úti á firðinum. Erlendi veiðiflotinn hafði víst aldrei verið jafn stór. Skipin voru flest í höfn vegna norðaustan hvassviðris úti fyrir Norðurlandi, en það hafði staðið í nokkra daga.
Eldur um borð
Laust eftir klukkan átta að kvöldi þessa dags kom skyndilega upp eldur í einu norsku skipanna úti á höfninni. Það hét Skoger og var um 580 brúttótonn að stærð. Skipið hafði komið til Siglufjarðar tveimur dögum áður. Í því voru um 2000 tunnur af síld sem söltuð hafði verið um borð, 500 tómar síldartunnur og 500 tunnur af salti. Í olíugeymum skipsins voru 8 tonn af olíu (sumar heimildir nefna 30 rúmlestir) og auk þess voru í skipinu átta föt af smurolíu.
Skipshöfnin vann að því að koma tunnum í farmrúm skipsins þegar tilkynnt var að eldur hefði brotist út í vélarrúminu, aftarlega í skipinu. „Gengu þá allir að því að reyna að slökkva, en eldurinn magnaðist brátt svo eigi varð við neitt ráðið,” sagði í fréttum Útvarpsins, samkvæmt samtali við Bjelkevik, útgerðarmann skipsins, en hann var staddur á Siglufirði. „Engu varð bjargað úr káetu né hásetaklefum afturá skipinu en 10 hásetar er bjuggu frammi í skipinu fengu bjargað mestu af eignum sínum. Á skipinu var 28 manna áhöfn.” Alþýðublaðið hafði eftir útgerðarmanninum að sennilega hefði olíurör sprungið. Skipverjar yfirgáfu skipið fljótlega í skipsbátunum og komust allir frá borði. Eftirlitsskipið Fridthjof Nansen var á Siglufjarðarhöfn og dældi sjó á eldinn.
Innan við klukkustund eftir að eldurinn gaus upp stóð skipið í ljósum logum. Engin önnur skip voru svo nálægt að hætta væri á að eldurinn bærist í þau. Síðar um kvöldið sprungu olíugeymarnir og olía flæddi um skipið og farmurinn eyðilagðist.
Þegar ljóst var að ekki varð ráðið við eldinn dró norska skipið Vesterhavet skipið upp í fjöru austan fjarðarins, til að koma í veg fyrir að það sykki á höfninni og hindraði skipaumferð. Þar hélt skipið áfram að brenna. Bálið var svo mikið að það „lýsti upp alla höfnina,” eins og það var orðað í Alþýðublaðinu. Eldur logaði í skipinu í nokkur dægur, samkvæmt blaðafréttum, og það brann að mestu. Ein heimild segir samt að aðeins afturhlutinn hafi brunnið.
Fullkomið strand
Fimm dögum eftir brunann sagði Útvarpið frá því að Ole Tynes síldarsaltandi á Siglufirði væri að bjarga því sem óskemmt væri af farmi Skoger. Skipverjar, aðrir en skipstjórinn og útgerðarmaðurinn, voru þá á leið til Reykjavíkur með Goðafossi. Þaðan fóru þeir síðdegis 27. ágúst með eimskipinu Lyra til Bergen í Noregi. Meðal annarra farþega voru Halldór Þorsteinsson skipstjóri (bróðir séra Bjarna) og Jónas Jónsson alþingismaður frá Hriflu.
Sama dag og Lyra lagði af stað frá Reykjavík voru sjódómsmenn á Siglufirði kallaðir saman til að „útnefna menn til þess að skoða og meta skipið Skoger TK 9 B, sem strandað er við Staðarhólsland” og til að úrskurða, að ósk Hans Th. Zachariasen skipstjóra „hvort sé fullkomið strand”. Dómurinn tilnefndi tvo siglfirska skipasmiði til verksins en ekki finnast heimildir um niðurstöðu þeirra.
Í lok ágúst var auglýst í Siglfirðingi eftir tilboðum í skipið „í því ástandi sem það er nú eða verður þegar sala fer fram”. Ekki er vitað um lyktir þess máls.
Skipstjórinn áminntur
Samkvæmt upplýsingum frá norska sjóminjasafninu var Skoger tréskip, byggt árið 1921 í Svelvik í Noregi. Það var 48 metra langt, 10 metra breitt og dýptin var 4,5 metrar. Vélin var 320 hestöfl. Fyrst var skipið gert út frá Drammen en síðan Brevik og loks Porsgrunn. Þessir bæir eru sunnarlega í Noregi, ekki langt frá Osló. Í maímánuði 1934 skemmdist skipið þegar eldur kom upp í því þar sem það var til viðgerðar í Porsgrunn. Skipið var gert upp og tekið fljótlega aftur í notkun.
Skoger nýbyggt við bryggju skipasmíðastöðvarinnar í Svelvik í Noregi, árið 1921. Stjórnpallur og vélarrúm voru aftast á skipinu.
Í skýrslum um norska skipsskaða segir að upptök eldsins 1936 hafi verið þau að neisti frá gufukatli hafi komist í gas. Sama heimild segir að skipstjórinn hafi fengið áminningu og sekt (40 norskar krónur) fyrir að hafa björgunarbúnað ekki í lagi.
Í íslenskum blaðafréttum um brunann er sagt að Skoger hafi veitt með snurpunót sumarið 1936, en það stenst varla. Í minningu gamalla Siglfirðinga var Skoger tunnuflutningaskip. Líklegra er að um borð hafi verið söltuð síld sem önnur norsk skip veiddu.
Nú, sjötíu árum eftir brunann í Siglufjarðarhöfn, sést hluti flaksins af þessu norska skipi, Skoger, enn í fjörunni við norðurenda flugbrautarinnar, fjörunni sem ýmist er kennd við Staðarhól eða Skútu, bæi sem eru komnir í eyði fyrir löngu.
Skammt frá enda gamla flugvallarins á Ráeyri gefur að líta það sem eftir er af Skoger.
Myndin var tekin 15. júlí 2010. Þá var fjara.