Fyrsti síldarsaltandinn - Snorri Pálsson

Snorri Pálsson var fæddur að Möðruvöllum í Hörgárdal 1840 sonur Páls Jónssonar síðar prests (sá sem samdi sálminn Ó Jesú bróðir besti).

Snorri réðst sem faktor (verslunarstjóri) við Siglufjarðarverslun árið 1864 þá aðeins 24 ára gamall. Verslunin var í eigu  Danans Chr. D. Thaae og gekk hún allvel undir stjórn Snorra. Árið 1876 keypti Gránufélagið á Akureyri Siglufjarðarverslun og fóru þá umsvif verslunarinnar mjög vaxandi, aðallega með aukinni útgerð hákarlaskipa og útflutningi á hákarlalýsi. Snorri hafði sjálfur bein afskipti af útgerð og var meðeigandi í nokkrum hákarlaskipum. Þá hafði Snorri afskipti af tilraunaveiðum Norðmanna á þorski fyrir Norðurlandi og var fyrir það sakfelldur ásamt öðrum fyrir brot á lögum um veiðar útlendinga hér við land. Málið var látið niður falla en í frásögn Jóns Þ. Þór sagnfræðings af þessum atburðum má lesa að þá hafi farið fram „ein fyrsta tilraun Íslendinga til fiskiræktar“ og var það hér á Siglufirði.

Athafnir Snorra Pálssonar sýna að hann hefur verið einn mesti framkvæmda- og framfaramaður sem Siglufjörður hefur eignast. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að sjaldnast var Snorri einn að verki þótt hann væri oftast forvígismaðurinn. Að jafnaði átti hann sér góða samstarfsmenn eins og Einar B. Guðmundsson stórbónda og hugsjónamann á Hraunum. Þeir komu t.d. af stað rekstri niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði 1879 og þaðan var selt til útlanda ólíusoðinn silungur, kæfa, kindakjöt og rjúpur í dósum.

Þá stóð hann að stofnun skipatryggingarsjóðs og ekknasjóðs og síðast en ekki síst Sparnaðarjóðsins árið 1873 og var jafnframt fyrsti sparisjóðsstjórinn.

Og árið 1881 hafði síldarfélagið hans eignast veiðarfæri og allan nauðsynlegasta búnað til síldarsöltunar og það ár voru 650 síldartunnur seldar til útlanda og talaði Snorri mjög stoltur um „fyrsta alíslenska“ síldarfarminn. Og þarna má einnig tala um upphaf á sögu síldariðnaðar Íslendinga.

Margra ára ótíð og harðindi komu í veg fyrir frekari athafnir Síldarfélagsins á Siglufirði og lagði það upp laupana með dauða Snorra 1883.

Snorri var í nokkur ár þingmaður Eyjafjarðarsýslu og vann þá að ýmsum mikilvægum hagsmunamálum Siglfirðinga. Hann var annar tveggja flutningsmanna frumvarps á Alþingi um vitagjald af skipum sem líta má á að séu fyrstu merki þess að þörf væri á að byggja vita á Íslandi. Þá er talið að fyrir áhrif hans að strandferðaskip fóru að hafa viðkomu hér, hestavegur var lagður yfir Siglufjarðarskarð og Siglufjörður var gerður að sjálfstæðu læknishéraði.

Snorri lést 43 ára að aldri, og varð öllum mikill harmdauði. Skömmu áður hafði hann skipulagt byggingu íbúðarhúss síns sem kona hans maðdama Margrét Ólafsdóttir lauk við og bjó í allmörg ár. Fyrsti húsbóndi í Maðdömuhúsi varð sr. Bjarni Þorsteinsson en þar bjó hann frá 1888 til 1898. Maðdömuhús hefur eftir endurbyggingu í byrjun 21. aldar verið heimili Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Oft hefur sr. Bjarni réttilega verið nefndur faðir Siglufjarðar. En með sama hætti og fyrir hið stóra hlutverk Snorra Pálssonar í sögu okkar þá hefur hann af góðum mönnum verið kallaður „afi“ Siglufjarðar.

Heimildir:
Snorri Pálsson, ritgerð í Siglfirðingabók 1975 bls. 9-29, höf. Jón Þ. Þór.
Snorri Pálsson verzlunarstjóri, ritgerð Kristins Halldórss.

Samantekt – Örlygur Kristfinnsson