Mesta síldarborg álfunnar
Um miðjan ágúst 1939 ferðuðust níu danskir blaðamenn, í fylgd íslenskra starfsbræðra, um Ísland og lögðu leið sína meðal annars til Siglufjarðar. Guðbrandur Magnússon prentari, ritstjóri og síðar forstjóri Áfengisverslunar ríkisins lýsti ferðinni í Tímanum. Hér er Siglufjarðarkaflinn:
Næsta morgun vöknuðu leiðangursmenn á Siglufirði, í þessari litlu borg sem þó er mesta síldarborg álfunnar. Athyglin var vökul. Margt var skoðað og margs var spurt.
Bryggjufjöldinn, tunnuhlaðarnir, hinar mikilvirku síldarverksmiðjur, herpinótin 400 m löng og 80 m djúp, sem í einu kasti getur innbyrgt 2000 mál eða sex hundruð þúsund síldar, allt gaf þetta hugboð um þá ótölulegu mergð sem vonast er eftir að ausið sé upp úr hafinu af þessum litla en fallega fiski.
Reknetabátur kom inn. Spegilfögur síldin fyllti þrjú hólf yfir þveran bát. Okkur aðkomumönnum þótti þetta falleg veiði. Hvað er þetta mikið? Tuttugu tunnur! Hvað ber báturinn margar tunnur? Fjögur hundruð og fimmtíu! Og enn einu sinni
fann maður hve mikið vantaði á að maður gerði sér Siglufjörð í hugarlund, þegar aflauppgrip eru fyrir hendi.
Við fengum að koma í einn af „brökkunum“ og fréttum síðar að hann hefði verið um meðallag hvað aðbúð fólks snerti. Allt var þar vel um gengið, hlífðarföt héngu á veggjunum í rúmgóðu fordyri, en ballkjólar á herðatrjám í afdrepi milli rúma, en herðatrén á slá svo að í röndina sá á þessum fallegu, marglitu flíkum. En rúmin mynduðu tvöfaldan hring, hvorn upp yfir öðrum, með öllum veggjum. Í sumum rúmunum sváfu stúlkur sem vakað höfðu við síldarsöltun um nóttina. Einnig komum við í eldhús, búr og borðstofu „brakkans“ og geri ég ráð fyrir að íslenzku blaðamennirnir hafi farið hreyknari af þessum fundi en búist var við, eftir því orðspori sem farið hefir af aðbúð síldarfólks á Siglufirði.
Kostur var að sjá vinnubrögð við síldarsöltun en aldrei nema litla hópa og strjála.
Hvaðan eruð þið, ungu stúlkur?
Þrjár frá Reykjavík, tvær frá Ísafirði og ein frá Siglufirði.
Ef til vill nokkurn veginn hlutfall um fjölda aðkomustúlknanna frá þessum stöðum en Siglufjörður á óefað miklu stærra hlutfall í hópi stúlknanna sem annast söltun. Sú yngsta var spurð að aldri. Hún var 13 ára. En 9 ára kváðu litlu stúlkurnar á Siglufirði byrja að vinna við síldarsöltun.
Daginn áður en við komum höfðu 50 skip komið til Siglufjarðar með síld, og höfðu þau komið með 13 tunnur síldar til jafnaðar. Var gestunum sagt, að þessi aðkoma væri áþekkust því að þeir ætluðu sér að sýna okkur prentun sinna miklu blaða, en pappírinn vantaði!
Tunnuverksmiðjan, öldubrjóturinn, nýja, heita sundlaugin er sótt er af 200 manns á dag að meðaltali, allt var þetta skoðað.
Þá var greint frá því, að hefði á þessu ári orðið veiði á hverja nót ámóta og árið 1937 myndi útflutningsverðmætið nema 35-40 milljónum króna, en daginn sem við vorum á Siglufirði, 19. ágúst, vorum við ekki komnir hærra en í 12 milljónir, og veiðihorfurnar engan veginn glæsilegar.
En næsta dag veiddist fyrir heila milljón. Svona er síldin – og Siglufjörður!
Um það leyti sem blaðamennirnir komu til Siglufjarðar var talið að lélegri síldarvertíð væri að ljúka en þá brá svo við að veiðin fór að glæðast og söltunarmet var slegið einn daginn síðla í ágúst.
Í september bárust fréttir af vöruskorti á Siglufirði, sem stafaði annars vegar af því hve margt fólk hafði dvalið í bænum um síldveiðitímann og hins vergar hve lengi það var. Söltun og bræðslu lauk um miðjan mánuðinn og vertíðin í heild var ekkert mikið lakari en árin á undan.
Jónas Ragnarsson tók saman.