Rauða planið
- eftir Anitu Elefsen. [Stytt útgáfa af BA ritgerð, birt í tímaritinu Sögnum árið 2013]
Kommúnistahreyfingin náði miklum ítökum á Norðurlandi á þriðja og fjórða áratug 20. aldar og var þar fjölmennust á Siglufirði, talið í flokksbundnum félögum. Síldarbærinn mikli á norðurhjara veraldar virtist á tímabili vera eins konar „Mekka“ kommúnista á landinu. Þeir sóttu þangað atvinnu í skjóli Síldareinkasölu Íslands, eða á eigin vegum eftir að dagar hennar voru taldir. Síldin var sem gull í augum fátækra, atvinnulausra kommúnista. Síldin var í raun gull þjóðarinnar, svo engan ber að undra þá ásókn sem var í síldarvinnuna. Segja má að fáar skepnur hafi fært þjóðinni jafn miklar tekjur og síldin. Hún skapaði stærstan hluta útflutningstekna landsins á tímum síldarævintýrisins, auk þess sem hún færði fólki atvinnu og góð laun. Víða um land var það síldin sem gerði fólki kleift að flytja sig úr gömlu torfbæjunum í nútímalegri híbýli þéttbýlisstaðanna. Á fyrri hluta síðustu aldar fylltist bærinn af verkafólki hverja síldarvertíð, Siglufjörður varð miðdepill athafnaseminnar, menn töluðu um „Klondyke Atlantshafsins“ og líktu ástandinu í síldarbænum við gullgrafarastemmninguna í Norður Ameríku. Timburhús risu og þorp varð að stórum bæ.
Áhugaverð en illa varðveitt saga varð til á litlu síldarplani norður á Siglufirði um mitt ár 1930. Síldareinkasala Íslands tók á leigu síldarplan í eigu stórútgerðarfélagsins Kveldúlfs hf. og hafði einn forstjóra hennar, Einar Olgeirsson, það að markmiði sínu að sýna verkalýðnum að auðvaldið arðrændi sjómenn og verkafólk í stórum stíl. Einar stjórnaði planinu og verkun síldarinnar. Hann réði til sín unga menn í vinnu, sem allir áttu það sameiginlegt að vera yfirlýstir kommúnistar. Síldarstúlkurnar á planinu börðust fyrir auknum réttindum verkalýðsins og hærra kaupi. Hið svokallaða Rauða plan lifði stutta ævi, aðeins tvær síldarvertíðir, en saga þess er engu að síður afar athyglisverð. Opinberlega var planið rekið af einkasölunni en Einar Olgeirsson virðist hafa stjórnað rekstrinum algerlega. Einar hafði uppi stór áform. Hann kvaðst hafa stefnt að því að ríkisrekstur á planinu yrði fyrsta skrefið í þá átt að verkalýðurinn næði yfirráðum yfir atvinnurekstri auðvaldsins í landinu.
Silfur hafsins – gull Íslands
Síldin skapaði Siglfirðingum sterka vígstöðu. Siglufjörður var stærsti síldarbær landsins og byggði hann afkomu sína nær eingöngu á þeim verðmætum sem síldveiðin skapaði. Þar voru fylltar tugir eða hundruð þúsunda tunna af saltsíld og bræðsluverksmiðjur framleiddu mjöl og lýsi í stórum stíl hvert sumar. Síldarframleiðslan skapaði þjóðarbúinu gríðarlegar tekjur. Útflutningstekjur landsins á árunum frá 1916 – 1945 réðust að talsverðu leyti af veiðum og útflutningi síldarinnar. Á þessum árum gaf síldin þjóðinni að jafnaði um 20 til 25% af útflutningstekjum hennar, að undanskildum árunum frá 1936 – 1940 þegar tekjur af síldarútflutningi námu allt að 40% af gjaldeyristekjum landsins.[1]
Síldin er einn helsti örlagavaldur Íslendinga á þessari öld og án hennar er vafasamt að hér hefði byggst upp það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag [...] Á fjórða áratugnum var yfirleitt mikil síldveiði og fjöldi nýrra síldarbræðslna tók til starfa. Líklegt má telja að ef síldarinnar hefði ekki notið við þá hefði kreppan upp úr 1930 orðið mun dýpri en raun varð á og hugsanlega gengið af sjávarútveginum dauðum og þar með íslensku efnahagslífi.[2]
Á þessum tíma, um miðjan fjórða áratuginn, var Siglufjörður orðinn fimmti stærsti bær landsins.[3] Auk þess margfaldaðist fólksfjöldinn í bænum hvert sumar. Þangað komu þúsundir karla og kvenna til að stunda atvinnu yfir sumartímann. Talið er að íbúar, verkafólk og sjómenn hafi í landlegum verið rúmlega tólf þúsund á góðum síldarárum, en á fjórða áratugnum voru íbúar Reykjavíkur um og yfir þrjátíu þúsund. Með slíkan fólksfjölda á staðnum gefur að skilja að verkalýðshreyfingin, stjórnmálin og annað félagslíf hafi staðið í miklum blóma.
Tilraun til sósíalísks skipulags á síldarplani
Síldareinkasala Íslands var sett á laggirnar árið 1928 í kjölfar þess að Kristján tíundi danakonungur undirritaði lög um einkasölu á útfluttri síld að frumkvæði ríkisstjórnar Framsóknarflokksins.[4] Hlutverk einkasölunnar var að sporna gegn því að framleiðsla síldar yrði meiri en erlendir markaðir réðu við fyrir viðunandi verð og á sama tíma var henni ætlað að „binda enda á villta samkeppni spekúlantanna.“[5] Lög Síldareinkasölunnar kváðu á um að frá 1. maí 1928 skyldi öll síld sem framleidd væri til útflutnings, söltuð, krydduð eða verkuð á annan hátt, heyra undir einkasölu.[6] Menn höfðu ekki lengur vald til að selja síld sína milliliðalaust til erlendra aðila.
Framkvæmdastjórar Síldareinkasölu Íslands voru þrír, Pétur A. Ólafsson síldarsaltandi, Ingvar Pálmason alþingismaður og Einar Olgeirsson. Í kjölfarið störfuðu útgerðarmenn og síldarsaltendur í raun sem verktakar hjá Síldareinkasölu Íslands og urðu háðir starfsleyfum hennar fyrir framleiðslu sinni. Afar mikil óánægja varð meðal síldarsaltenda og sjómanna vegna stofnunar einkasölunnar, þeim fannst sjálfsagt að geta ráðstafað afla sínum og framleiðslu að eigin vild – án þess að hafa ríkisrekna stofnun yfir sér og þurfa að lúta reglum hennar. Saltendur og útgerðarmenn vildu ekkert opinbert mat eða opinber afskipti hafa af síldarsölu og framleiðslu. Þrátt fyrir vilja útgerðarmanna til að stjórna framleiðslu sinni sjálfir, töldu stjórnvöld þá ekki lengur fyllilega hæfa til verslunar og samningsgerðar. Þess voru dæmi að tugþúsundir síldartunna hafi verið fluttar á erlenda grund þar sem þær stóðu óseldar þar til þeim var sökkt í sjó eða þær eyðilagðar með öðrum hætti, vegna þess að samningar náðust ekki.
Menn voru ekki á eitt sáttir, eins og kom fram í Siglfirðingi, málgagni sjálfstæðismanna á Siglufirði. „Af öllum þeim einkasölum, sem við búum undir, er þessi lang verst og tekur mest til almennings; vegna þess að hún er eina einkasalan sem takmarkar og heftir atvinnu og framleiðslu og útflutning landsmanna á einni aðalframleiðsluvöru þessa lands.“[7] Sjálfstæðismenn lýstu því yfir árið 1930 að einkasalan myndi draga síldarvinnuna og framleiðsluna til dauða. „Alt þetta bendir til þess, að Siglfirðingar og aðrir, sem lifað hafa af síldveiði, söltun og kryddun, fái tækifæri til þess að vera viðstaddir sína eigin útför.“[8] Ekki ber að undra þótt sjálfstæðismenn tækju þessa afstöðu til Síldareinkasölunnar. Stofnun hennar var í andstöðu við stefnu flokksins um markaðsbúskap og þeir fengu engan aðgang að stjórn hennar eða framkvæmdastjórastöðum, heldur skiptu Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn þeim á milli sín, en þetta gerðist tveimur árum fyrir stofnun Kommúnistaflokks Íslands, KFÍ.
Sumarið 1930, tveimur árum eftir að Síldareinkasalan hafði verið stofnuð, gerði Einar Olgeirsson framkvæmdastjóri hennar samning við útgerðarfélagið Kveldúlf hf. um leigu á síldarplani á sunnanverðri Siglufjarðareyri. Um var að ræða 4700 fermetra sjávarlóð, þar sem risið hafði brakki og stórt geymsluhús.[9] Athafnasvæðið hentaði hins vegar ekki vel til löndunar úr stórum togurum vegna aðgrynnis. Var það meðal annars ástæðan fyrir því að lóðin var laus til leigu, Kveldúlfsmenn höfðu siglt afla sínum til Hjalteyrar við Eyjafjörð, en þar voru aðalbækistöðvar fyrirtækisins á Norðurlandi. Þegar litið er til pólitískrar og samfélagslegrar stöðu þeirra manna er undirrituðu leigusamninginn verða umrædd viðskipti afar áhugaverð. Einar Olgeirsson var einn helsti leiðtogi íslenskra kommúnista í Alþýðusambandinu, en Thor Jensen stórathafnamaður og eigandi Kveldúlfs var kapítalið holdi klætt. Eftir að skrifað hafði verið undir leigusamninginn, réðu kommúnistar lögum og lofum á Kveldúlfsplaninu á Siglufirði næstu tvö sumur, en starfsemi þeirra undir merkjum Síldareinkasölu ríkisins leið undir lok á sama tíma og einkasalan sjálf varð gjaldþrota síðla árs 1931. Einar stjórnaði framleiðslunni á planinu þó aðeins fyrra sumarið, því að hann var rekinn frá forstjórastöðu sinni í árslok 1930. Guðmundur Skarphéðinsson, einn helsti foringi jafnaðarmanna á Siglufirði var ráðinn framkvæmdastjóri á Rauða planinu í hans stað og hafði hann stjórn á síldarplani einkasölunnar sumarið 1931, en þess má geta, þó það sé önnur saga, að Guðmundur lést voveiflega um ári síðar eftir harðar deilur við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.[10]
Eðlilega vakti starfsemi Einars og félaga á Kveldúlfsstöðinni hörð viðbrögð og miklar umræður meðal pólitískra andstæðinga þeirra. „Var þessi söltunarstöð almennt kölluð „Rauða planið“ því það þótti eiga vel við um þann fyrsta atvinnurekstur, og sumar starfsaðferðir þær, sem Einar stóð fyrir hér um slóðir, að honum yrði líkt við kenningar þeirra kommúnistanna til aðgreiningar frá öðrum.“[11] Brynjólfur Bjarnason, helsti frammámaður kommúnista í landinu, gagnrýndi Einar líka harðlega fyrir störf hans hjá Síldareinkasölunni svo sem í bréfi í árslok 1928. Þar greindi Brynjólfur honum frá því að stjórn Jafnaðarmannafélagsins Spörtu, aðalsamtaka kommúnista í Reykjavík, krefðist þess að Einar segði af sér forstjórastöðunni. „Ef þú [Einar] heldur þannig áfram að starfa af alefli fyrir stórmálum upp á eigin spýtur, málum sem þú veist að við erum eindregið andvígir, [...] þá sjerð þú að einingu kommúnismans á Íslandi er allmikil hætta búin.“ Jafnframt sagði Brynjólfur að það væri „hreinn og ótvíræður opportunismi“ af hálfu Einars að telja verkalýð landsins trú um að hann gæti bætt kjör sín í samvinnu við „kapítalistana“.[12] Brynjólfur lét sér þó ekki nægja að kvarta undan störfum Einars við félagana í Spörtu, heldur kvartaði hann margsinnis yfir Einari og forstjórastöðu hans í bréfum sínum til Kominterns á árunum 1927 – 1929 og fékk Einar áminningu frá yfirboðurum í Moskvu í kjölfarið.[13] Það var ekki vel séð að kommúnistar störfuðu með atvinnurekendum. Þó er útlit fyrir að Brynjólfur hafi róast í afstöðu sinni gagnvart starfi Einars fyrir einkasöluna, því hann gerðist sjálfur stafsmaður Síldareinkasölunnar sumarið 1930.[14]
Því má ekki gleyma að Einar hlaut stöðu sína sem framkvæmdastjóri einkasölunnar fyrir tilstuðlan Jónasar Jónssonar frá Hriflu, þáverandi dóms- og menntamálaráðherra. Jónas stefndi að því að halda kommúnistum rólegum innan Alþýðuflokksins með bitlingum.
Andstæðingar stjórnarinnar [ríkisstjórnar Framsóknarflokksins 1927-1931] töldu að með áhrifum Alþýðuflokksins hefði rauður fáni í fyrsta skipti verið dreginn að húni Alþingishússins. Það sem þeim varð þó einna tíðræddast um voru bitlingar stjórnarinnar til þekktra sósíalista, jafnvel æstra kommúnista sem voru í andstöðu við stjórnina innan Alþýðuflokksins. Jónasi frá Hriflu var auðvitað vel ljós tilvera kommúnista [...] Hann virðist hafa talið í fyrstunni að mesti vindurinn færi úr kommúnistum með því að fela þeim ábyrgð og gera þá háða stjórnvöldum [...] Síðar lýsti Jónas fyrirætlunum sínum svo: „Um tíma tókst mér að stöðva nokkuð framgang byltingarstefnunnar með því að koma því til leiðar að Einari Olgeirssyni var komið að þýðingarmiklu borgaralegu starfi.“[15]
Á síldarplani einkasölunnar norður á Siglufirði áttu að sitja í fyrirrúmi hagsmunir verkafólks og sjómanna en ekki hagsmunir síldarsaltenda og „útgerðarauðvaldsins“ eins og tíðkast hafði í íslensku atvinnulífi. Sjálfur komst Einar svo að orði í bókinni Kraftaverk einnar kynslóðar að hann hafi ákveðið að taka við starfi framkvæmdastjóra Síldareinkasölunnar til þess að reyna „að koma síldarframleiðslunni og síldarsölunni á öruggan grundvöll og að tryggja vald og hagsmuni verkalýðs á sjó og landi gagnvart bröskurunum.“[16] Hann vildi nýta vald sitt og krafta sem forstjóri, til þess að koma stærri hluta afkomunnar til verkafólks og sjómanna, til þeirra „sem framkvæma alla vinnuna og stofna lífi sínu í hættu við það.“[17]
Slík sjónarmið birtust víða á þessum árum. Í Mjölni, málgagni Jafnaðarmannafélags Siglufjarðar, lýsir ungur kommúnisti stöðu verkalýðs og öreiga á þennan veg: „Öreigarnir eiga ekki þau tæki er þeir vinna með, ekki heldur þau verðmæti er þeir skapa [...] Lífi og limum hafa þeir orðið að fórna fyrir hagsmunamál sín, en yfirstjettin, er hefir alls að gæta, hefir ennþá getað hindrað fullkomið valdanám þeirra að mestu.“[18] Í þessum orðum kemur afstaða hans til atvinnurekendanna skýrt fram og jafnframt sú staðreynd að eindregnustu fylgismenn kommúnista dreymdi um að taka völdin í landinu með byltingu. Hvar var heppilegast að byrja? Mögulega á síldarplani í eigu auðvaldsins. Sem forstjóri Síldareinkasölu ríkisins hafði Einar Olgeirsson vissulega ákveðið vald í höndum sér og ákvað hann í ljósi þess að gera tilraun til stórvægilegra breytinga á framleiðsluháttum og lífskjörum þess hluta alþýðunnar sem ætti undir einkasöluna að sækja.
Áhugavert er að kanna raunverulegan tilgang Einars Olgeirssonar varðandi Rauða planið, en afar ólíklegt verður að teljast að áhugi á síldarsöltun einni saman hafi ráðið því að ákveðið var að hefja rekstur söltunarstöðvar norður á Siglufirði. Hreinn Ragnarsson, kennari og ritstjóri nýlegrar Síldarsögu Íslands sagði höfundi þessarar greinar frá því að hann hefði tekið viðtal við Einar Olgeirsson fyrir allmörgum árum, er unnið var að undirbúningi hinnar miklu síldarsögu. Einar hafi þá sagt honum að Rauða planið á Siglufirði hafi átt að vera forleikur að stofnun Sovét-Íslands. Rekstur Rauða plansins hafi með öðrum orðum átt að marka upphaf þess að kommúnistar næðu tökum á framleiðslutækjunum í landinu.[19] Þannig ætluðu Einar og félagar hans sem störfuðu með honum á Rauða planinu að sýna fram á og sanna að hið sósíalíska eða sovéska skipulag væri æðra en markaðsskipulagið og gæfi verkafólki meira í aðra hönd. Þegar fólk hefði gert sér grein fyrir því, að aðferðir Marx og Engels leiddu til réttlátara og betra lífs en aðferðir auðvaldsins og stórkaupmanna, yrði eftirleikurinn auðveldur: „Í fyrstu berjast einstakir verkamenn, þá verkamenn einnar verksmiðju, því næst verkamenn í einni atvinnugrein á einum og sama stað, gegn hinum einstaka borgara, sem arðrænir þá. Þeir ráðast á sjálf framleiðslutækin.“[20] Áætlun Einars var ekki eftir þessum boðskap Kommúnistaávarpsins í eiginlegri merkingu, en hann virðist þó, ef marka má orð hans, hafa ætlað að ná tökum á fyrirtæki í eigu „borgaralegs ríkisvalds“ og færa það í raun undir yfirráð verkalýðsins. Upphafið að paradís verkamannsins skyldi verða á síldarplani norður á Siglufirði – í eigu Kveldúlfs hf.! Annað markmið Einars með rekstri Rauða plansins var að sýna fram á að hægt væri að framleiða síld til útflutnings á annan og ódýrari hátt en gert hafði verið áður. Hann var þess fullviss að sjómenn og verkafólk ættu að geta borið stærri hlut frá borði. Hann taldi saltendur og útgerðarmenn ýmist hafa eyðilagt markaðinn með skipulagsleysi og offramleiðslu eða arðrænt verkalýðinn á sama tíma og þeir högnuðust sjálfir verulega á útflutningi og sölu síldarafurða á mestu veltiárunum. Sjálfur hafði Einar ákveðnar hugmyndir um hlutverk Síldareinkasölunnar, hún skyldi vera sverð verkalýðsins í bardaganum gegn auðvaldinu.
Hugmyndir mínar og tillögur um Síldareinkasöluna voru þær, að ríkið tæki að sér alla síldarsöltun til þess að tryggja sjómönnum og útgerðarmönnum sem hæst verð fyrir síldina [...] Síldareinkasalan ætti að vera vopn í hendi alþýðunnar, en ekki til þess að hlaupa undir bagga með gjaldþrota síldarkaupmönnum og hjálpa útgerðarmönnum til þess að hafa kaup af verkafólki og sjómönnum. Þessa menn ætti að svipta yfirráðum yfir síldarframleiðslunni. Meginatriðið var að láta það koma fram, að Síldareinkasalan væri tæki verkalýðsins innan ríkisvaldsins á móti atvinnurekendum, sýna það svart á hvítu, að [verkalýðurinn] hefði ekki aðeins ítök, heldur líka völd og úrræði.[21]
Þessar hugmyndir Einars voru í raun kórvilla samkvæmt boðskap íslenskra kommúnista sem héldu því fram samkvæmt Komintern-línunni að hafið væri tímabil „ríkisauðvalds“ á Íslandi undir forystu Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, sem stefndu í átt til fasisma, „sósíalfasisma“. Það er því engin furða þótt Brynjólfur Bjarnason, helsti talsmaður Kominterns í landinu hafi beitt sér eindregið gegn setu Einars Olgeirssonar í forstjórastóli hjá Síldareinkasölunni. Þannig er hugsanlegt er að Einar Olgeirsson hafi reynt að mikla fyrir sér og öðrum áform sín um að Rauða planið yrði upphaf að sósíalískri atvinnulífsbyltingu í landinu, til þess að réttlæta gjörðir sínar og forstjórastöðu gagnvart félögum sínum og Komintern. Síldareinkasalan var í augum þessara aðila hluti af hinu nýja „ríkisauðvaldi“ og því fólst í því frávik frá Moskvulínunni að gerast forstjóri í slíku fyrirtæki.
Erlingur Friðjónsson, bæjarfulltrúi á Akureyri og fyrrum samstarfsmaður Einars hjá einkasölunni var ritstjóri Alþýðumannsins, vikublaðs Alþýðuflokksins á Akureyri. Um mitt ár 1931 birtist grein í blaðinu, þar sem fram kom mikil andúð á atvinnurekstri kommúnista á Rauða planinu. „Einar [Olgeirsson] mun hafa litið þannig á, að nú væri tækifæri til að sýna það, að kommúnistar sköruðu fram úr öðrum í stjórnsemi, fyrirhyggju og öðrum mannkostum, þeim er alþýðunni gæti orðið að liði, og skar hann því herör upp um gjörvalt landið og kallaði til sín sinn rauða her. Voru þar kommúnistar saman komnir úr öllum landsfjórðungum, úrvalslið Einars.“[22] Áhugavert er að oft virðast menn hafa álitið síldarplan einkasölunnar, Rauða planið, einkafyrirtæki Einars Olgeirssonar, en svo var ekki. Einar hafði stjórn á starfrækslu á síldarplaninu og dvaldi á Siglufirði sumarlangt árið 1930. Hann virðist hafa haft nokkuð frjálsar hendur varðandi reksturinn og svo virðist sem hugmyndin hafi verið komin frá Einari sjálfum, en ekki stjórn einkasölunnar. Í endurminningum sínum segist hann hafa samið við Thor Thors um leigu á Kveldúlfsplaninu. Jafnframt greinir hann frá því að hugmyndin um að ríkisvæða alla síldarsöltun í landinu hafi verið hans eigin.[23] Því má draga þá ályktun að Rauða planið á Siglufirði hafi verið hugarfóstur Einars Olgeirssonar, undir merkjum Síldareinkasölu Íslands.
Lega Rauða plansins er út af fyrir sig áhugaverður þáttur í sögu þess. Planið stóð á miðri Siglufjarðareyri, mitt á milli rúmlega tuttugu söltunarstöðva sem margar hverjar voru í eigu stórkapítalista. Næsta stöð austan við Rauða planið var til dæmis Jakobsenstöðin, rekin af Norðmanninum Edvin Jakobsen sem var giftur fósturdóttur Hafliða Guðmundssonar, hreppstjóra. Jacobsen var mikill eignamaður og einn af fyrstu norsku síldarsaltendunum sem hösluðu sér völl á Siglufirði. Vestan við Rauða planið stóð Hjaltalínsstöðin. Sú stöð var rekin af bræðrunum Jóni og Steindóri Hjaltalín. Báðir voru þeir afar umsvifamiklir athafnamenn á árunum 1928 – 1934.[24] Steindór, sem hafði umsjón með söltuninni ásamt bróður sínum, var frammámaður í félagsskap þjóðernissinna á Siglufirði. Hann rak á tímabili síldarverksmiðjuna Rauðku og var útgerðarmaður. „Forríkur náungi“ að sögn Hinriks Aðalsteinssonar. Íbúðarhús var byggt norðan við söltunarstöð Hjaltalínsbræðra, og þar bjó Jón á tímabili. Í húsinu héldu þjóðernissinnar fundi, en ýmsir ungir Siglfirðingar hneigðust til fylgilags við nasismann á árunum milli 1930 og 1940.[25] Miklar stjórnmálaandstæður hafa því blasað við á síldarplönunum í kring um hina vinstrisinnuðu róttæklinga á Rauða plani einkasölunnar; stórkapítalistar og þjóðernissinnar voru meðal þeirra sem stjórnuðu siglfirsku söltunarstöðvunum.
Úrvalslið eindreginna kommúnista
Á Rauða planinu hafa að öllum líkindum farið fram líflegar umræður og bollaleggingar um framtíðina. Jafnvel mætti ætla að áform kommúnista um alræði öreiganna og frelsi verkalýðsins á Íslandi hafi þar fengið á sig skýrari mynd. Þarna mætti sjá upphaf að atvinnurekstri og framleiðslu undir stjórn kommúnista í landinu. Á Rauða planinu störfuðu margir þeir menn er stóðu eða áttu eftir að standa fremstir í flokki eindregnustu kommúnista á Íslandi. Einar Olgeirsson, framkvæmdastjóri Síldareinkasölunnar réð til starfa vini og félaga eins og fyrr getur, sér í lagi þá sem ekki fengu atvinnu annars staðar sökum stjórnmálaskoðanna sinna. „Við notuðum okkur aðstöðuna“ sagði Einar „til þess að veita þeim [kommúnistunum] vinnu eins og náttúrulegt var, því að margir þeirra voru á svörtum lista hjá atvinnurekendum og áttu ekki hægt með að fá vinnu“[26]
Eins og við mátti búast höfðu menn misjafnar skoðanir á því starfsliði sem saman var komið á síldarplaninu norður á Siglufirði. Sjálfstæðismenn í bænum höfðu orð á því að „ekki væri annað sjáanlegt en að [Einar] væri að gera Einkasöluna að Kommúnistiskri uppeldisstofnun.“[27] Þeir sem höfðu atvinnu á Rauða planinu voru meðal annarra nemendur sem reknir höfðu verið eða flæmst úr Menntaskólanum á Akureyri vegna þátttöku sinnar í félagsstörfum kommúnista. Réttlínumaðurinn eindregni, Eggert Halldór Þorbjarnarson, sem síðar starfaði fyrir Komintern í Moskvu og var sá Íslendingur sem naut mests trausts Moskvuvaldsins eftir að hann lauk námi eystra, var meðal þeirra. Á planinu starfaði einnig Ásgeir Blöndal Magnússon sem síðar varð einn helsti málfræðingur landsins og forstöðumaður Orðabókar Háskóla Íslands. Þá má nefna félaga þeirra Hallgrím Balda Hallgrímsson sem hætti námi við Menntaskólann á Akureyri í mótmælaskyni við skólayfirvöld.[28] Þekktastur varð Hallgrímur fyrir þátttöku sína í borgarastyrjöldinni á Spáni. Hann var einnig lykilmaður í einkennisbúinni liðsveit KFÍ, varnarliði verkalýðsins.[29]
Eftirtaldir foringjar kommúnista störfuðu líka á Rauða planinu: Kristinn E. Andrésson, síðar framkvæmdastjóri bókmenntafélagsins Máls og Menningar, ritstjóri tímarits félagsins til þrjátíu ára sem og Þjóðviljans og aðalstofnandi MÍR, Menningartengsla Íslands og Ráðstjórnarríkjanna; Eyjólfur Árnason, fyrirmyndarnemi í Vesturháskólanum í Moskvu; Karl Nikulásson, róttækur skólapiltur og félagi Hallgríms og Gunnar Jóhannsson, einn aðalleiðtogi kommúnista á Siglufirði en hann var verkstjóri á Rauða planinu og varð síðar alþingismaður Sósíalistaflokksins.[30] Auk þeirra störfuðu Brynjólfur Bjarnason, formaður KFÍ og Sverrir Kristjánsson, síðar sagnfræðingur, fyrir Síldareinkasöluna á Siglufirði, Brynjólfur við efnarannsóknir og Sverrir á skrifstofu einkasölunnar.[31] Sjálfur framkvæmdastjórinn, Einar Olgeirsson, dvaldi á Siglufirði sumarið 1930 og sinnti þar bæði rekstri síldarplansins og rekstri Síldareinkasölunnar almennt.
Ekki er ólíklegt að síldarstúlkurnar á Rauða planinu hafi flestar eða allar haft sömu pólitísku skoðanir og karlarnir sem þar störfuðu. Ein vísbendingin um afstöðu þeirra er sú að þær höfðu forgöngu um að krefjast launahækkana fyrir störf stéttarsystra sinna almennt í kjölfar nýrra taxta Verkakvennafélagsins Óskar, en þeir höfðu mætt mikilli andstöðu annarra atvinnurekenda en einkasölunnar. „Eins og gefur að skilja, vilja vinnukaupendur greiða það minsta sem þeir komast fram með, fyrir alla vinnu okkar, þeir vilja arðræna okkur eins og þeim er mögulegt“ ritaði ónafngreind síldarstúlka í Mjölni þetta sumar.[32] Einar var stúlkunum hliðhollur og samþykkti nýju kauptaxtana fyrir hönd Síldareinkasölunnar, og leiddi það til þess að aðrir saltendur urðu að hækka sína taxta.[33] Mikil rimma varð um þetta mál. Sjálfstæðismenn héldu því fram að launahækkun síldarstúlknanna yrði dregin frá hlut sjómanna og þannig væru verkamannastéttirnar farnar að berjast innbyrðis.[34] Slíkum fullyrðingum var svarað fullum hálsi í Mjölni þar sem útskýrt var að aðeins saltendur og útgerðarmenn myndu tapa á kauphækkun síldarstúlkna. „Gróði þeirra á „akkorðinu“ minnkar, sá arður sem þeir hafa rænt frá verkafólki, verður ekki alveg eins mikill og áður. Er það vel farið.“[35] Þessi deila varpar góðu ljósi á andstæð sjónarmið milli vinstri- og hægrimanna á kreppuárunum.
Starfsmenn Rauða plansins sigla til Krossaness
Á sunnudagskvöldi miðsumars 1930 bárust tíðindi á skrifstofu Síldareinkasölunnar á Siglufirði. Einar Olgeirsson sem sat þar á fundi ásamt nokkrum félögum sínum fékk símtal frá Akureyri. Jafnaðarmaðurinn Erlingur Friðjónsson formaður Verklýðssambands Norðurlands, tjáði honum að þörf væri á aðstoð inn á Akureyri. Launadeilur vegna kauptaxta íslenskra og norska verkamanna við síldarverksmiðjuna Ægi í Krossanesi urðu milli verksmiðjustjórans Andreas Holdö og Verklýðsfélags Glerárþorps, sem þá hafði nýlega verið stofnsett og hafði litla reynslu af hvers konar deilum, svo hvorki gekk né rak í viðræðunum. Nú var hafið verkfall og að sögn verkfallsmanna hafði verksmiðjustjórnin ekki staðið við gefin loforð um kaup og kjör.[36]
Einar tilkynnti félögum sínum á Siglufirði um stöðu mála – mannafla vantaði til að stöðva vinnu verkfallsbrjóta og aðstoða Akureyringa við að knýja fram samninga. Hringt var eftir lystibát í eigu Síldareinkasölunnar og siglt inn Eyjafjörð til Akureyrar. Allstór hópur manna gekk til liðs við Einar áður en haldið var frá Siglufirði og var stór hluti hópsins úr starfsliði Rauða plansins. Auk Einars voru með í för Siglfirðingarnir Gunnar Jóhannsson, Þóroddur Guðmundsson og Hermann Einarsson og Aðalbjörn Pétursson sem allir voru róttækir vinstrimenn. Þeim til viðbótar slógust í hópinn Björgvin Þorsteinsson, Eggert H. Þorbjarnarson, Hallgrímur B. Hallgrímsson, Ásgeir Blöndal Magnússon, Eyjólfur Árnason, Karl Nikulásson, Jón Rafnsson, Sverrir Kristjánsson, Brynjólfur Bjarnason og norski verkfræðingurinn og erindreki Kominterns, Haavard Langseth.[37] Þess ber að geta að á þessum tíma starfaði Þóroddur Guðmundsson sem lögregluþjónn á Siglufirði, en fór að eigin sögn með félögum sínum til Krossaness til þess að „hafa auga með því, að farið [yrði] að öllu í anda lögreglusamþykktarinnar í þessari ferð.“[38] Mikill hugur var í mönnum er lagt var af stað frá bryggjunni á Siglufirði. Jón Rafnsson, einn þeirra sem var með í för lýsti ferðinni svona: „Það er mjög áliðið kvölds, þegar við leggjum af stað. – Og það var eins og blessuð skepnan skildi; lystisnekkja Síldareinkasölunnar fleytir bókstaflega kerlingar á sjónum af hraða, slík tilþrif hefur hún aldrei sýnt fyrr.“[39] Þegar hersingin frá Siglufirði kom á staðinn næsta dag var vinna hafin í verksmiðjunni en ekki leið á löngu þar til lýst var yfir verkfalli á ný.
Siglfirskir sjálfstæðismenn fóru ekki leynt með óánægju sína og hneykslun varðandi málið, en siglfirskir kommúnistar höfðu lýst yfir eindregnum stuðningi við verkfallsmenn. „Þetta Krossanesmál alt, frá upphafi þess til enda, er eitthvert hið mesta brjálæðisflan, sem foringjar kommúnista hafa stofnað til [...]“[40] Sjálfstæðismenn bentu á að tekjutap ríkissjóðs væri allmikið vegna verkfallsins, því engri síld var landað í Krossanesverksmiðjuna í rúman hálfan mánuð eins og fyrr sagði. Aðeins tvær síldarverksmiðjur á Norðurlandi höfðu tekið við síld meðan Krossanesverkfallið stóð yfir, síldarverksmiðja Danans Sören Goos og verksmiðja Þjóðverjans Carl Paul – báðar á Siglufirði.[41] Siglfirskir verkamenn hefðu hótað samúðarverkfalli ef ekki yrði gengið að samningum í Krossanesi. Slíkt hefði þá haft í för með sér gríðarlegt tekjutap fyrir sjávarútveginn þar sem hvergi hefði verið hægt að landa síld til bræðslu á Norðurlandi ef verksmiðjurnar á Siglufirði hefðu lagt niður starfsemi sína.
Sú ákvörðun Einars Olgeirssonar, að hafa með sér í Krossanes stóran hluta starfsliðs síns af Rauða planinu, féll í grýttan jarðveg. Eins og fyrr getur lýsti greinarhöfundur Siglfirðings viðhorfum sjálfstæðismanna í einföldu máli. „Þá er það fullkomlega ámælisvert að teknir eru fastráðnir verkamenn við söltun hjá Einkasölunni og sendir til höfuðs starfsbræðrum sínum; að listibátur sem keyptur er fyrir fje íslenskra sjómanna, er notaður til þess að spilla fyrir þeirra eigin atvinnu um leið og stofnað er til ófriðar í landinu [...]“[42] Einar var sjálfur meðvitaður um viðbrögð sjálfstæðismanna við þátttöku hans og annarra í verkfallinu. Í æviminningum sínum sagði hann frá því að atvinnurekendur hafi orðið „æfir“ vegna þáttöku sinnar í Krossanesverkfallinu.[43] Kommúnistar sáu verkfallið í öðru ljósi en sjálfstæðismenn, sem einblíndu á tap sjómanna sökum þess að ekki var hægt að landa síld í Krossanesi og verksmiðjurnar á Siglufirði höfðu lækkað síldarverðið töluvert. Einar Olgeirsson minntist Krossanessverkfallsins með stolti og rökstuddi ástæður þess og ávinning.
Í fyrsta lagi var barist um tilvist fámenns verkalýðsfélags [...] Víða var skotið saman fé verkfallsmönnum til styrktar [...] Þannig kom fram rík samheldni og samhjálp hjá verkalýðsstéttinni. Í þriðja lagi hafði vinstri armur Alþýðuflokksins, kommúnistarnir, þarna forystuna og sönnuðu, að þeir væru fyllilega færir um að stjórna erfiðu verkfalli og leiða það til farsælla lykta [...] Í fimmta lagi var verkfallið táknrænt fyrir þá alþjóðahyggju, sem einkenndi kommúnista, en í því sneru íslenskir og norskir verkamenn bökum saman.[44]
Enginn efi er á því að dvöl margra helstu frammámanna kommúnista í síldarbænum hafði mikil áhrif á störf og stefnu þeirra heimamanna sem aðhylltust rótttæka vinstristefnu. Gunnar Jóhannsson, verkstjóri á Rauða planinu, var einn þeirra Siglfirðinga sem starfaði náið með hinum ungu og róttæku utanbæjarmönnum, sem og Þóroddur Guðmundsson, síðar varaþingmaður Sósíalistaflokksins á Alþingi. Ekki er ólíklegt að stærð Siglufjarðardeildar KFÍ, sem stofnuð var nokkrum mánuðum síðar, megi rekja til þeirra áhrifa er Einar Olgeirsson og samstarfsmenn hans á Rauða planinu höfðu á Siglufirði.
Endalok Síldareinkasölunnar – og Rauða plansins
Ljóst er að rekstur síldarplansins gekk ekki sem skyldi, ekki frekar en rekstur sjálfrar Síldareinkasölunnar. Hún var tekin til gjaldþrotaskipta síðla árs 1931 og lauk þar með rekstri Rauða plansins og síldarframleiðslu þar undir stjórn Einars Olgeirssonar. Áhugavert er að skoða þá gagnrýni sem beindist að Rauða planinu eftir að það sigldi í strand. Þrátt fyrir að Einar Olgeirsson hafi verið einn farsælasti og vinsælasti forystumaður jafnaðarmanna og kommúnista á þessum tímum og síðar, var hann ekki yfir gagnrýni hafinn. Í stöðu sinni sem forstjóri Síldareinkasölunnar reyndist Einari erfitt að tryggja hagsmuni bæði útgerðarmanna og verkafólks. Í íslenskum tímaritum og pólitískum málgögnum mátti víða finna greinar er gagnrýndu störf Einars, og voru það helst jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn er létu þar gamminn geysa. Í Alþýðumanninum árið 1931 sagði að Gunnar Jóhannsson hefði verið ráðinn í stöðu verkstjóra á Rauða planinu,vegna þess að hann hefði verið líklegastur til að framfylgja fimm ára áætlun Stalíns. Með slíkum yfirlýsingum var gefið í skyn að atvinnurekstur einkasölunnar á Siglufirði hefði átt að fara fram með sama skipulagi og atvinnurekstur Stalíns í Sovétríkjunum.
En 5 ára planið hjá Einari var það, að Rauða planið á Siglufirði sýndi það í virkileikanum að atvinnurekstur burgeisanna væri það úrelta, rotna og háskalega ástand sem sjómennirnir hefðu alla sína bölvun af, en stjórn kommúnistanna sannaði öllum landslýð hin blessunarríku áhrif og framkvæmd kommúnismans á voru landi. Fór því verkun síldarinnar fram á rauða planinu með öllum þeim fyrirmyndum, sem kommúnistar hafa hér yfir að ráða, og gjörvöllu skipulagi á vinnubrögðum þeirra. En fyrsta ár 5 ára plansins hjá Einari fór nokkuð á annan veg en hjá Stalín [...] Sjómennirnir, sem áttu að græða stórfé á 5 ára planinu hans Einars á síldarverkuninni, urðu að sætta sig við að borga níu þúsund krónum meira fyrir verkun síldarinnar á rauða planinu hjá kommúnistunum og Einari, en á jafn mikilli söltun á öðrum söltunarstöðvum, hjá hinum svívirðilegu atvinnurekendum sem alt af eru að flá verkalýðinn, og sem kommúnistarnir finna svo átakanlega mikið til út af [...] Svo virðist sem Stalín muni þurfa að kenna Einari betur áður en hann tekur við allri stjórn á hólmanum okkar.[45]
Um mitt sumar 1931 birtist grein í Íslendingi, málgagni sjálfstæðismanna á Akureyri, með harðri gagnrýni á störf Einars á Siglufirði. Halli á rekstri plansins varð pólitískum andstæðingum kommúnista mikið umfjöllunarefni.
Byltingarstefnan, sem [Einar] berst fyrir, mun seint festa rætur í íslenzkum jarðveg. Og sú reynsla, sem hér hefur fengist af stjórnsemi kommúnista, er allt annað en hvetjandi til þess að þeim séu fengin hér forráð í hendur. Er gott dæmi þess söltunarreksturinn sem þeir ráku á rauða planinu á Siglufirði í fyrra sumar, sem þrátt fyrir betri aðstöðu en nokkuð annað söltunarfélag eða einstaklingar höfðu, kom út með um 10 þús. kr. reksturshalla, þegar önnur söltunarfélög græddu á söltuninni. Einar Olgeirsson var lífið og sálin í þessu rauða söltunarfélagi.[46]
Samkvæmt fréttum í dagblöðum frá þessum tíma virðist hafa orðið um ellefu þúsund króna halli á rekstri síldarplans einkasölunnar. Aðferðir Einars og félaga á Rauða planinu við að salta síld á ódýrari hátt en aðrir hafa því ekki borið tilætlaðan árangur. Verð fyrir saltaðar tunnur var með betra móti árið 1930, eða 18,98 NOK fyrir hverja tunnu. Ári síðar, 1931 hallaði verulega undan fæti, að öllum líkindum vegna offramleiðslu fyrri ára, og fengust þá ekki nema 8,77 NOK fyrir tunnuna. Enn dróst saman árið 1932 þegar síldartunnan var seld á 5,64 NOK.[47]
Mikið var fjallað um slæma fjárhagsstöðu Síldareinkasölunnar af hálfu andstæðinga hennar, eins og fyrr hefur komið fram, ekki síður en neikvæðar rekstrartölur Rauða plansins. Áætlanir einkasölunnar um stöðugleika í framleiðslu og sölu á síldarafurðum báru ekki tilætlaðan árangur, frekar en áætlanir Einars Olgeirssonar um Rauða planið. Mikil óánægja varð meðal síldarútvegsmanna vegna strangra flokkunarreglna einkasölunnar sem gerðu alla vinnu mjög seinlega, og suma síld verðlausa. Einnig var mikið kvartað undan tunnuskorti og saltskorti á söltunstöðvum. Þetta minnir vissulega allt á búskapinn í Austantjaldsríkunum og er vísbending um hvernig honum hefði reitt af á Sovét-Íslandi. Árið 1929 höfðu saltendur ekki fengið greitt andvirði tunna sinna frá einkasölunni og jók það verulega á óánægjuna. Sumarið 1930 samþykkti Einar Olgeirsson fyrir hönd Síldareinkasölunnar kauphækkun síldarkvenna, og þótti útvegsmönnum þá nóg komið.[48] Síldareinkasölu Íslands tókst ekki að koma á jafnvægi milli framleiðslu og sölu síldarafurða, heldur safnaði hún skuldum vegna offramleiðslu og óseldra birgða, og því fór sem fór.
Flest dagblöð og pólitísk málgögn í landinu fjölluðu um örlög hinnar stóru einkasölu sem stjórnaði veiðum og framleiðslu og útflutningi á hinni dýrmætu afurð í nær fjögur ár. Mörg ólík sjónarmið komu fram um orsakir gjaldþrotsins. Nafn Einars Olgeirssonar bar oft og iðulega á góma sem helsta blórabögguls, en aðrir skelltu skuldinni á sænska síldarkaupmenn og umboðsmenn þeirra á Íslandi, enn aðrir kenndu um óstöðugleika í stjórnmálum. Að öllum líkindum var það einkum offramleiðsla ársins 1931 sem felldi Síldareinkasöluna, einnig kreppan mikla sem skollið hafði á skömmu áður og gríðarlegt verðhrun á síld árin 1931 og 1932. Síld var söltuð í stórum stíl, langt umfram það magn sem sölusamningar kváðu á um. Auk þess stóðst stór hluti útfluttu síldarinnar ekki gæðakröfur. „Á markaðinn kom gölluð síld í gisnum tunnum og verulegur hluti hennar seldist fyrir mjög lágt verð og sumt alls ekki.“[49] Ljóst er að Síldareinkasalan hafði ekki nægilegar takmarkanir á síldveiðinni. Síldveiðibátar komu drekkhlaðnir að landi dag eftir dag, þrátt fyrir að búið væri að salta upp í alla gerða samninga. Áfram stóðu síldarstúlkurnar við bjóðin og verkamenn stóðu vaktirnar í verksmiðjunum í þeirri von að umframaflinn yrði seldur til erlendra kaupenda.
Uppgjör
Opinbert markmið Einars Olgeirssonar með rekstri Rauða plansins var að sýna fram á að hægt væri að reka söltunarstöð og verka síld á hagkvæmari hátt en áður. Sjómenn, verkamenn og síldarstúlkur áttu að bera hærri hlut frá borði en hjá einkaframtakinu. Var það frá sjónarmiði Einars Olgeirssonar liður í því að sýna fram á að atvinnurekstur í höndum kommúnista leiddi til jafnaðar og bættra kjara fyrir verkalýð. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að Einar hafi reynt að frýja sjálfan sig gagnrýni fyrir að hafa tekið við forstjórastöðu einkasölunnar, bitlingi úr höndum Jónasar frá Hriflu, með því að gera sem mest úr hinni pólitísku hlið á rekstri Rauða plansins. Þannig gat hann sýnt flokksbræðrum sínum og yfirboðurum í Komintern að hann nýtti stöðu sína, sem forstjóri einkasölunnar, hreyfingunni til framdráttar. Líftími söltunarstöðvarinnar var stuttur, en starfsemi hennar leið undir lok um leið og Síldareinkasala ríkisins var tekin til gjaldþrotaskipta árið 1931. Hugmyndir og markmið Einars Olgeirssonar, sem var í forsvari fyrir rekstur plansins, voru háleit en ávinningurinn varð lítill. Síldarstúlkur fengu reyndar kjör sín bætt, en Rauða planinu tókst ekki að verða það vel heppnaða fordæmi, sem það átti í upphafi að verða. Menn voru stórhuga og með byltingarkennd áform á þessu litla síldarplani á Siglufirði. Mikilfenglegar hugmyndir Einars um að ná mikilvægum hluta atvinnulífsins úr höndum „auðvaldsins“ og taka þannig skref í átt til sósíalísks sameignarbúskapar á Sovét-Íslandi runnu út í sandinn.
---
[1] Íslenskur söguatlas. Saga samtíðar – 20. öldin. III. bindi. Ritstj. Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson, Rvk. 1993, bls. 41.
[2] Íslenskur söguatlas. Saga samtíðar – 20. öldin. III. bindi, bls. 40.
[3] Hagstofa Íslands, mannfjöldaskýrsla á vef. Íslenskur söguatlas. Saga samtíðar – 20. öldin. III. bindi, bls. 50-51.
[4] Guðni Th. Jóhannesson: Söguleg endalok Síldareinkasölunnar, hdr. í eigu höfundar.
[5] Helgi Skúli Kjartansson: Ísland á 20. öld, Rvk. 2002, bls. 89.
[6] Stjórnartíðindi, 1928 A, bls. 8-9.
[7] „Einkasalan“, Siglfirðingur, 19. sept. 1931.
[8] „Einkasalan“, Siglfirðingur, 1. mars 1930.
[9] Benedikt Sigurðsson: Söltunarstöðvar á Siglufirði, hdr. í eigu Síldarminjasafns Íslands.[10]Benedikt Sigurðsson, Birgir Sigurðsson, Guðni Th. Jóhannesson ofl.: Silfur hafsins. Gull íslands. Síldarsaga Íslendinga, III. bindi, Rvk. 2007 bls. 14.
[11] „Rauða-planið“, Alþýðumaðurinn. 1. sept. 1931.
[12] Sólveig Kristín Einarsdóttir: Hugsjónaeldur. Minningar um Einar Olgeirsson, Rvk. 2005, bls. 277.
[13] Jón Ólafsson: Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920 – 1960. Rvk. 1999, bls. 38.
[14] Brynjólfur Bjarnason: Pólitísk ævisaga. Viðtöl Einars Ólafssonar ásamt inngangi, Rvk. 1989, bls. 86
[15] Guðjón Friðriksson: Dómsmálaráðherrann. Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Rvk, 1992. bls. 81-82.
[16] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, Jón Guðnason skráði, Rvk. 1983, bls. 142.
[17] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 143.
[18] „Kommúnisminn“, Mjölnir, 14. maí. 1930. [19] Hreinn Ragnarsson, viðtal 3. nóv. 2011.[20] Karl Marx og Friedrich Engels: Kommúnistaávarpið, Sverrir Kristjánsson þýddi, Rvk. 1949, bls. 187.
[21] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 145-146.
[22] „Atvinnurekstur kommúnista“, Alþýðumaðurinn, 6. júní 1931.
[23] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 144-145.
[24] Benedikt Sigurðsson, Birgir Sigurðsson, Guðni Th. Jóhannesson ofl. Silfur hafsins. Gull íslands. Síldarsaga Íslendinga, II. bindi, Rvk. 2007, bls. 306-307.
[25] Hinrik Aðalsteinsson, viðtal við Örlyg Kristfinnsson, 9. des. 2005.
[26] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 144.
[27] „Grímunni kastað!“, Siglfirðingur, 20. sept. 1930.
[28] Þór Whitehead: Sovét-Ísland óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð. 1921 – 1946, Rvk. 2010, bls. 86.
[29] Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934, Rvk. 1979, bls. 47-48.
[30] Ólafur Grímur Björnsson: „Krossanesverkfallið 1930.“ Tímaritið Súlur. XXX árg. 43. hefti (2004). Benedikt Sigurðsson: Brauðstrit og barátta. Úr sögu byggðar og verkalýðshreyfingar á Siglufirði, I. bindi, Kópavogur, 1989, bls. 222.
[31] Brynjólfur Bjarnason: Pólitísk ævisaga. Viðtöl Einars Ólafssonar ásamt inngangi, Rvk. 1989, bls. 86. Ólafur Grímur Björnsson: „Krossanesverkfallið 1930.“
[32] „Kjör síldarstúlkna“, Mjölnir, 30. júlí 1930.
[33] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 144.
[34] „Kauphækkunarkrafa síldarstúlkna. Aurastríð milli verkakvenna og sjómanna.“, Siglfirðingur, 2. ágúst 1930.
[35] „Sjómenn!“, Mjölnir, 30. júlí 1930.
[36] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 147-149. Ólafur Grímur Björnsson: „Krossanesverkfallið 1930.“
[37] Jón Rafnsson: Vor í verum, bls. 81. Ólafur Grímur Björnsson: „Krossanesverkfallið 1930.“ Benedikt Sigurðsson: Brauðstrit og barátta, I. bindi, bls. 224.
[38] Jón Rafnsson: Vor í verum, bls. 82. Ólafur Grímur Björnsson: „Krossanesverkfallið 1930.“
[39] Jón Rafnsson: Vor í verum, bls. 82.
[40] „Krossanesdeilunni lokið“, Siglfirðingur, 26. júlí 1930.
[41] Ólafur Grímur Björnsson: „Krossanesverkfallið 1930.“
[42] „Krossanes-hneykslið. Hvað er að gerast?“, Siglfirðingur, 19. júlí 1930.
[43] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 144.
[44] Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar, bls. 153.
[45] „Atvinnurekstur kommúnista“, Alþýðumaðurinn, 6. júní 1931.
[46] „Kosningin“, Íslendingur, 12. júní 1931.
[47] Hovland, Kari Shetelig: Norske Islandsfiskere på havet. Oslo, 198, bls. 256.
[48] Guðni Th. Jóhannesson: Söguleg endalok Síldareinkasölunnar, hdr. í eigu höfundar.
[49] Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga. III. bindi. bls. 17.