Saga skipasmíða á Siglufirði í stuttu máli
Yfirlit yfir sögu skipasmíða á Siglufirði á 19. og 20. öld
(Erindi flutt í Slippnum 29. mars 2012)
Sennilegast voru bátasmíðar stundaðar í hinni miklu verstöð á Siglunesi um aldir; opin skip sem róið var og siglt til bolfisk- og hákarlaveiða. Teinæringar, áttæringar, sexæringar, fjögurramannaför og tveggjamannaför. Skipin voru einnig notuð til flutninga milli staða.
Ný gerð fiskiskipa, þilskipin, ollu straumhvörfum í siglingum og veiðum landsmanna á 19. öld. Þau voru flest tveggja mastra skonnortur, með þilfari, fiskilest og lúkar frammí. Þau voru eingöngu seglskip allt fram um 1910 þegar í mörg þeirra voru settar hjálparvélar.
Fyrsta norðlenska þilskipið smíðaði Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni í Eyjafirði, árið 1851.
Æskan SI
Friðrik Jónsson á Siglunesi nam stórskipasmíði í Danmörku, og smíðaði hann fyrstu siglfirsku þilskipin. Siglnesing, smíðaði hann á Siglunesi 1856 og Siglfirðing árið 1857.
Jóhann Jónsson í Höfn, bróðir og lærlingur Friðriks, var mikilvirkasti skipasmiðurinn á Siglufirði á 19. öld en hann smíðaði Lata-Brún árið 1857, Dala-Úlf árið 1858, Draupni 1869 og Hreggvið 1872. Jóhann kom auk þess að smíði margra annarra skipa.
Margir aðrir Siglfirðingar komu við sögu skipasmíða á 19. öld. Þessar skipasmíðar á Siglufirði munu hafa farið fram í fjörunni þar sem Slippurinn er nú. Þar voru gömlu hákarlaskipin dregin upp í fjöru á handspili fram undir 1930 þar sem dyttað var að þeim ár hvert.
Dráttarbraut Siglufjarðar varð til um og eftir 1930, en vélknúin dráttarbraut mun hafa verið keypt frá Akureyri um svipað leyti. Verkstæðishúsið hér er frá 1934 og er sennilega elsta og jafnvel eina smábátasmíðastöð landsins sem enn er til.
Fyrirtækið, Skipasmíðastöð Siglufjarðar, tók til starfa 1944. Nöfn Agnars Samúelssonar og Haraldar Gunnlaugssonar eru þekkt í þeim rekstri. (Agnar var bróðir Páls Samúelssonar í Toyota)
Tveir bátar í smíðum og dyttað að enn fleirum
Á árunum 1944-47 stóð ríkisstjórn Íslands fyrir endurnýjun íslenska bátaflotans í samvinnu við innlendar og erlendar skipasmíðastöðvar. Á Siglufirði voru þá smíðaðir tveir Nýsköpunarbátar eða Ákabátar eins og þeir voru nefndir eftir ríkisstjórninni og Áka Jakobssyni ráðherra og þingmanni Siglfirðinga. Fjölmargir nótabátar munu hafa verið smíðaðir í Slippnum fram yfir 1955.
Gunnar Jónsson skipasmíðameistari frá Akureyri starfaði í Slippnum fyrstu árin.
Haraldur Gunnlaugsson skipasmiður stýrði bátasmíði hér frá 1936 til 1950. Hann var yfirsmiður Ákabátanna.
Siglufjarðarkaupstaður stóð fyrir endurnýjun Dráttarbrautarinnar árið 1950 og gátu þá þrjú 150-200 brl. skip fengið þjónustu hér samtímis. Nöfn starfsmanna á þessum árum voru m.a. Gunnar Jónsson, Sigurður Björnsson skipasmiður, Leó Jónsson og Jón Gunnlaugsson.
Auglýsing frá Berg hf.
Byggingarfélagið Berg hf. var stofnað af Birgi Guðlaugssyni og Þórarni Vilbergssyni árið 1962. Berg yfirtók Dráttarbraut Siglufjarðar með leigusamningi við Siglufjarðarkaupstað árið 1969. Sveitarfélagið leysti fasteignina til sín á síðasta ári, 2011.
Á Bergtímanum var mikil starfsemi í Slippnum við þjónustu við norðlenska bátaflotann. Iðulega voru um 50 bátar teknir upp í Slippinn árlega til viðgerða og viðhalds eða allt fram undir 1990. Einnig fór þar fram smíði á trillum og minni dekkbátum. Meðal bátasmiða þar auk Birgis og Þórarins voru Jón Björnsson og Vilhelm Friðriksson.
Annríki í Slippnum skömmu fyrir 1990
Starfsmenn Slippsins um 1980: Björn Jónsson, Birgir Guðlaugsson, Jón Björnsson, Vilhelm Friðriksson, Hallgrímur Vilhelmsson, Ásgrímur Pétursson, Björn Sveinsson, Skúli Jónsson.
Auk þeirrar starfsemi sem farið hefur fram í Slippnum allt frá árinu 1934, er ástæða til að nefna annað siglfirskt fyrirtæki í þessu samhengi: JE-Vélaverkstæði og Siglufjarðar-Seig. En segja má að þar hafi sagan að nokkru leyti endurtekið sig er hafin var smíði á plastbátum. Samhengi hlutanna er það sama og áður, þó svo að efniviður og verkfæri séu af öðru og nútímalegra tagi.
Nú, um tuttugu árum eftir að starfsemi hér lauk hlýtur Slippurinn endurnýjun lífdaga undir handleiðslu Síldarminjasafnsins. En hér geta bátasmiðir og áhugamenn um bátasmíði fengið aðstöðu til að endurgera gamla báta, eða jafnvel smíða nýja.
- AE & ÖK