Síldarævintýrið mikla á sjöunda áratugnum. Dæmisaga um íslenskar öfgar?

Erindi Guðna Th. Jóhannessonar - flutt á Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins 23. júní 2012. Sjá nánar hér.

Síldarævintýrið mikla á sjöunda áratugnum. Dæmisaga um íslenskar öfgar?[1]

„Siglufjörður hefur verið „dauður bær“ það sem af er þessu sumri.“ Þetta sagði Óskar Halldórsson, sá mikli síldarspekúlant, í ágúst 1950. Eftir uppgrip fram yfir stríðsárin hafði syrt í álinn. Síldin var horfin eða því sem næst og auðvitað bitnaði það einna verst á Siglfirðingum, búandi í síldarbænum mikla. Ráðamenn bæjarins líktu áhrifum brestsins við örlög þeirra byggðarlaga „sem verst hafa orðið úti af völdum langvarandi harðinda, eldgosa, ísa og annarra vágesta.“

Hjá valdhöfum fyrir sunnan vantaði þó stundum eitthvað á samúðinasem hefði þó átt að vera sjálfsögð. „Það á að berja þessa andskotans Siglfirðinga með hnútasvipum þangað til þeir eru búnir að borga vanskilaskuldir sínar,“ mun ráðuneytisstjóri nokkur hafa sagt árið 1958. Þá stóðu veiðileysisárin – harðindin – enn og lítil von í sjónmáli. Siglfirðingar höfðu margir brugðið á það ráð að leita vinna hjá kananum suður á Keflavíkurflugvelli, en myndi síldin aldrei sýna sig á ný?

Sumarið 1959 gátu menn loksins fagnað alvöru sumarvertíð, í raun í fyrsta sinn frá árinu 1944. Þarna réð miklu að asdikkið og kraftblökkin voru komin í veiðiskipin. Án þessara tækninýjunga hefði ekki orðið neitt síldarævintýri. Aðrar forsendur sköpuðust sömuleiðis næstu ár. Á sjötta áratugnum höfðu Perúmenn byrjað að bræða í stórum stíl ansjósu, þá mögru smásíldartegund, og seldu mjöl á lágu verði á heimsmarkaðnum. Þetta þýddi að við Íslendingar gátum ekki vænst eins hagstæðra kjara og oft áður. Árið 1961 ákváðu fiskimjölsframleiðendur í Perú hins vegar að stofna með sér samtök og leita hærra verðs en áður; þetta kom okkur um leið til góða.

Nú þurfti bara að biðja um landburð af síld ár eftir ár. Og prestó; síldarævintýrið mikla var að hefjast. Sumarið 1961 aflaðist mikið af Norðurlandssíld, eða norsk-íslensku síldinni, en sá var þó munurinn frá fyrri tíð að menn sóttu hana djúpt norðaustur, austur og suðaustur af landinu. Mestur aflinn fór í bræðslu; í nýjum eða nýlegum verksmiðjum á Austfjörðum þótt flutningaskip flyttu að vísu hluta aflans hingað á Siglufjörð og í aðrar verksmiðjur norðanlands.

Síðan rak hvert metárið annað; árið 1964 sló bræðslusíldaraflinn öll fyrri met. Þarna var komin hin fullkomna bræðslusíldarvertíð. Aflinn var meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona, vertíðin lengri, meira lýsi og mjöl fékkst úr hverju máli en áætlað hafði verið og verð hækkaði á báðum þessum afurðum. Og ekki sveik síldin næstu tvö ár. Árin 1965 og 1966 fór bræðslusíldaraflinn langt yfir þrjár milljónir mála hvort ár. Þessi tvö ár var brætt meira af síld í landinu en samanlagt frá stríðslokum til 1960. Síldveiðar snerust nú orðið um bræðslu framar öllu öðru og efnahagur landsins byggðist á bræðslu, eða eins og Stefán Jónsson fréttamaður skrifaði árið 1966 í einni af sínum skemmtilegu mannlífsbókum: „Á síðustu tíu árum hefur aukning þjóðartekna okkar komið öll frá bræðslusíldinni. Þann áratuginn hefur nýyrðið „hagvöxtur“ þar af leiðandi þýtt aukin síldveiði í gúanó.“

Gjaldeyristekjur landsins jukust auðvitað ósköpin öll. Þessi tvö mestu síldveiðiár Íslandssögunnar, 1965 og 1966, námu síld og síldarafurðir yfir 40% af útflutningstekjum landsins; og einhver reiknaði víst út að 4% landsmanna hefðu unnið við að afla þeirra. Sjómenn á síld höfðu það auðvitað fínt, þeir sem voru á aflahæstu skipunum urðu vellríkir og gátu keypt sér einbýlishús, og námsmenn gátu haldið sér uppi yfir vetrartímann með vinnu í verksmiðju á sumrin, enda var barist um öll pláss í bræðslunum.

Árið 1966 var síldin sótt lengra en áður, jafnvel upp undir Jan Mayen. Þaðan var um það bil jafnlangt til Siglufjarðar og Seyðisfjarðar og færi svo sem horfði að stór hluti bræðslusíldaraflans fengist langt í burtu og kæmi á land með flutningaskipum myndi gamli síldarbærinn væntanlega fá uppreisn æru.

Enn var þó hagkvæmast að vera sem næst miðunum. Sumarið 1966 lá peningalyktin dag og nótt yfir Raufarhöfn sem óx líklega upp í yfir þúsund manna byggð þegar vertíðin stóð sem hæst, og þrefalt það þegar landlegur komu. Þá var líf og fjör á Raufarhöfn. Í júní 1966 héldu Hljómar dansleiki í samkomuhúsi staðarins sjö kvöld í röð. Alltaf var fullt út úr dyrum og líklega álitamál hvorir höfðu meira að gera um þær mundir, starfsmenn í bræðslunni eða sprúttsalar.

Þetta var síldarævintýrið mikla. En öllum ævintýrum lýkur, og ekki endilega með farsælum endi. „Erum við á réttri leið?“ Þannig spurði hinn víðkunni togaraskipstjóri Auðunn Auðunsson síðla árs 1966 þegar veiðiskipin voru lengst úti í ballarhafi að leita síldar. Gott og vel; aflabrögðin voru ennþá góð: „Jú, en hve lengi? Hvað er orðið um Suðvesturlandssíldina? Er hún ekki búin? Og hve lengi haldið þið að verði verið að drepa síldarstofninn fyrir austan landið með slíkri sókn sem þar á sér stað? ... Og hvar stöndum við þegar þetta dynur yfir?“

Árið 1967 veiddist síldin nær eingöngu langt á hafi úti og í fyrstu lá leið síldveiðiskipanna allt norður undir Svalbarða, um 800 - 900 sjómílur frá Íslandi. Þetta ár voru flutningaskipin því algerlega ómissandi, Síldin og Haförninn sem menn muna kannski eftir. Mest fór á Austurlandshafnir en umtalsverður hluti einnig hingað. Veiðarnar urðu sífellt kostnaðarsamari og til að bæta gráu ofan á svart var verð á síldarlýsi og mjöli fariðað falla mjög á erlendum mörkuðum.

Og svo hvarf síldin. Árið 1968 hrundu veiðarnar; það litla sem aflaðist fékkst víðsfjarri landinu; norður undir Bjarnarey og Svalbarða, eða á Færeyja-, Hjaltlands- og Norðursjávarmiðum. Minna var brætt þetta ár en allar götur síðan á þriðja áratugnum. Og enn lækkaði markaðsverðið. Úti var ævintýri; fyrir utan einhverja smáslatta af úrgangssíld frá söltunarstöðvum, sem varla tekur að nefna, var engin síld brædd á Íslandi árið 1969.

Var þetta dæmisaga um öfgar? Fyrst verður að benda á hrunþætti sem Íslendingar réðu ekki við; sjávarhiti snarminnkaði frá árinu 1963, lífsskilyrði síldarinnar versnuðu því; og á heimaslóð stunduðu Norðmenn gegndarlausa ofveiði á smásíld.

Gott og vel, en samt er það svo margt sem hefðu mátt betur fara. Við hefðum getað lagt eitthvað fyrir, ekki satt? Þegar ævintýrið stóð sem hæst vildu aðrir í þjóðfélaginu líka njóta góðærisins. Laun hækkuðu, verðbólga jókst. Og engin leið var að ná samstöðu um að leggja til hliðar hluta hins skjótfengna gróða, kannski svipað og Norðmenn hafa gert með olíuauð sinn. Sjómönnunum sjálfum datt það tæpast í hug og þegar síldin brast að lokum lentu margir í vandræðum, ekki síst vegna þess að tekjuskattur var greiddur eftir á þessi ár. „Ég fór á hausinn [1967],“ sagði einn þeirra, „og enn meira á hausinn árið eftir. Auðvitað hafði ég ekki lagt neitt fyrir í skattana. Ég þekkti ekki nema einn síldarsjómann sem lagði fyrir til að eiga fyrir sköttum ef svo færi að síldin brygðist. –  Það var leiðinlegasti maður á Íslandi.“

Vöruvöndun var líka svona og svona þegar hamast var við að bræða sem mest á sem stystum tíma. Eitt sinn var haft eftir stórum mjölkaupanda að það líktist helst rússneskri rúllettu að kaupa farma frá Íslandi því annað hvort fengist úrvalsvara eða mjög slök framleiðsla.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Þegar leikurinn stóð sem hæst hefði verið mjög erfitt, nánast ómögulegt, að ná samkomulagi um að takmarka veiðarnar. Lengst af töldu flestir vísindamenn að síldarstofninn væri það sterkur að hann þyldi nær ótakmarkaða veiði. Sjómenn og útgerðarmenn hefðu barist af hörku gegn hvers kyns aflatakmörkunum. Verksmiðjueigendur og saltendur hefðu einnig mótmælt því að ekki yrði reynt að hagnýta síldina til fulls og ráðamenn hefðu verið sakaðir um sinnuleysi og slóðaskap.

En samt. Þegar litið er til baka má hiklaust segja að Íslendingar hafi ekki kunnað sér hóf í síldveiðum sínum á sjöunda áratug síðustu aldar. Þeirri skoðun til stuðnings nefni ég einnig dóm eins kollega í fræðunum, Jóns Þ. Þórs, sem í riti sínu um sögu sjávarútvegs á Íslandi kallar þau ár „eitthvert dapurlegasta –og skammarlegasta – tímabil íslenskrar fiskveiðisögu“. Fátt var fallegt við þetta ævintýri að mati Jóns; það bar öðru fremur vott „um græðgi og heimsku fólks í tæknivæddu en frumstæðu veiðimannasamfélagi; þjóðar sem kunni ekki fótum sínum forráð og gjöreyddi einni mikilvægustu auðlindsinni á fáeinum árum“.

En var það bara síldin sem laðaði fram þessa græðgi og heimsku íslensks samfélags? Ekki endilega. Á sama tíma og menn fóru fram úr sér í síldveiðum í bræðslu var stuðlað að offjárfestingu og offramleiðslu í landbúnaði. Á áttunda áratugnum áttu skuttogarar að leysa vanda hvers manns í öllum plássum; þá varð kappið og óforsjálnin líka til mikilla vandræða þegar til lengra tíma var litið. Og varla getur nokkur maður dregið í efa að bankaævintýrið mikla á fyrsta áratugi nýrrar aldar var feigðarflan. Þar eru einhver líkindi með síldarævintýrinu, í það minnsta dapur og snöggur endir en líka kappið, og kjörorðin „því meira því betra“. Þannig mælti einn aðdáandi hinna vaxandi banka haustið 2007: „Hugsið ykkur; bankakerfið hefur á milli sjö-og tífaldast á þessum fjórum til fimm árum, og hugsiði hvað það væri nú gaman ef við bara héldum áfram, og gæfum í!“

Kapp er best með forsjá. Það ætti að vera hinn augljósi lærdómur bankaævintýrisins og síldarævintýrisins þar á undan. Svo er það okkar að sýna í verki að við lærum eitthvað af reynslunni. Líklega gerðum við það nú með síldina; sumarið 1994 kom norsk-íslenska síldin aftur inn í íslenska lögsögu eftir áratuga fjarveru. Ári síðar voru veiðar úr stofninum umtalsverðar en farið var að öllu með meiri gát en áður. Um þaðsagði Hákon Magnússon, skipstjóri á aflaskipinu Húnaröst: „Við megum náttúrlega ekki haga okkur eins og villimenn. Það verður að semja um þetta [við önnur ríki] og það gengur ekki að senda stóran flota á miðin og moka þessum gæðafiski upp í bræðslu. Þá væri sagan að endurtaka sig og það væri slæmt fyrir ímynd okkar sem þjóðar.“

Nú um stundir má kannski spá því að makríllinn sé eða geti orðið hin nýja síld, ef svo má að orði komast. Einhvers konar makrílævintýri virðist að minnsta kosti í uppsiglingu. Fram til ársins 2006 veiddist hann aðeins sem meðafli en þá urðu tímamót, um 4.000 tonn komu á land, síðan hefur aflinn aukist ár frá ári, enda dvelur makríllinn, sem er skyldur síldinni, í stórum stíl í íslenskri lögsögu með hækkandi sjávarhita. Í fyrra var aflinn 159.000 tonn og gæti orðið enn meiri næstu ár, eða enn minni; það fer eftir samningum við ESB og Norðmenn, og því hvort sátt náist um skynsamlega nýtingu.

Lítum svo í lokin á ferðamenn, getum kallað þá hina nýju síld ykkar Siglfirðinga. Ég hef ekki tölur um aukningu þeirra hér í bæ og þykist viss um að hvergi nærri sé komið að þolmörkum hérna, þrátt fyrir þjóðlagahátíð, síldarævintýri um verslunarmannahelgi, pæjumót og annað sem laðar fólk í þennan unaðsreit á sumrin. Hér má svo sannarlega halda áfram að hugsa stórt, byggja og bæta.

Ég velti frekar vöngum yfir hinni almennu tilhneigingu, „því meira því betra“. Íslensk ferðamálayfirvöld hafa sett fram þá viðmiðun að fjöldi erlendra ferðamanna til landsins nái um einni milljón árið 2020. Í fyrra voru þeir rúm 565.000 og á mánudaginn var [18. júní] fengum við forsmekk af því sem framtíðin getur borið í skauti sér, þá komu allt að 20.000 ferðamenn til landsins með fjórum skemmtiferðaskipum og 40 farþegaþotum. Vertinn á Geysi þurfti víst að matreiða ofan í um tvö þúsund manns í hádeginu. „Þetta er of stór dagur fyrir Ísland,“ sagði einn ferðamálafrömuðurinn. Við getum rétt ímyndað okkur örtröðina við Geysi og annars staðar á „The Golden Circle“, og ekki aðeins við náttúruundrin heldur allt eins við salernin. Hvernig verður upplifun útlendinga af hinu „ósnortna Íslandi“, þegar þeim líður, já, eins og síld í tunnu?

Kapp er best með forsjá. Það sýndi síldarævintýrið á sjöunda áratugnum og reynum nú einu sinni að læra af sögunni.


[1] Erindið erað mestu byggt á kafla höfundar um síldarbræðslu í hinni miklu síldarsögu Íslands, Silfur hafsins. Gull Íslands. Einnig var stuðst við sjávarútvegssögu Jóns Þ. Þór og frásagnir í bók Birgis Sigurðssonar, Svartur sjór af síld.