Steinn Steinarr í síldinni

Fram yfir miðja 20. öld hafði Siglufjörður það orð á sér að vera eitt helsta hreiður byltingaraflanna í landinu. Hér réðust tíðum kaup og kjör í harðvítugum vinnudeilum verkalýðshreyfingarinnar. Staða vinstri manna var hér mjög sterk sem fólst meðal annars í þeirri þverstæðu að kommúnistar og kratar elduðu löngum grátt silfur saman!
Í litlu húsi við Túngötuna áttu hinir róttæku lengi skjólshús. Þar var heimili Sigríðar Sigurðardóttur og Sigurhjartar Bergssonar rafstöðvarstjóra. Sigríður var hinn stóri og umlykjandi karakter hússins og var kölluð Bolsamamma. Í húsi Bolsamömmu var fundað og þar dvöldu forkólfar kommúnista á yfirreið um landið. Þangað komu meðal annarra Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason síðar ráðherra. Þar var mikið talað og heimsmálin rökrædd og þar var oft glatt á hjalla.
Í manntali 2. desember 1930 er Sverrir Kristjánsson, ungur námsmaður, skráður leigjandi að Túngötu 34. Sverrir var mjög róttækur og varð síðar þjóðfrægur sagnfræðingur. (1)
Í húsi Bolsamömmu bjó annar ungur maður, jafnaldri Sverris, þá lítt þekktur en átti eftir að verða í miklum metum hjá þjóð sinni. Það var Steinn Steinarr skáld sem dvaldi þar sumarlangt 1933.

Því má skjóta hér inn að heimild fyrir þessari frásögn af Túngötu 34 er frásögn Huldu Sigurhjartardóttur og Vigfúsar Friðjónssonar í september 2006. (Þau sæmdarhjón eru nú, 2008, bæði látin).
Að þeirra sögn var Steinn ekki aðeins kominn í mannlífsskoðun í þessum suðupotti athafna og hugsjóna heldur gerði hann alvarlega tilraun til að vinna sér inn pening á síldarplani.
Fátækt og óþekkt skáldið með visinn handlegg í miðri heimskreppunni tók sér klippur í hönd og fór að kverka síld eins og hver önnur kerling!
Fyllti einn stamp og fór þá heim – eins og Hulda sagði.
Ekki vildi hann gefast upp og gerði nú tilraun til að keyra fullum tunnum frá síldarstúlkunum. Taka tunnu eins og það var kallað. Sjá má fyrir sér að hann hafi reyrt vinstri handlegginn með leðuról við arminn á tunnutrillunum og barist síðan við að ýta á undan sér 120 kg. hlassinu eftir ósléttri timburbryggjunni. Enn fór hann svekktur heim.

Þín visna hönd, sem vann þér ei til matar,
skal velta þungum steini úr annars braut

- orti Steinn á þessum árum og lýsir baráttuhug sínum í líkamlegri vesöld og veraldlegu mótlæti.

Önnur heimild er fyrir veru Steins Steinars á Siglufirði. Lúther heitinn Einarsson rafvirki sagði mér stoltur frá því að hann hefði farið í skemmtigöngu með Steini Steinarr í Kálfsdal í austanverðum Siglufirði. Með þeim í för var ung kona. Lúther sagðist þá hafa verið um skeið formaður í félagi ungra kommúnista á Siglufirði. (2)
Á þeim árum, á fyrri hluta 20. aldar, tíðkaðist það mjög meðal Siglfirðinga að fara í skemmtiferð yfir í Kambalága og Kálfsdal austan fjarðarins. Oft var farið sjóleiðis en einnig gangandi. Í Kambalágum er berjaland gott og fagurt útsýni yfir fjörðinn og út til síldarmiðanna. Í þröngum fjallasal Kálfsdals ríkir kyrrð og friður frá verksmiðjugný og mótorskellum síldarskipa.
Þann 19. ágúst þetta sumar birtist í akureyrska blaðinu Verkamanninum grein eftir Stein Steinar sem ber nafnið Hungursneyð “Einherja”. Þar húðskammar hann blaðið Einherja á Siglufirði fyrir frásagnir af meintri eymd sovéskrar alþýðu. Niðurlag greinarinnar er svona:

“Íslenskur verkalýður veit að fyrsta skilyrði fyrir valdatöku hans er að brjóta af sér hlekki kúgaranna, senda alla síldarspekúlanta, stórútgerðarmenn, svindlara og aðra arðræningja, senda þá í eitt skipti fyrir öll veg allrar veraldar, svo þeir geti aldrei framar stungið upp höfðinu til arðráns og kúgunar á íslenskum verkalýð” - Siglufirði, 11. ágúst 1933.
Steinn Steinarr.

Athyglisvert er að sjá að hið upprennandi þjóðskáld notar hin alkunnu slagorð stéttarbaráttunnar sem penni hans breytir kannski að einu leyti, en það er að í sjálfum síldarbænum er síldarspekúlantinn kominn í fremstu röð óvinanna. Einnig er baráttuhugur Steins athyglisverður í ljósi þess að innan árs frá því að hann skrifaði þessi orð var hann rekinn úr kommúnistaflokknum.

En víkjum nú að öðru og stærra máli. Þetta ár gerðist stóratburður úti í heimi sem átti eftir að hafa keðjuverkan alla leið norður á Siglufjörð.
Að kvöldi 27. febrúar varð þinghúsbruninn mikli í Berlín og voru Nasistar, sem nýkomnir voru til valda í Þýskalandi, taldir hafa átt þátt í að kveikja í ríkisþinghúsinu, til að geta skellt skuldinni á óvini sína. En það voru kommúnistar sem þeir töldu vera helstu óvini þriðja ríkisins og voru hundruð forkólfa þeirra fangelsuð og tekin af lífi að talið var. (3)
Þessir atburðir í Þýskalandi höfðu þau áhrif að kommúnistar víða um lönd skáru upp herör gegn þýsku nasistunum og í Danmörku til dæmis var fáni þeirra skorinn niður hvar sem hann sást.
Í lok júlí var nasistafáninn farinn að sjást blakta við bústað þýska konsúlsins á Akureyri og í Verkamanninum, blaði kommúnista þar í bæ, var brugðist við af mikilli heift og hvatt til þess að “þetta blóði drifna merki” “morðvargsins Hitlers” væri skorið niður. (4)

Víkur nú sögunni aftur til Siglufjarðar. Það er liðið á sumar og nú fer að draga til tíðinda í síldarborginni litlu.
Á miðjum morgni sunnudaginn 6. ágúst vekur það athygli að tveir fánar, hvor á sinni flaggstönginni, blakta við “þýska vicekonsúlatið” í Hafliðahúsi (áður nefnt Maðdömuhús, nú Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar). Það er þýski ríkisfáninn - og það sem undrun vekur: nasistafáninn blóðrauði með hakakrossinum svarta bylgjaðist þar einnig í golunni.
Vararæðismaðurinn, Sófús Blöndal, eins og allir þýskir ræðismenn vítt um jarðarkringluna, hafði fengið þau boð frá Adolf Hitler og ríkisstjórn hans að framvegis skyldu báðum þessum fánum flaggað fyrir Þýskaland. Sófus hafði látið reisa nýja flaggstöng við hús sitt daginn áður því von var á þýskum síldarkaupmönnum og hlýddi hann þannig tilskipuninni frá Berlín.
Og nú er mörgum vegfarendum brugðið við þessa óvæntu sýn á blíðum sumarmorgni, þeim er heitt í hamsi og stinga saman nefjum og undir hádegi þrammar hópur manna eftir Aðalgötunni og staðnæmist fyrir framan grindverkið umhverfis Hafliðahúsið. Þrír þeirra hrinda upp hliðinu og gera sér lítið fyrir og skera niður nasistafánann, rífa hann í tætlur og troða síðan niður í forarpolli.
Athæfi þeirra er strax tilkynnt bæjarfógeta og hann rannsakar málið með yfirheyrslum. (5)
Atburður þessi vakti mikla athygli um allt land og fjölmiðlar fjölluðu um málið með ólíkum hætti. Á meðan Verkalýðsblað kommúnistaflokksins hrósaði fánamönnum fyrir hreystiverkið skrifaði Morgunblaðið að það sé “ekki ný bóla að Siglufjörður sé um síldveiðitímann vettvangur þeirra manna, sem á lægsta menningarstigi standa í þjóðfélagi voru ….” Auðvelt væri að láta þessa tilvitnun í leiðara Moggans duga sem fordóma í garð Siglfirðinga almennt. En þar segir enn fremur:

“Er þetta ekki sagt til að niðra íbúa Siglufjarðar, enda væri slíkt órjettmætt. Þeir hafa mesta skapraunina af því haft, hvaða svip bæjarlífið fær þar oft og einatt, þegar flest er þar um aðkomumanninn.” (6)
Meira en ár leið þangað til bæjarfógetinn á Siglufirði kvað upp dóm í máli fimmmenninganna og hafði þá haft náið samstarf við dómsmálaráðherra landsins. Þeir voru dæmdir sem landráðamenn í tveggja til þriggja mánaða fangelsi hver - óskilorðsbundið.

Þeir sem dóm hlutu voru: Eyjólfur Árnason, ungur maður frá Ísafirði, Aðalbjörn Pétursson gullsmiður á Siglufirði. Þóroddur Guðmundsson, formaður Verkalýðssambands Norðurlands, síðar bæjarfulltrúi á Siglufirði og varaþingmaður, Gunnar Jóhannsson, síðar formaður verkalýðsfélagsins Þróttar á Siglufirði, bæjarfulltrúi og Alþingismaður. Sá fimmti var ungur maður, 24 ára sem lýst var svo í lögregluskýrslum: “Unglingspiltur, ljóshærður, í bláum vinnufötum”. Nafn hans var Aðalsteinn Kristmundsson – Steinn Steinarr. Og var hann einn hinna þriggja sem brutust inn í garðinn og skáru niður fánann.

Þessi frásögn af fánamálinu á Siglufirði 1933 er útdráttur og endursögn á kafla í ævisögu Steins Steinarr eftir Gylfa Gröndal, og heitir kaflinn Dæmdur fyrir landráð. (7)

Framhald málsins var það að því var vísað til Hæstaréttar sem í febrúar 1935 staðfesti fyrri dóm undirréttar í öllum megin atriðum. Dómnum var að vísu aldrei fullnægt. (8)

Ekki fer frekari sögum af Steini Steinarr á Siglufirði.

Sem eftirmála að þessari frásögn má varpa fram nokkrum spurningum:

Hví var svo hart tekið á þessu máli þegar flokksfáni átti í hlut (stjórnarfáni)? Voru þessi viðbrögð eðlileg og réttmæt? Hvaða hagsmunir voru í húfi fyrir íslensk stjórnvöld að láta dæma fimmmenningana svo hart?

Í fyrrgreindum leiðara Mbl er þessum spurningum svarað minnsta kosti að hluta:

“Til Siglufjarðar koma þýskir verslunarerindrekar, í þeim erindum að kynna sjer íslenska síldarverkun og framleiðslu.

Það er vitað, að afkoma síldarútgerðarinnar nú, sjómanna, verkamanna og útgerðarmanna, er mjög undir því komin, hvernig tekst með viðskiptin við Þjóðverja.”

Og fleiri spurningar vakna.

Og hefði ekki verið ástæða síðar meir að taka málið upp og endurskoða það í ljósi sögunnar?

Var nokkur ástæða til að á hinum mætustu mönnum hvíldi lífstíðardómur um landráð - dómur fyrir baráttu gegn mestu grimmdarseggjum og glæpamönnum sem mannkynssagan greinir frá.

Örlygur Kristfinnsson – haust 2008.


Heimildir

  1. Manntalið 1930, Þjóðskjalasafnið
  2. Óskráð viðtal við Lúther Einarsson  1972
  3. Aðdragandi styrjaldar, bókaflokkur, útg. Almenna bókafélagið,  bls. 93
  4. Verkamaðurinn 29. júlí 1933
  5. “Siglfirskir kommúnistar svívirða stjórnarfána Þjóðverja” - viðtal við Sóphus Blöndal, Morgunblaðið, 8. ágúst 1933
  6. Morgunblaðið, leiðari, 8. ágúst 1933
  7. Ævisaga Steins Steinarr, höf. Gylfi Gröndal, JPV forlag 2000, bls. 195-205
  8. Brauðstrit og barátta e. Benedikt Sigurðsson, fyrra bindi bls. 390).