Víðförult málverk
Talið er að Gunnlaugur Blöndal hafi málað myndina “Konur í síldarvinnu” á Siglufirði 1934-40. Á þeim árum vann Gunnlaugur fjölda verka á Siglufirði en þessi mynd er stærst og veglegust þeirra allra.
Fljótt eftir að Útvegsbanki Íslands hóf starfsemi sína í nýju og glæsilegu bankahúsi á Siglufirði 1947 mun verkið hafa verið keypt af listamanninum. Hafliði Helgason útibússtjóri var mjög kunnugur honum og hefur þekkt til verksins. Heimild er fyrir því að Ásgeir Ásgeirsson aðalbankastjóri og síðar forseti hafi samþykkt kaupin á myndinni.
Árið 1955 var myndin á málverkasýningu Gunnlaugs Blöndal í Barcelona á Spáni og vakti þar athygli. Enn var myndin á ferð þegar haldin var yfirlitssýning á verkum Gunnlaugs í Reykjavík 1961.
Eftir að Sigurður Hafliðason varð útibússtjóri Íslandsbanka á Siglufirði eftir 1990 var myndin send til Reykjavíkur í hreinsun og viðgerð og var ramminn jafnframt endurnýjaður. Þá stóð mjög tæpt að verkinu yrði skilað því forráðamenn bankans töldu að þetta glæsiverk ætti helst heima í höfðustöðvunum syðra. En Sigurði tókst að fá málverkið aftur norður og jafnframt viðurkenningu fyrir því að það ætti hvergi annars staðar heima en á Siglufirði.
Konur í síldarvinnu
Árið 2006 voru síldarstúlkurnar enn komnar á ferðalag þegar málverkið var lánað á yfirlitssýningu Gunnlaugs í Listasafni Íslands.
Þá hét eigandi verksins Glitnir hf. og þegar hann lauk starfsemi sinni á Siglufirði sumarið 2006 héldu margir að málverkið væri endanlega horfið sjónum Siglfirðinga. Þá hafði það verið til sýnis í afgreiðslusal Útvegsbankans, Íslandsbanka og Glitnis í yfir 60 ár.
Siglfirðingum þótti mikill sjónarsviptir af málverkinu og vegna fjölda áskorana skrifaði undirritaður, Bjarna Ármannssyni aðalbankastjóra, bréf þar sem óskað var eftir því að verkið kæmi aftur „heim“. Ekki var erindinu svarað formlega en vitað var af ákveðnum vilja stjórnenda Glitnis um að lána verkið norður um óákveðinn tíma. Ekkert varð hins vegar af því.
Það næsta sem fréttist af siglfirsku síldarstúlkunum var svo í ársbyrjun 2007 þegar Glitnir opnaði skrifstofu í New York. Þær voru komnar til Bandaríkjanna! Og þá var nú orðin löng leiðin heim!
Svo varð efnahagshrunið mikla og skömmu síðar var skrifstofunni vestanhafs lokað og enn spurðist að málverkið væri komið í flutning til Reykjavíkur. Þá fór forstöðumaður Síldarminjasafnsins aftur á stúfana og með góðra manna hjálp náðist samband við forstöðumenn Nýja Glitnis og málverkið var fengið að láni á listsýningu sem safnið opnaði í afgreiðslusal Sparisjóðs Siglufjarðar á Þorláksmessu 2008. Síldarstúlkurnar komnar heim. Vonandi endanlega!
Að síðustu skal bent á fróðleg og ítarleg skrif Jónasar Ragnarssonar um tengsl Gunnlaugs Blöndal við Siglufjörð, greinin birtist í Hellunni í apríl 2009
Heimildir: Viðtal við Sigurð Hafliðason, grein Jónasar Ragnarssonar.
- Örlygur Kristfinnsson