Vigfús Friðjónsson síldarsaltandi
Þann 8. desember 2008 voru nítíu ár liðin frá fæðingu Vigfúsar Friðjónssonar. Hann lést 14. janúar það sama ár. Af öllum Siglfirðingum, eða næst á eftir Snorra Pálssyni faktor d. 1883, var Vigfús einn umsvifamesti og sérkennilegasti atvinnurekandi sem sögur fara af á fyrri tíð – og svo virðist að enginn hafi staðið þessum tveimur ágætu mönnum á sporði í athafnasemi eða nýsköpun í atvinnulífi Siglufjarðar.
Vigfús var af fátæku sveita- og verkafólki kominn en hneigðist snemma til viðskipta og hlaut ungur eldskírn sína hjá Hinrik Thorarensen, lækni, bíóeiganda og kaupmanni. Fyrir dugnað og ráðvendni var honum ungum trúað fyrir miklu. Eftir nám í Samvinnuskólanum 1938 stofnaði Vigfús ásamt æskuvini sínum Kjartani Friðbjarnarsyni verslunina Geislann í heimabæ sínum. Þá stundaði Vigfús verulegan innflutning á húsgögnum frá Danmörku og Belgíu og seldi víða um land. Og fyrir velgengni í þeim viðskiptum lá leið hans eðlilega út í síldariðnað og útgerð.
Árið 1945, aðeins 27 ára að aldri, keypti hann Bakkastöðina af Óskari Hallórssyni, það gamla og úrsérgengna vígi stórra athafnamanna. Þar rak hann fiskverkun í fyrstu og síðan var hann þar með merkar tilraunir við framleiðslu á ýmis konar matvöru.
Vigfús leigði hluta Hafnarbryggjunnar árið 1951 og stóð þar fyrir síldarsöltun í tvö sumur. Þá keypti hann Alfonsstöðina 1953 og endurbætti stórlega á næstu árum og var þá söltunin hjá fyrirtæki hans, Íslenskum fiski, með því mesta á Siglufirði. Árið 1960 seldi hann Daníel Þórhallssyni, öðrum merkum athafnamanni, stöð sína og um það leyti beindist áhugi hans enn meir að uppbyggingu og rekstri síldarstöðva í Grímsey, Reyðarfirði og Keflavík.
Ljóst er að athafnasvið Vigfúsar var ekki aðeins Siglufjörður eða hálft Ísland heldur átti hann ítök víða um lönd út á viðskiptasambönd sín. Gott dæmi um þann stíl sem Vigfús hafði á starfsemi sinni er Friðjonsson´s speciale Wisky sem hann lét framleiða í Lübeck í Þýskalandi og gaf kunningjum sínum og viðskiptavinum.
Vigfús Friðjónsson var ekki einasta hugkvæmur og atorkusamur atvinnurekandi og fjáraflamaður heldur var hann mjög alþýðlegur og vinsæll meðal bæjarbúa. Hann var bjargvættur vörubílstjóra þegar erfiðleikar steðjuðu að í rekstri vörubílanna á síldarleysisárum, hann byggði nýstárlegt skjólshýsi yfir verkakonurnar á planinu og varð fyrstur allra síldarsaltenda til festa í sessi reglubundin kaffi- og matarhlé við söltunina. Sú nýjung mæltist misjafnlega fyrir meðal kollega hans á öðrum síldarplönum en ári síðar var þessi vinnutilhögun orðin regla hjá þeim flestum. Fyrir þetta sögulega frumkvæði Vigfúsar og margskonar vinarhót sem hann sýndi alþýðu manna er hans enn minnst í hans gamla heimabæ. “Hann er svo góður maður, hann Fúsi Friðjóns - og svo fallegur!” eins og ein síldarstúlkan sagði hálfri öld síðar.
Þegar Margrét SI 4 nýsmíðað skip Vigfúsar lagðist að bryggju í febrúar 1957, fánum prýdd stafna á milli, hélt hann sem sjálfur var hófsemdarmaður á vín eina herlegustu veislu sem sögur fara af á Siglufirði. Öllum bæjarbúum var boðið að skoða hið glæsilega austurþýska fley, og mörg hundruð manna nutu þar gnægðar vínfanga sem á borð voru borin. Allt veisluvínið kláraðist og varð af slíkt heljarinnar fyllerí að enn er í minnum haft.
Ein sérkennilegustu spor sem þessi mikli athafnamaður sté voru til liðs við Sósíalistaflokkinn á Siglufirði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1958 þegar hann skipaði fyrsta sæti framboðslistans. Þetta þótti athyglisvert á tímum hinnar miklu hörku sem ríkti í lands- og bæjarpólitík kaldastríðsáranna þar sem siglfirskir kommar þóttu mjög trúir marxiskum málstað sínum og einbeittir baráttumenn gegn auðmanna- og atvinnurekendavaldinu.
Ármann Jakobsson lögfræðingur í Útvegsbankanum, einn af forvígismönnum sósíalista á Siglufirði kom þessu í kring, er haft eftir Vigfúsi.
“Hann hafði fylgst með umsvifum mínum og viðskiptum gegnum bankann og treysti mér til að hafa forgöngu um að leita leiða til að bæta atvinnulífið á staðnum sem átti þá í miklumvanda vegna langvarandi síldarbrests”.
Viðdvöl hins athafnasama manns á löngum umræðufundum bæjarstjórnar var fremur stutt eftir árangurslausar tilraunir hans til að koma af stað verulegum hafnarbótum og að stofnsett yrði lýsishersluverksmiðja til framleiðslu á sápu og smjörlíki.
Vigfús hafði ungur hneigst til vinstristefnu í stjórnmálum vegna kynna við Huldu Sigurhjartardóttur sem var unnusta hans og síðar eiginkona og lífsförunautur. Á æskuheimili Huldu að Túngötu 34 var sérstakt skjólshús vinstrimanna á Siglufirði, en á þeim árum fékk bærinn orð á sig fyrir að vera eitt helsta hreiður byltingaraflanna í landinu. Þetta hús var í þjóðbraut díalektískrar stjórnmálaumræðu. Þar var fundað og þar dvöldu tíðum helstu forkólfarnir á landsvísu, skáld og síðar ráðherrar. Þar varð hinn ungi og upprennandi atvinnurekandi fyrir þeim áhrifum sem fylgdu honum ævilangt. “Ég var aldrei kommi, en fylgdi alltaf Alþýðubandalaginu”, sagði Vigfús háaldraður maður. Í brjósti hans sló hjartað vinstra megin, í tvennum skilningi – meðan hugurinn dvaldi við atvinnurekstur og fjársýslu.
Segja má með sanni að sumt í sögu Vigfúsar sé skáldskap líkast og er þá skemmst að minnast sérkennilegra persóna og atburða í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness – þar sem Siglufjörður síldaráranna er hið undarlega sögusvið.
Undir lok “síldarævintýrisins” fluttist Vigfús og fjölskylda hans til Reykjavíkur og þá hófst annar merkur kafli í ævi hans. Hann eignaðist hluti í nokkrum stórfyrirtækjum og þá stofnaði hann Japönsku bifreiðasöluna og rak um alllangt skeið með félaga sínum, Páli Samúelssyni sem síðar eignaðist fyrirtækið og nefndi Toyotaumboðið.
Í upphafi þessara minningarorða var Vigfús nefndur í sömu andrá og Snorri Pálsson verslunarstjóri. Það sem þessir menn eiga sammerkt er einstæð hugarorka sem leiddi til óvenjulegrar athafnasemi. Saga Snorra hefur verið rannsökuð og skráð en á feril Vigfúsar hefur að nokkru fallið móða gleymsku sem hann á ekki skilið. Þegar undirritaður hóf að grafa upp sögur af honum meðal Siglfirðinga lá leiðin á heimili þeirra Vigfúsar og Huldu og með okkur tókst góður en stuttur kunningsskapur. Þar voru sífellt sagðar sögur að norðan, frá staðnum sem ljóst var að þau höfðu í raun aldrei yfirgefið.
Siglufirði í mars 2009 - Örlygur Kristfinnsson