Síldarfólkið

eftir Benedikt Sigurðsson

Meðan síld var veidd í landnætur og reknet var mannafli oftast tiltækur í nágrenninu til aðstoðar ef skipshöfnin eða nótafélagið annaði ekki verkun aflans. Eftir að herpinótaveiðar hófust þýddi ekki að byggja á lausafólki, heldur varð að fá verkafólk til að dveljast í verstöðvunum yfir síldartímann eða taka sér þar fasta búsetu. Hér á eftir eru tínd saman fáein atriði um kjör, aðbúnað og lífshætti fólksins í síldarverstöðvunum. Mest verður stuðst við heimildir frá Siglufirði, sem var stærsta og kunnasta verstöðin.

Atvinnurekendur

Margir norsku síldarmannanna sem fyrstir fengu ítök í íslenskum sjávarplássum byggðu þar íbúðir eða íbúðarhús sem þeir bjuggu í mánuðum saman á hverju ári, stundum allt árið, og nokkrir settust þar að, til dæmis Goos, Söbstad, Bakkevig, Henriksen og Tynes á Siglufirði. Þegar kom fram á öldina og Íslendingar orðnir að mestu ráðandi í síldarútveginum varð algengast að útgerðarmenn og umboðsmenn þeirra, yfirtökumenn, matsmenn og íslenskir og erlendir síldarkaupmenn, sem dvöldust svo vikum eða mánuðum skipti í síldarverstöðvunum, hefðu herbergi eða litla íbúð á leigu yfir síldartímann og keyptu fæði á matsöluhúsum. Heimildir eru um að sömu menn bjuggu í sömu leiguherbergjunum og borðuðu á sömu matsölunni sumar eftir sumar. Sumir keyptu þvotta og þjónustu af húsmæðrum sem tóku slíkt að sér sem aukastarf með heimilishaldi, en síldartíminn var líka blómatíð fatahreinsana og þvottahúsa. Þessir menn voru yfirleitt hreinlega til fara, gengu vel um, voru stundum fjarverandi um lengri eða skemmri tíma og borguðu vel og skilvíslega fyrir sig. Þeir voru því vinsælir leigjendur. Dæmi voru þó um að menn úr þessum hópi byggju í brökkum og hefðu þar skrifstofu og miðstöð fyrir rekstur sinn á staðnum. Þeir sem stysta viðstöðu höfðu gistu yfirleitt á hótelum, enda var síldartíminn aðalvertíð gististaða í síldarplássunum. Verkstjórar söltunarstöðvanna voru oft búsettir í verstöðvunum, stundum ráðnir upp á árskaup, og voru umsjónar- og eftirlitsmenn stöðvarinnar allt árið. Dæmi voru þó um að verkstjórar úr öðrum byggðarlögum sæu um söltunina og færu síðan heim að hausti. Heimamaður, oft starfsmaður á stöðinni, var þá fenginn til að líta eftir henni á milli vertíða.

Aðstreymi verkafólks

Samkvæmt könnun sem dr. Guðmundur Finnbogason gerði á söltunarstöðvunum á Siglufirði sumarið 1919 var ráðið fólk á þeim um 1030 manns (1). Þá eru ótaldir starfsmenn síldarverksmiðja, netamenn, útgerðarmenn, matsmenn, síldarkaupmenn og fleiri sem sóttu til bæjarins á vertíðinni. Íbúatala bæjarins og næsta nágrennis var þá rúmlega 1000. Varla hefur meira en svo sem helmingur íbúanna verið verkfær. Margir heimamenn voru bundnir við annað en síldarvinnu. Ljóst er því að hún var að mestu unnin af aðkomufólki þetta sumar.

Skýrslur Vinnumiðlunarskrifstofu Siglufjarðar 1937 og 1938 segja starfsmenn atvinnurekenda á Siglufirði hafa verið milli 2500 og 2800 manns hvort ár (2). Rúmlega helmingur var Siglfirðingar. Ósennilegt er að allir hafi verið skráðir; líklegt er að þetta hafi aðallega verið fólk sem taldist fastráðið um nokkurn tíma, en þeir sem komu óráðnir og fengu aðeins lausavinnu þegar mest var að gera hafi ekki komist á skýrslur. Trúlegt er að hlutfall aðkomufólks í mannafla söltunarstöðvanna hafi verið svipað í öðrum síldarverstöðvum þar sem mikið var saltað, til dæmis á Raufarhöfn og á Austfjörðum síðustu ár síldveiðanna.

Þó heimamenn í síldarverstöðvunum gætu ekki annað öllu sem gera þurfti á vertíðinni töldu þeir sig tilneydda að hamla nokkuð gegn aðstreymi verkafólks. Þegar upp úr fyrri heimsstyrjöld fóru bæjaryfirvöld á Siglufirði að birta í blöðum aðvaranir til verkafólks um að koma ekki óráðið í atvinnuleit. Árið 1931 skoruðu þau á Alþingi að heimila bæjarstjórninni að setja reglur um aðflutning fólks þegar heimamenn væru í atvinnuþröng. Ekki fékk þetta áheyrn á þinginu. Verkalýðsfélögin á Akureyri og Siglufirði tóku síðan málið upp. Á þingi Alþýðusambands Íslands 1924 var sambandsstjórn falið að reyna að koma skipulagi á aðstreymið til verstöðvanna. Þetta var líka fyrsta og helsta mál stofnþings Verkalýðssambands Norðurlands árið 1925 (3).

Baráttan gegn aðstreymi aðkomufólks var tvíþætt: Annars vegar gegn innflutningi útlendinga sem kepptu við landsmenn um atvinnu í landinu, en þar áttu Norðmenn einkum hlut að máli, og hins vegar barátta fyrir forgangsrétti heimafólks í síldarplássunum til vinnu í byggðarlögum sínum. Þessi barátta stóð með hléum fram að seinni heimsstyrjöld, þegar setuliðsvinnan loks batt enda á atvinnuleysið. Forgangsréttarbaráttan hafði áhrif á kaup og kjör. Heimamenn reyndu að nota vinnuaflsþörfina til að knýja fram kjarabætur en samkeppnin við aðkomufólkið um vinnuna dró úr möguleikum til þess.

Margt stuðlaði að aðstreyminu: Þrýst var á atvinnurekendur sem höfðu sumarrekstur í síldarverstöðvunum að veita fólki úr heimabyggðum sínum sumaratvinnu í síldinni. Atvinnuleysið í landinu rak marga að heiman í leit að vinnu. Sveitirnar voru ofsetnar; fólk leitaði þaðan í lífvænlegustu sjávarþorpin bæði í vertíðarvinnu og til búsetu. Loks má nefna það ævintýraorð sem fór af síldarplássunum og hefur eflaust rekið marga til að rífa sig upp úr fásinninu heima.

Ef gott starfsfólk átti að fást til að taka sig upp frá heimilum og fjölskyldum yfir hábjargræðistímann og leggja á sig mikla og erfiða vinnu, vökur og vosbúð á ókunnum stað, varð að gefa því von um hærri tekjur en heima. Flestar vinnudeilur norðanlands á síldarárunum snerust um síldina, þungamiðju atvinnulífsins. Kaupgjald réði ekki úrslitum um afkomu síldarsaltenda. Það sem á mestu valt fyrir þá var að ná sem mestri og bestri síld í tunnur, og þýddi þá ekki að sýta hvort greiða þyrfti dagvinnutaxta eða yfirvinnutaxta við söltunina. Mörg dæmi eru um að síldarsaltendur og útgerðarmenn leystu sig frá vinnudeilum með kauphækkunum, sem síðan urðu fordæmi um kjör almennt. Stundum var þetta gert í trássi við aðra atvinnurekendur, jafnvel sjálft ríkisvaldið. Sem dæmi má nefna að einn öflugasti atvinnurekandinn í greininni, Ingvar Guðjónsson, hafði að minnsta kosti fjórum sinnum frumkvæði um að ljúka vinnudeilum með samningum sem flestir aðrir atvinnurekendur og jafnvel stjórnvöld landsins voru mótfallin. Víst má telja að afstaða hans hafi fyrst og fremst mótast af hagsýni. Kaupgjaldið var svo lítill hluti tilkostnaðar við saltsíldarframleiðsluna að nokkurra prósenta breyting á því réði mun minna um arðsemi hennar en ýmsir aðrir þættir, til dæmis nýting aflans eða gæði þeirrar síldar sem barst. Nokkurra daga vinnustöðvun gat ráðið úrslitum um afkomu söltunarstöðvarinnar á sumrinu. Fárra klukkutíma dráttur á söltun góðs síldarfarms gat jafnvel ráðið úrslitum um tap eða gróða á vertíðinni.

Vinnudeilur

Forustan í vinnudeilum í síldarverstöðvunum af hálfu atvinnurekenda var yfirleitt hjá síldarverksmiðjum ríkisins, eftir að þær komust á fót, en á bak við þær stóð ævinlega ríkisvaldið sem jafnan reyndi að halda kaupgjaldinu niðri og streittist af alefli gegn því að "slæm" fordæmi yrðu gefin í síldarverstöðvunum. Hörðust varð baráttan oftast á Siglufirði. Kjörin þar urðu frá því um eða fyrir 1930 fordæmi sem gilti í öðrum verstöðvum.

Þó kaupgjald í síldarverstöðvunum væri oftast með því hæsta sem gerðist í landinu var einn taxti sem erfiðara veittist að koma á þar en víða annars staðar. Það var næturvinnutaxti. Ástæðan var sú að taka varð á móti síldinni hvenær sem hún barst, jafnt á nótt sem degi. Á Siglufirði komst næturvinnutaxti yfir síldartímann ekki á fyrr en 1954. Þá hafði næturvinnutaxti verið þar í gildi tíu mánuði ársins síðan 1947, en kauptryggingartíminn á söltunarstöðvum og í verksmiðjum undanskilinn. Helgidagataxti komst þar hins vegar snemma á og eftirvinnukaup var stundum hærra en annars staðar.

Verkamenn í síldarverstöðvunum höfðu um margt áþekk kjör og í öðrum verstöðvum. Kjörin í síldarverksmiðjunum voru yfirleitt hagstæðari en á söltunarstöðvunum. Tveggja mánaða kauptrygging hjá síldarverksmiðjum ríkisins var fyrst samningsbundin 1933 (4) en kauptrygging á söltunarstöðvum 1937 (5), fyrst í sex vikur en lengdist síðan í tvo mánuði.

Starf og aðbúnaður síldarstúlkna átti sér hins vegar fáar eða engar hliðstæður í landinu. Verður því vikið sérstaklega að þeim hér á eftir og tínd til dæmi frá ýmsum tímum.

Saltendur urðu að bjóða ýmiss konar fríðindi til að laða til sín söltunarstúlkur. Sumarið 1919 virðist hafa komist á sú skipan að söltunarstúlkur væru ráðnar með 200 króna kauptryggingu yfir sumarið (6). Í áðurnefndri skýrslu Guðmundar Finnbogasonar um athuganir hans á vinnubrögðum við síldarframleiðslu 1919 segir að allar síldarstúlkur hafi ókeypis ferðir fram og aftur, húsnæði og eldsneyti. Þá hafi þær 10 kr. vikupeninga og ennfremur séu þeim tryggðar 200–300 kr. fyrir allan tímann, eða sem svarar kaupi fyrir söltun á 130–250 tunnum. Söltunartaxtinn var 1,20–1,50 kr. á tunnuna. Vikupeningarnir voru taldir lágmarkskostnaður fyrir mat. Eldsneytið var venjulega olía, en stundum aðeins til ljósa og þá kol eða annar eldiviður til brennslu. Ferðirnar í síldarverið og heim voru oftast með síldarskipum vinnuveitendans.

Árið 1919 fóru allmargir íslenskir síldarútflytjendur á höfuðið, svo sem frægt er. Söltunarkaupið hélst þó allhátt næstu 2–3 ár, en úr því fór það að lækka. Til er skrá yfir vikupeninga sem einn helsti saltandinn á Siglufirði, Ole Tynes, greiddi. Árið 1920 greiddi hann tíu kr. í 9 vikur, 1921 sjö kr. í átta vikur, 1922 og 1923 fimm kr. í átta vikur og 1924 sömu upphæð og tíu kr. í ofanálag fyrir sumarið (7).

Sumarið 1925 risu siglfirskar konur upp gegn tilraun saltenda til að rýra söltunarkjörin enn meira og gerðu verkfall sem vakti landsathygli, fyrsta verkfall sem gert var í bænum. Þær náðu miklum árangri og fyrir næstu vertíð var fyrsta verkakvennafélag á Siglufirði stofnað. Eftir það voru kjör siglfirskra verkakvenna samningsbundin.

Að sjálfsögðu var saltendum hagkvæmara að fá vanar söltunarstúlkur, búsettar í verstöðinni, en að flytja fólk að, jafnvel frá Noregi. Þeir sóttust því eftir heimastúlkum. Siglfirskar konur áttu oft erfitt með að komast í síldina frá börnum sínum. Dagvistun barna komst því snemma á dagskrá á Siglufirði. Á fjórða áratugnum rak kvenfélagið í bænum í tvö sumur dagheimili í samkomuhúsi sínu, önnur tvö í tjaldi frammi í firði og tvö sumur í skólasetrinu Sólgörðum í Fljótum, en 1940 var tekið í notkun dagheimilið Leikskálar rétt innan við bæinn og rekið á hverju sumri til 1973 er það eyðilagðist í snjóflóði. Naut þessi starfsemi styrks frá saltendum.

Þess ber að geta, að karlmenn, einkum drengir og unglingspiltar, fengust talsvert við að kverka og salta síld fram yfir fyrri heimsstyrjöld. Áður hefur verið nefndur Sigfús Ólafsson sem saltaði um borð í norskum skipum 1902. Gísli Ólafsson bakari í Reykjavík og Guðlaugur Pálsson kaupmaður á Eyrarbakka söltuðu saman á stöð Söbstads á Siglufirði 1914. Þeir söltuðu úr bing, en kassar voru þá að byrja að ryðja sér til rúms (8). Tryggvi Helgason, lengi formaður Sjómannafélags Akureyrar, saltaði hjá Ole Tynes sumarið 1916 (9). Fleiri dæmi mætti nefna.

Aðbúnaður og húsakynni

Hús þau eða verbúðir sem Norðmenn og síðar einnig Íslendingar komu upp til að hýsa síldarfólk voru nefnd brakkar á norska vísu. Til annarra landshluta hefur nafnið líklega borist frá Danmörku með framburði þarlendra, braggi. – Lík orð erlend þýða bráðabirgðabústaðir, komin af barro, sem þýðir leir. Hermenn Rómverja gerðu sér í herferðum næturskýli úr leir.

Brakkarnir voru oftast allstór hús, byggð úr timbri á söltunarbryggjunum eða rétt ofan við þær, ein eða tvær hæðir og ris. Neðri eða neðsta hæðin var oft notuð til geymslu á söltunaráhöldum og söltunarefni. Stundum var þar aðstaða til beitningar og veiðarfærageymsla, jafnvel saltgeymsla og fisksöltun. Þarna geymdi söltunarfólkið hlífðarföt, stígvél og fleira sem það vildi ekki hafa í herbergjum sínum.

Á efri hæðinni og stundum á rishæð voru íbúðarherbergi söltunarfólksins. Í hverju þeirra voru oftast 2–8 rúmstæði með dýnum. Framan af voru olíuvélar og prímusar algengustu upphitunar- og suðutækin. Eftir að rafveitur komu í sjávarþorpin var rafmagn yfirleitt lagt í brakkana og notað þar jafnt og tíðkaðist á viðkomandi stað. Vinnuveitandinn lagði það til með húsnæðinu. Dæmi eru til um það að saltendur hafi reiknað verkafólki leigu eftir braggapláss, en heyra til undantekninga. Algengt var að yfir veturinn væru geymd í herbergjunum veiðarfæri, tómar tunnur og fleira. Sáust þess oft merki þegar flutt var í þau næsta sumar.

Í grein í siglfirsku blaði árið 1930 segir að í sumum brökkunum sé fólki hrúgað saman, allt upp í 12–16 í hvert herbergi. Gluggar séu litlir og sums staðar ekki opnanlegir, enda sé til lítils að opna þá, því þá leggi inn fnykinn af slori og grút á og undir bryggjunum. Upp um einföld og gisin brakkagólfin finnist sums staðar lykt úr beitningaplássum og fiskstæðum. Lítið eða ekkert sé hugað að eldvörnum í þessum vistarverum (10).

Flestir eldri brakkarnir voru panelþiljaðir en illa einangraðir, enda aðeins ætlaðir til íbúðar yfir hásumarið. En ekki var um þetta nein föst regla; til voru brakkar sem voru skár einangraðir, með sæmilegri upphitun, og búið í þeim allt árið. Þá voru þess dæmi, einkum frá síðasta skeiði síldveiðanna fyrir Norðurlandi, að saltendur keyptu eða tækju á leigu íbúðarhús í plássinu og notuðu sem bústað fyrir aðflutt söltunarfólk.

Miðað við þær kröfur sem nú eru gerðar til íbúða hafa margir brakkanna naumast getað talist íbúðarhæfir þegar þeir voru byggðir. En miðað við leka og þrönga torfbæi sveitanna og saggahreysi fátæklinga í sjávarplássum á fyrstu áratugum aldarinnar hafa þeir eflaust þótt fullboðlegt húsnæði.

Í elstu brökkunum stóð sjaldan annað til boða en herbergin með rúmstæðum og dýnum; í mesta lagi borð eða bekkur. Síldarstúlkur elduðu á olíuvél eða prímus sem þær áttu sjálfar og lögðu sér sjálfar til öll eldunar- og mataráhöld. Hvorki var handlaug né vaskur í brakkanum. Vatn var sótt í krana úti á bryggju, skólp borið út í fötum og hellt í sjóinn, kamar á bryggjunni.

Ástand brakkanna þokaðist smám saman í átt að kröfum hvers tíma, og eftir metnaði og efnahag saltendanna. Síðustu síldarárin var sums staðar á Austurlandi komin miðstöðvarhitun, handlaugar og eldhúsvaskar, vatnssalerni og jafnvel þvottavélar á stöku stað. Brakkar og annað húsnæði sem Síldarverksmiðjur ríkisins buðu starfsmönnum sínum var að jafnaði betra en það sem starfsfólki söltunarstöðvanna stóð til boða, enda byggt af meiri fjárhagsgetu og í betra samræmi við kröfur hvers tíma. Fæðiskostnaður bæði í mötuneytum verksmiðjanna og söltunarstöðvanna var hráefnisverð fæðisins.

Það orð lék á að stundum væri ónæðis- og sukksamt í brökkunum. Um það voru ýmis dæmi, en oftast voru íbúar þeirra að meirihluta ráðsett og reglusamt fólk sem ekki lét bjóða sér endurtekið ónæði og uppivöðslu nátthrafna og óreglumanna. Þegar fram á sumarið kom og nætur gerðust dimmar voru víða settir vaktmenn á stöðvarnar til að koma í veg fyrir yfirgang og spjöll. Höfðu þeir þá einnig eftirlit með brökkunum.

Aðstaða til fataþvottar og hreinlætis var yfirleitt af skornum skammti í brökkunum. Fólk varð að þvo sér og vinda úr fatnaði án þess að hafa annað heitt vatn en það sem hita mátti í kötlum og matarpottum. Þvottahús og fatahreinsanir voru víða starfrækt yfir síldartímann. Baðhús voru á nokkrum stöðum, til dæmis voru böð hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði og í Gesta- og sjómannaheimili Siglufjarðar sem stúkan Framsókn rak.

Í margnefndri skýrslu Guðmundar Finnbogasonar frá 1919 kemur fram að karlmenn á söltunarstöðvum höfðu þá ýmist ókeypis matreiðslu eða frítt fæði hjá vinnuveitanda. Stúlkur fengu ókeypis eldsneyti en elduðu sjálfar, ýmist hver fyrir sig eða fleiri. Þessi skipan hélst til loka sem aðalregla. Skýringin á þessum aðstöðumun kynjanna er líklega einkum sú að karlmennirnir, hvort sem þeir unnu á söltunarstöðvum eða í síldarverksmiðjum, gengu að tímavinnu alla virka daga og stundum einnig um nætur og helgidaga og höfðu alls engan tíma til matreiðslu. Söltunin var hins vegar skorpuvinna. Á milli saltananna voru hlé, stundum svo dögum skipti, og gáfust þá söltunarstúlkunum hlé til matargerðar. Hefðbundin verkaskipting kynjanna kann þó að hafa átt einhvern þátt í þessari skipan. En benda má á að síldarstúlkurnar hafa eflaust talið sig spara kostnað ef þær önnuðust sjálfar matseld sína.

Á síðustu árum Norðurlandssíldarinnar voru dæmi um að rekin væru mötuneyti fyrir allt starfslið söltunarstöðva. Heimild er um eitt eldra dæmi: Árið 1930 rak Söltunarfélag verkalýðsins á Akureyri mötuneyti í brakka á svonefndu Anleggi á Siglufirði þar sem allt starfsfólkið hafði ókeypis fæði. Söltunarstjóri var Sigfús Baldvinsson (11). Mun þetta vera eitt örfárra dæma, ef ekki einsdæmi, um að söltunarstúlkur fengju frítt fæði, en karlmenn voru eins og áður er að vikið stundum ráðnir upp á þau kjör, til dæmis verkstjórar og skrifstofumenn. Algengt var að aðkomufólk hefði fæði og húsnæði hjá kunningja eða ættingja í viðkomandi síldarplássi. Stundum komu heilar fjölskyldur og héldu heimili í brakka meðan söltun stóð yfir.

Frásagnir nokkurra síldarstúlkna

Til eru margar frásagnir kvenna um kjör þeirra í síld og lífið í síldarverstöðvunum.

Johandine Sæby, fædd á Siglufirði 1895 og átti þar heima alla ævi, fór fyrst í síld 1905 með systur sinni. Eitt sumar saltaði hún um borð í duggu eða skonnortu úti á firði, líklega einhverskonar móður­skipi. Stúlkurnar urðu að vera tvær saman til að geta lyft síldarbölunum á milli sín upp á kybbi. Þær voru fluttar milli lands og skips á litlum bát. Þeim var sendur matur að heiman, oft kjötsúpa, baunir eða annað sem hægt var að geyma í lokuðu íláti, en fengu kaffi um borð. Oftast voru notuð í söltun gömul föt sem ekki átti að nota í annað. Johandine eignaðist snemma gúmmístígvél, líklega tólf ára. Notaðir voru vettlingar úr lérefti eða sauðskinni og reynt að verja hendurnar fyrir átusæri með sviðafeiti, ósaltri tólg og ýmiss konar áburði úr búðum. Á skipsfjöl var alltaf "rúnnsaltað" með haus og slógi, en í landi var kverkað (12).

Elka Björnsdóttir var í síld á Hjalteyri 1915. Hún fékk ásamt fleiri síldarstúlkum far frá Reykjavík með einum af togurum Kveldúlfs. Á Hjalteyri fengu þær bústað í "skúr", sem hún nefnir svo, með tveim svefnstofum og sváfu tvær stúlkur saman í rúmi. Þær þrifu sjálfar skúrinn og þvoðu föt sín úti í stórum potti. Kveldúlfur greiddi laun ráðskonu sem eldaði fyrir karlmennina en stúlkurnar elduðu sjálfar handa sér í sama eldhúsi. Þegar mikil síld barst að, höfðu þær ekki tíma til að elda og voru matar­lausar heilu dagana. Fæðið var aðallega grautur, rúgbrauð og fiskur. Erfitt var að afla matvæla og vatnsskortur tilfinnanlegur. Eftir að tvö taugaveikitilfelli komu upp um sumarið varð að sjóða allt drykkjarvatn samkvæmt fyrirskipan læknis. Elka keypti einu sinni kjöt í þá tvo mánuði sem hún var þarna. Stundum fór hún niður á bryggju að reyna að veiða sér í soðið. Elka var vön síldarstúlka og góð í höndunum þó hinar væru "óvígar í sárum". Og þegar mikið berst að af síld lofar hún guð fyrir atvinnuna og hneykslast svolítið á óvitaskapnum í stallsystrum sínum sem eru farnar að óska þess að næsta skip fari með síldina í bræðslu. Sumarið varð Elku rýrt. Hún lagðist í brjósthimnubólgu og varð óvinnufær um miðjan ágúst. Hún ákvað þó að bíða fyrir norðan til að spara sér ferðakostnað og komst suður með Kveldúlfstogara um miðjan september (13).

Hallfríður Jónasdóttir var í síld á Siglufirði 1924. Hún fékk ásamt mörgum öðrum far norður í efri lest á flutningaskipi og bjó í brakka með tveim systrum frá Akureyri. Herbergi þeirra var veggfóðrað en bar merki um að þar hefðu verið geymd veiðarfæri um veturinn. Undir glugganum var lítið borð, stólar engir og óheflaður bekkur á framlofti var notaður sem eldhúsborð. Vatn var sótt í krana úti á bryggju, skólpi hellt í sjóinn og vanhús var úti á bryggjunni. Fiskur var til matar flesta daga vikunnar og eina mjólkin sem fékkst var dósamjólk. Kaupið var 75 aurar á tunnu, frí olía, fimm kr. í vikupeninga og önnur ferðin. Hallfríður saltaði hundrað tunnur og fékk í kaup 75 kr. sem hún átti óeyddar um haustið. Vikupeningarnir höfðu nægt til uppihalds. Far heim fékk hún ókeypis með síldarbát (14).

Valborg Bentsdóttir kennari fór til Siglufjarðar 1935, fékk lestarpláss norður fyrir 20 kr., svaf í efri koju í brakkaherbergi á lofti undir súð og hafði borðshorn undir olíuvélina sína. Átta stúlkur voru í herberg­inu og bjuggu þröngt, en þó kom í ljós að þetta var besta herbergið í brakkanum. Í öðrum herbergjum voru allt upp í 12 stúlkur og sukksamt hjá þeim í landlegum. Síldin brást algerlega og Valborg hélt suður um haustið á ríkisins kostnað, líka í lest. Þegar hún steig á land í Reykjavík átti hún eina krónu og tuttugu og fimm aura í peningum, sem nægði fyrir leigubíl til að flytja hana og farangur hennar heim (15).

Ferðalög til og frá

Síldarfólkið ferðaðist oft til verstöðvanna og heim aftur með síldarbátum frá heimabyggðum sínum. Sumir fóru þó með strandferðaskipum, eins og Valborg Bentsdóttir, og þá oft í lest, stundum með heldur litlum glæsibrag. Tryggvi Þorsteinsson fyrrum skólastjóri á Akureyri segir frá ferð frá Siglufirði til Reykjavíkur í lestinni á m/s Dronning Alexandrine eftir síldarleysissumar, líklega l935: Fólkið lá á lestargólfinu innan um farangur sinn eða á pokum og kössum og hafði fæst efni á að kaupa sér mat eða aðra hressingu. Vestur á Húnaflóa komu hásetar í lestina með stórar súpufötur og minni ílát. Tilkynntu þeir að skipstjórinn ætti afmæli í dag og vildi ekki láta farþegana svelta. Var súpunni síðan ausið úr fötunum í smærri ílátin og hverjum gefið sem hann vildi. Segir Tryggvi sér hafa runnið til rifja að sjá landa sína, fólk á besta aldri, sem svalt nú heilu hungri eftir að hafa freistað gæfunnar í síldarbænum, sötra eins og betlaralýður þessa súpu sem útlendingar réttu því (16).

Fatnaður

Við síldarvinnu var yfirleitt notaður sams konar fatnaður og við aðra vinnu, að viðbættum hlífðar­fötum eins og olíusvuntu, olíupilsi, olíuermum eða öðrum hlífðarermum, stígvélum og vettlingum. Olíuföt bæði karla og kvenna framan af öldinni voru oft heimagerð, til dæmis úr þykku bómullarefni. Þóttu pokar undan hveiti og öðrum kornmat ágætir í þennan fatnað. Þegar búið var að sauma fötin var borin í þau fernisolía til að gera þau vatnsþétt. Oft entust þau með góðri umhirðu lengur en eitt ár og voru þá fernisborin milli vertíða.

Síldarföt karlmanna voru yfirleitt svipuð og notuð voru við aðra fiskvinnu. Gúmmístígvel fóru mikið að tíðkast á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar en líklega hafa þó skinnsokkar verið talsvert notaðir fram eftir þriðja áratugnum.

Söltunarpilsin sem konur notuðu voru fyrstu árin stundum úr striga en fljótlega komu olíupils og olíu­svuntur sem náðu upp á brjóstið og vefja mátti utan um mjaðmirnar. Olíutreyja var notuð í vondu veðri. Snemma var farið að nota olíuermar til að verja handleggina. Þetta voru lausar ermar með teygju í báðum opum, og voru allmikið notaðar til að verja handleggina gegn salti, átu og sólbruna. Þær þóttu þó stirðar og tefja fyrir við söltun. Vildu margar söltunarkonur helst ekki nota þær nema í ítrustu nauðsyn og höfðu í staðinn ermar úr dúk eða prjónuðu efni, til dæmis boli af gömlum ullar- eða bómullarsokkum. Miklar framfarir urðu smám saman í gerð vatnsfatnaðar. Líklega hefur munurinn orðið mestur þegar gúmmíborni fatnaðurinn kom í stað gömlu olíufatanna.

Eitt af vandamálum söltunarstúlkna eftir að farið var að salta síld úr reknetum og snurpinót var að verjast handasæri. Átan, einkum rauðáta, ásamt meltingarvökvum úr síldinni, át fleiður á húðina. Salt, síldarkrydd og saltpétur hjálpaði svo til að breyta fleiðrunum í sár og olli óþolandi sviða. Gat átumikil síld gert stúlkurnar óvinnufærar í einni söltun. Gúmmívettlingar urðu ekki algengir fyrr en eftir seinna stríð. Fram að þeim tíma var algengt að nota heimasaumaða vettlinga úr lérefti og bera á hendurnar einhverja feiti, helst mjúka og ósalta, til að verja þær fyrir átunni. Algengt var að nota tólg, sviðafeiti og lýsi, auk vaselíns og fleiri tegunda handaáburðar sem fékkst í búðum. Á síðustu áratugum síldar­söltunar norðanlands tíðkaðist mikið að hafa gúmmívettlinga til sölu á söltunarstöðvunum. Annar algengur atvinnusjúkdómur söltunarkvenna var sinaskeiðabólga í úlnliðum, og eftir að gúmmí­vettlingar urðu algengir hefur hún líklega gert fleiri stúlkur óvinnufærar en átusærin.

Matar- og kaffitímar

Meðal þess sem oft hrjáði söltunarstúlkur við vinnuna var sultur. Þær unnu ákvæðisvinnu og ætlast var til að þær vikju helst ekki frá síldarkössunum fyrr en þeir væru tómir. Á Siglufirði máttu matar- og kaffitímar heita óþekktir fyrr en um miðja öldina og þeir komust ekki inn í samninga fyrr en 1961. Að vísu var stúlkunum heimilt að skreppa frá, en væri mikið að því gert var það litið hornauga af vinnu­veitendum. Þeirra hagur og útgerðarinnar var að koma síldinni sem fyrst í salt; því lengur sem það dróst því meira gekk úr við söltunina og því seinna komust skipin út aftur, en dráttur á því gat aftur þýtt aflatap. Margar söltunarkonur telja fátt hafa verið meiri kjarabót en þegar komið var á föstum matartímum. Hungrið var slæmur ábætir ofan á erfiða vinnu sem gat staðið úrtakalítið dægrum eða sólarhringum saman úti í allavega veðrum.

Slysavarnir

Slys voru lengi tíðari við síldarvinnu en flest önnur störf á landi. Bæjarstjórn Siglufjarðar hóf 1920 baráttu fyrir löggjöf um slysatryggingu verkamanna, fyrst og fremst við verksmiðjuvinnu og skipa­vinnu. Hvatinn að þessu frumkvæði hefur e.t.v. ekki síst verið umhyggja fyrir sveitarsjóðnum, sem oft var eina athvarf örkumlamanna og fjölskyldna þeirra. Lögum um slysavarnir og hollustuhætti hefur lengi verið slælega framfylgt hér á landi, oft meira horft til stundarkostnaðar en langtímavelferðar. Líklega hafa síldarverksmið­jur ríkisins verið í skárri röð fyrirtækja hvað þetta snerti, enda jafnan harðara gengið eftir því að ríkisfyrirtæki fylgi lögum og reglum en önnur fyrirtæki.

Óregla

Alkunnar eru sögur um drabb og óreglu í síldarverstöðvunum. Margir kannast við skrítluna um stúlkuna sem svaraði þegar hún var spurð hvort hún væri gift: "Nei, en ég hef verið í síld í Hrísey". Óregluorðið sem fór af síldarplássunum hefur þó líklega alltaf verið meira en tilefni var til. Tilhneiging til að krydda sögusagnir er alkunn, en einnig má minna á að sókn verkafólks í síldina á fyrstu áratugum aldarinnar var litin hornauga af bændastéttinni og talsmönnum hennar sökum þess að hún dró fólkið frá sveitavinnunni og stuðlaði að hækkun kaupgjalds. Var stundum reynt að hræða fólk með því að það mundi spilla mannorði sínu og áliti með því að þyrpast í þau óreglubæli sem síldarverstöðvarnar væru. Á hinn bóginn var það atvinnurekendum í verstöðvunum í hag að sögur um háar tekjur og frjálst og óháð líf hefðu byr undir vængjum og stuðluðu að sem mestu framboði á vinnuafli.

Ekki verður þó fullyrt að óreglusögurnar hafi verið tilhæfulausar. Til Siglufjarðar, síldarverstöðvarinnar sem mestar sögur gengu af, kom að jafnaði á hverju sumri til starfa að minnsta kosti á annað þúsund karlar og konur og í landlegum gátu legið inni á firðinum fjögur til fimm hundruð síldarskip með 16 -18 manna áhöfn hvert. Allt var þetta fólk á besta aldri, hraust, lífsglatt og skemmtanafúst, ekki síst sjómennirnir sem komu í land eftir langa og fábrotna vist úti á hafi, með ófullnægða löngun eftir tilbreytingu, sem veita þurfti útrás á sem skemmstum tíma. Nærtækasta aðferðin var þá að skvetta í sig áfengi og láta framhaldið ráðast.

Áfengisneysla á Siglufirði keyrði úr hófi fram á árunum fyrir vínbannið 1915. Löggæsla var lítil, útlendingar fluttu áfengi að mestu óhindrað í land, til viðbótar því sem selt var löglega. Sumarið 1911 voru taldar 23 ölknæpur í bænum (17). Meðal afleiðinganna af þessu áfengisflóði voru hinir frægu Norðmannaslagir á Siglufirði, sem stundum voru bældir niður með aðstoð herflokka af dönskum varðskipum. Íslendingar reyndust líka liðtækir við hópslagsmál. Síðasta stórorustan af því tagi var háð sumarið 1959.

Eftir að vínbann komst á 1915 tók við tímabil smygls, leynivínsölu og neyslu ýmissa áfengra vökva sem ekki töldust framleiddir til drykkju. Árið 1922 var leyfður innflutningur léttra víntegunda frá Spáni til að greiða fyrir sölu á saltfiski þangað. Skyldi sett upp á vegum ríkisins áfengisbúð í hverjum lands­fjórðungi, á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði og í Reykjavík. Niðurstaðan varð sú að stofnuð var aukreitis útsala á Siglufirði. Bæjarstjórn og bæjarbúar mótmæltu þessu tiltæki stjórnvalda og 1924 undirritaði yfirgnæfandi meirihluti kjósenda í bænum áskorun til þeirra um að loka útsölunni, en án árangurs. Árið 1930 var málið tekið upp aftur, meðal almennings, í bæjarstjórn og af verkalýðs­félögunum. Verkalýðsfélögin settu afgreiðslubann á áfengissendingar, en stjórnvöld settu undir þann leka. Þau sendu áfengið sem bögglapóst og komu því þannig undir pósthelgi, varða alþjóðasamning­um og lögum. Það helsta sem stjórnvöld gerðu til að koma í veg fyrir alvarlegustu afleiðingar áfengisneysl­unnar var að fjölga lögreglumönnum í síldarverstöðvunum yfir sumarið. Á Siglufirði var fjölgað um 10–15 manns og bæjarfógetanum veitt heimild til að loka áfengisútsölunni þegar landlegur væru fyrirsjáanlegar. Var það stundum gert.

Sölumenn skemmtana, veitinga og margvíslegrar annarrar þjónustu notfærðu sér markaðinn í síldar­verstöðvunum eins og unnt var. Sumarverslanir, veitingastaðir, söluturnar, matsölur og gistihús þutu upp eða lifnuðu við þegar síldartíminn nálgaðist. Á Siglufirði voru rekin kvikmyndahús á að minnsta kosti þrem stöðum í bænum, tvö þeirra samtímis í 10–15 sumur. Efnt var til dansleikja á smáum sem stórum samkomustöðum. Þessi starfsemi þreifst best í landlegum og aflaleysi, en síður þegar nóg var að starfa.

Sjómannaheimili

Nokkrar tilraunir með rekstur sjómannaheimila voru gerðar en aðeins tvær þeirra tókust eins og til var ætlast. Norskur prestur, Sjur Oppeland, átti frumkvæði að því að stofnað var 1915 á Siglufirði norskt sjómannaheimili sem jafnframt var sjúkraskýli með rúmum fyrir átta sjúklinga. Þá stofnaði stúkan Framsókn á Siglufirði Sjómanna- og gestaheimili Siglufjarðar og rak það 1940–1964. Þar var áfengisneysla bönnuð og var það bann lítt eða ekki brotið, vegna virðingar fyrir staðnum og starf­seminni að því er best verður séð. Húsakynnin voru ekki sérlega glæsileg og minntu frekar á gamal­dags myndarheimili en veitinga- eða samkomustað, en gestum var mætt með látlausu og hlýlegu viðmóti. Heimilið var opið alla daga fram á kvöld þá mánuði sem það var rekið. Þar voru seld böð, blöð og tímarit lágu frammi, hljóðfæri og útvarp var í veitingasal, ennfremur pappír og ritföng og dálítið bókasafn sem lánaði skipshöfnum bókakassa með allt að tíu bókum í einu. Þá annaðist það sendingu bréfa, peninga og símskeyta, tók muni í geymslu og afgreiddi símtöl. Ennfremur voru seldar þar góðar veitingar við sanngjörnu verði. Þessi starfsemi naut eindæma vinsælda meðal sjómanna og aðkomufólks sem sótti til Siglufjarðar á sumrin. Sáust þess meðal annars merki í gjöfum og margvís­legum vináttuvotti frá sjómönnum, útgerðarmönnum, skipshöfnum og fjölda einstaklinga sem nutu þar þjónustu.

Heimildir

1. Guðmundur Finnbogason. Síldarvinnan. Ægir, ág–sept. 1919, bls. 102 og áfram.
2. Einherji 17. nóv. 1938 og 29. apríl 1939.
3. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta. Úr sögu byggðar og verkalýðshreyfingar á Siglufirði. I. Kópavogi, 1989, bls. 206.
4. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta I., 1989, bls. 375.
5. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta II., 1990, bls. 101.
6. Guðmundur Bílddal. „Hugleiðingar um atvinnumál“. Fram, Siglufirði, 12. apríl 1919, bls. 41 og 60 ; Guðmundur Finnbogason. „Síldarvinnan“. Ægir, ág -sept. 1919, bls. 102.
7. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta I., 1989, bls. 180.
8. Iðnaðarmenn I., 1987, bls. 122.
9. Tryggvi Helgason. „Á Siglufirði sumarið 1916“, Sjómannablaðið Víkingur 1. tbl. 1992, bls. 16-17.
10. Mjölnir, Siglufirði, 18. júní og 2. júlí 1930.
11. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon, 1920 - 2008.
12. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta II, 1990, bls. 458 – 460.
13. Elka Björnsdóttir o.fl. Dagbók Elku. Alþýðumenning í þéttbýli á árunum 1915–1923 í frásögn Elku Björnsdóttur verkakonu. Rvk.: Háskólaútgáfan, 2012, bls. 81-102.
14. Anna Sigurðardóttir. Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Rvk, 1985, bls. 427 – 430.
15. Valborg Bentsdóttir. Handrit að útvarpserindi fluttu 7. ágúst 1971. (Ljósrit).
16. Erlingur Davíðsson. Aldnir hafa orðið II. Akureyri, bls.95 – 96.
17. Engström, Albert. Til Heklu. Endurminningar frá Íslandsferð. Rvk, 1943 , bls. 77.