Síldarfrysting
eftir Benedikt Sigurðsson
Fram yfir 1920 voru siglfirskir þilfarsbátar aðallega gerðir út til hákarlaveiða á vorin og síðan á síld. Að jafnaði gengu aðeins 1–2 þessara báta til þorskveiða einhvern hluta úr árinu. Hins vegar var nokkuð sótt á smábátum, einkum á vorin og fram eftir sumri á meðan ný síld var fáanleg til beitu. Ekkert íshús var í bænum til að frysta og geyma beitubirgðir og varð því utan síldartímans að fá beitu að. Megnið af henni kom frá Akureyri en einnig nokkuð frá Ísafirði. Beitubátur gekk á vorin frá Akureyri með smásíld eða loðnu sem lásuð var í landnætur innst inni í Eyjafirði, geymd í nótinni og tekin jafnóðum og hún var seld. Hins vegar voru til í bænum ísgeymsluhús, torfkofar sem safnað var í snjó og ís að vetrinum til að selja útilegubátum til beitugeymslu um borð. Kunnust eru ísgeymsluhús Guðmundar Bjarnasonar í Bakka. Hann byggði 1912 (1) hús þar sem nú er Grundargata 16. Annað hús átti hann um það bil þar sem nú er Hvanneyrarbraut 59. Þá átti Jón Jóhannesson bóksali og fræðimaður ísgeymsluhús nálægt mótum Hávegar og Skriðustígs. Helstu eða jafnvel einu viðskiptamenn þessara húsa voru Færeyingar.
Sumarið 1909 var beituskortur um allt Norðurland. Útgerðarmenn á Siglufirði samþykktu þá stofnun hlutafélags til að koma upp íshúsi og kusu nefnd til forgöngu en málið sofnaði í höndum hennar (2). Árið 1919 komst málið svo langt að fengin var lóð, en við það sat (3).
Vorið 1922 kaus bæjarstjórn nefnd til forgöngu í málinu og um haustið var stofnað hlutafélag bæjarins og einstaklinga með 30 þús. kr. hlutafé. Húsið komst upp 1923. Fryst var með snjó og salti.
Við tilkomu hússins stórjókst þátttaka stærri bátanna í þorskútgerð. Árin 1924 og 1925 stunduðu hana 8 þilfarsbátar. Rekstri hússins hefur líklega lokið 1933 og 28. apríl 1934 var það selt Síldarverksmiðjum ríkisins ásamt lóðinni.
Eitt af fyrirtækjum Óskars Halldórssonar, Hrogn og lýsi h.f, byggði íshús á söltunarlóð sinni í Bakka 1925. Annað fyrirtæki Óskars, Bakki h/f, keypti það árið eftir og fékk leyfi til að byggja norðan við það ísgeymsluhús, eina hæð, 50 x 30 fet að flatarmáli og 8 feta hátt. Fylgdi það síðan stöðinni við öll eigendaskipti. Í þessu húsi var eingöngu fryst síld, fyrst með snjó og salti en fljótlega var tekin upp vélfrysting og loks svonefnd pækilfrysting, en snjór og salt notað til geymslu.
Kaupfélag Eyfirðinga keypti Bakkastöðina 1933. Tilgangurinn var einkum að tryggja félaginu aðstöðu til síldarfrystingar og sölu beitusíldar, í sambandi við frystihús SÍS í Vestmannaeyjum og Reykjavík. KEA rak húsið næstu þrjú ár, en 1937 keypti Bakki h/f stöðina aftur og tók þegar að frysta beitusíld í húsinu. Var hún flutt í beitugeymslur víða um land og ný síld tekin til frystingar jafnóðum og rými fékkst. Heimild er um að eitt sumar a.m.k. hafði Óskar á leigu danskan "smjörbát", Resolut, í beitusíldarflutningum. Bátar af þessari gerð voru notaðir til flutninga á dönskum landbúnaðarvörum til Bretlands. Þeir höfðu ekki frystibúnað en voru vel einangraðir. Húsið var einnig notað til snjógeymslu og ísframleiðslu. Óskar keypti m.a. lifur af Færeyingum og seldi þeim ís og beitu.
Haustið 1941 seldi Óskar Bakkaeignina en áskildi sér rétt til að nýta hluta af snjógeymslunni vegna útflutnings á ísvörðum fiski. Frystitækin úr húsinu hafði hann áður selt til Vestfjarða og fékk fyrir þau svipað verð og hann hafði keypt Bakka á 1937 (4).
Gísli J. Johnsen kom upp frystihúsi á Roaldslóð. Var þar eingöngu notuð vélfrysting. Sögn er um að húsið hafi verið byggt og komist í rekstur 1928, en Gísli fékk ekki leyfi bæjaryfirvalda fyrir byggingunni fyrr en árið eftir og í brunabótamatsgerð 20. okt. 1929 er það sagt nýbyggt (5).
Gísli komst í fjárþrot í nóvember 1930 og 4. júlí 1931 keypti Ísbjörninn h.f. í Reykjavík húsið af Útvegsbankanum (6) en seldi það aftur Ásgeiri Péturssyni 5. maí 1933 (7). Ásgeir lét um sumarið byggja framan við það bryggju, plan og birgðahús sem var síðar notað sem vinnslusalur fyrir húsið.
Þetta var heldur lélegt hús, ein hæð úr timbri og bárujárni en vélahús steypt. Jón sonur Ásgeirs, Ólafur Þórðarson frá Laugabóli og Þráinn Sigurðsson fengu það til umráða 1939, létu lagfæra það og frystu í því fisk 1940 og 1941. Eftir það var aftur tekið að frysta í því síld en reksturinn lagðist að fullu niður 1952 eða 1953.
Ásgeir Pétursson byggði 1929 frystihús á lóð sinni milli Tjarnargötu og Vetrarbrautar. Húsið var að mestu leyti úr timbri, tvær hæðir, en 1930 var aukið við steyptri viðbyggingu. Samkvæmt blaðafrétt var það því nær fullgert seint í júlí 1929 (8). Þetta hús var rekið með vélfrystingu frá upphafi og eingöngu notað til beitufrystingar. Húsið stendur enn 1992.
Hraðfrystihús Ísafoldar h.f. var byggt á þrem mánuðum sumarið 1942; fyrsta skóflustungan var tekin 18. maí en fyrsta síldin tekin til frystingar 18. ágúst (9).
Hraðfrystihúsi Hrímnis h.f. var komið upp 1940 og 1941 í húsi sem Halldór Guðmundsson hafði byggt ofan á þróm Bakkevigsverksmiðjunnar með síldargeymslu í huga, að nokkru eða mestu fyrir tryggingarfé sem hann fékk eftir að tunnuverksmiðja hans brann. Hraðfrystihúsið var tilbúið til móttöku í janúar eða febrúar 1941. Þar var bæði fryst síld og fiskur um fjölda ára.
Síldarverksmiðjur ríkisins komu á fót hraðfrystihúsi á Siglufirði. Rekstur þess hófst 27. okt. 1953 (10). Þar var meðal annars fryst síld. Þormóði ramma h/f var afhent það til rekstrar 1. júní 1973. Ári áður hófst á vegum Þormóðs ramma h/f undirbúningur að byggingu nýs hraðfrystihúss á lóðunum vestan við hafnarbryggjuna. Það hús varð þó ekki fullbúið fyrr en 1983. Aldrei hefur verið fryst síld þar svo neinu næmi, en stöku sinnum teknir til geymslu smáslattar af aðfluttri síld.
Heimildir
1. Brunabótamat
Siglufjarðar 1916–1919, skírteini nr. 146.
2. Fram,
Siglufirði, 5. ág. 1922.
3. Sama
heimild.
4. Munnleg
heimild. Sigurður Gíslason, 1907 – 1993.
5. Brunabótamat
Siglufjarðar, skírteini nr. 401.
6. Þingmálabækur
Siglufjarðar. Litra A. 446.
7. Þingmálabækur
Siglufjarðar. Litra F. 492.
8. Siglfirðingur 20.júlí 1929.
9. Munnleg
heimild. Þráinn Sigurðsson, 1912 – 2004.
10. Benedikt
Sigurðsson. Brauðstrit og barátta. Úr
sögubyggðar og verkalýðshreyfingar á Siglufirði. II., Kópavogi, 1990, aðallega
bls. 135, 141 og 142.