Heilabrot og hugkvæmni: Samtal um sameiginleg hagsmunamál í menningar- og ferðaþjónustu á Norðurlandi
Síldarminjasafn Íslands, Safnafræði við Háskóla Íslands, Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) og Samtök Ferðaþjónustunnar (SAF) kynna með stolti viðburðinn Heilabrot og hugkvæmni: Samtal um sameiginleg hagsmunamál í menningar- og ferðaþjónustu á Norðurlandi, sem haldinn verður 4. apríl kl. 10.00 - 14.00 á Siglufirði.
Markmiðið er að viðburðurinn verði bæði skemmtilegur og gagnlegur en lagt er upp með að styðja og styrkja samstarf og samtal milli safna og ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og stuðla að sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Þá er mikilvægt að söfn, setur og sýningar annars vegar og ferðaþjónustan hins vegar leiði saman hesta sína og efli samtalið og samstarfið, ekki síst í ljósi þess að heimsóknir á söfn eru þriðja vinsælasta afþreying ferðamanna á Íslandi, á eftir náttúrulaugum og heilsulindum.
Fyrir hádegi verða tvær pallborðsumræður, í fyrri umræðu verða ræddir möguleikar í samstarfi innan Norðurlands og í síðari hugleiða viðmælendur áskoranir og úrræði í tengslum við ferðaþjónustu á Norðurlandi. Þátttakendur fá tækifæri til að spyrja spurninga og koma með athugasemdir.
Eftir hádegi verða tvær vinnustofur, annars vegar þar sem þátttakendur fá hagnýtar leiðbeiningar um markaðssetningu á samfélagsmiðlum og hins vegar samtals og samstarfs vinnustofa þar sem markmiðið er að að þátttakendur fái tækifæri til að spjalla saman, kynnast hvert öðru betur, koma með hugmyndir að lausnum vegna sameiginlegra áskorana og mögulega koma á fót skemmtilegu samstarfi.
Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn. Tilboð verður á léttum hádegisverð á Síldarkaffi.Vinsamlegast skráið þátttöku hér; http://bit.ly/4bztJZU